þriðjudagur, desember 30, 2003

áttaþúsund íslendingar þáðu hjálp sérsveitanna við að komast út í sjoppu. Smá torfærur eru nærandi fyrir sálina. Ég flissaði góðlátlega, klappaði litla rauð og tók strætó. Hann var seinn en hann komst á leiðarenda. Örfáar bitrar kerlingar létu bílstjórana heyra það, þær hefðu beðið lengi og væru nú of seinar í bingó - í annað sinn á ævinni, hitt skiptið var 1918- frostaveturinn mikla- þegar olían fraus. Strætó er vinur minn, ég þarf aldrei að skafa og það er alltaf heitt í strætó.

Við fórum til úrsmiðsins í dag til að taka hlekk úr jólaúrinu. Vinaleg afgreiðslustúlkan ætlaði að láta úrið á mig og ég rétti henni hægri, hún varð hvumsa og lét úrið falla niður í þeirri von að ég myndi átta mig og gefa henni kost á að setja úrið á vinstri. Eftir stutta bið bendi ég henni vingjarnlega á að ég setti úrið á þessa, hægri, og hefði alltaf gert. Konan hlítur að hafa verið strangúratrúuð því hún afbar það varla að setja úrið á ÞESSA hendi, blessaði sig og sagði hvern verða að hafa sína siði. Ég brosti eylítið en skildi konuna ekki alveg.
Ég vissi ekki að það væri einhver sérstök hefð að hafa úrið á vinstri. Hefur maður ekki úrið á þeirri hendi sem manni þykir þægilegra að líta á ? Ég biðst forláts en úr á hægri er bara nokkuð þægilegt þó syndugt sé. Ég óska eftir útskýringu á þessum vana.

Byrjaði að lesa bók eftir Dalai Lama og einhvern annan gæja um Dalai Lama sem lofar góðu. Það er hreint yndislegt að geta legið með gulrót í hendinni og lesið frá sér allt vit eins og maður hafi ekkert annað betra að gera....bíddu við.... ég hef ekkert betra að gera, er lífið ekki dásamlegt!!!!
Þakka öllum fyrir árið sem er að líða, takk. Vonandi mætir það nýja okkur með bros á vör.

mánudagur, desember 29, 2003

Gulrót í morgun mat, skyr í kvöldmat. Komið er að skuldadögum. Ég hleyp undan Helga, finn skjól og drekk vatn í laumi. Þori ekki fyrir mitt litla líf að skoða uppskriftir lengur.
,,Ambáttin" ágætisbók og ég með heimþrá, ég vil fara aftur heim í núbafjöllin, aftur heim. Undarlegt að fá sterka heimþrá á staði sem maður hefur aldrei komið á. Eins og þegar hún grét af trega eftir tónleikana með Cecaria Evora og þráði að fara aftur heim til Grænhöfðaeyja.

Mikill snjór og margir að nýta sér björgunarsveitirnar. Gott að fólk rífi sig fram úr sófanum og hafi nóg fyrir stafni. Ég ætla að taka strætó í kringluna.

sunnudagur, desember 28, 2003

Þeim dugir ekki dagur sem drekka fram á nótt. Ég þrái kók en hef ekki viljastyrkinn til að bera mig eftir því. KÓK... ég vona að kók ákveði að fara í göngutúr, banka uppá hjá mér og ,,selja sig" ódýrt. hmmm. Náttbuxur er eina afrek dagsins.

Búin að horfa á Leno of lengi, ég held það fari ekkert of vel með heilasellurnar, því bíð ég spennt eftir Titanic sem er mun vandaðara sjónvarpsefni.....Arg hvað ég er fyndin.

Orðtak dagsins er vaða elginn Þ.e. að tala í sífellu, að vaða úr einu í annað. Elgur merkir hér bleyta og reyndu flestir að forðast það að vaða elginn þar sem því fylgdi vos. Hér líkingin dregin að sá sem veður elginn öslar og skvetti í allar áttir - í orðum.

laugardagur, desember 27, 2003

Jólaköfunin var í dag. Góður hópur mætti, setti jólatré niður á 15 metra, kom hljómfluttningsgræjum fyrir og synti trylltan dans. Ég sá sóma minn í því að vera á bakkanum í ljósi þess að það var 14 stiga frost. Allir skemmtu sér vel skilst mér og þegar þessir frostklumpar komu á yfirborðið bauð ég kaffi. Ég minni á vinsælldakosningu kafara og geri ráð fyrir að vera þar ofarlega á blaði.

Nýjungin er að nú verður orðtak eða málsháttur milli þess sem að nýyrði er skráð. Með þessu framtaki treysti ég því að fá fálkaorðuna fyrir framlag mitt til íslenskrar tungu eða í það minnsta orðu háskólans.
Málsháttur dagsins er því Illt er að kljást við kollóttan og er hér vitnað í að erfitt sé að ná taki á hrút. Eins er með bragðarefinn, hann gefur ekki höggstað á sér, etur öðrum í foraðið og þykist svo blásaklaus sjálfur.

Bráðum fer að birta og er það vel

föstudagur, desember 26, 2003

Ljónynjan mætt fimmtán kílóum þyngri en síðast og er eiginlega það afvelta að hún á erfitt með að skrifa þennan texta. Allt blóð liggur ofaní maga og maður reynir að melta sem mest maður má.
Ynjan er mikið sátt við allan matinn og gjafirnar. Skemmtilegast þykir henni þó að sitja og skila við fólkið. Við höfum skraflað örlítið (eiginlega mikið) núna og ´mjótt verið á munum. Stundum hafa tennur sést og á öðrum tíma er leikurinn samvinnan uppmáluð! Hér er talað um foreldra og systkyni ef við á. Ég aumkunaði mig hinsvegar yfir Elínu, kærustu bróður míns og skraflaði við hana og Helenu. Mjög gaman allir í fíling, hjálpast að svo allir fái sem mest stig og þannig. SVO VINNUR ÓBERMIÐ MIG. Veit hún ekkert! Ég er brjáluð, ég er engin keppnismanneskja og tapa með sóma, hef lítinn metnað fyrir því að spila til vinnings en í skrafli á ég bara að vinna nema með einstökum undartekningum þegar ég skrafla við háaldraða foreldra mína. EN ÉG Á AÐ VINNA SKRAFL, ekki stundum ALLTAF. Arg hvað ég er vond, ill brjáluð, ég er strax farin að hugsa um andstyggilegar leiðir til að ná mér niður á henni. Eitt er víst ég spila ekki skrafl við hana aftur...... ALDREI. Til að taka af allan vafa þá marði hún þetta með einu stigi!!!

Orð dagsins er meski sem þýðir félagsskapur.

Kominn tími til að leggjast á hina hliðina og stynja, lesa í bók og narta í smá sælgæti
Hafið það gott og ekki gleyma ykkur sjálfum

miðvikudagur, desember 24, 2003

jólaynjan óskar landsmönnum gleðilegra jóla, ´goðra stunda og gæfu nú sem og alla tíð.

mánudagur, desember 22, 2003

jólatíðir er guðsþjónusta á aðfangadagskvöld eða jólanótt. Svo er jólnir orð úr goðafræðinni um Óðinn. Framlög dagsins til orða lokið.

Ég og tilvonandi tengdamóðir mín fórum saman að versla í jólamatinn, hún sagðist púnteruð eftir verslunarleiðangrinn - ég tvíelfdist og styrktist við þennan gang og tel mig vera fullfæra í fleiri jólaleiðangra.

Jafnframt hefi ég lofað að leggja fram óskalista en þegar maður ætlar loksins að leggja fram lista þá er höfuðið tómt og ekkert að skrifa. Svo sem og fyrri ár ætla ég að biðja um frið á jörðu.

Gleðileg jól og hafið það sem allra allra best.
Stefnan hjá mér er tekin í Bongóið á morgun, hlakka til sem fyrr að skrabbla, eta og allt sem tilheyrir.
Snæspör er suðurevrópskur fugl af vefaraætt. Þetta vissuð þið ekki!!

Enn einn dýrðardagur runninn upp, með látum. Það er stundum þannig að ef fólk vill kaffi, æðisgengið kaffi þá linnir það ekki látum fyrr en lönguninni er svalað. Því eiga borgarar það til að hringja fyrir allar aldir, spjalla í símann þannig að maður á erfitt með að sofna aftur, boða svo komu sína 15 mínútum seinna og því verður maður að fleygjast á fætur, henda helsta ruslinu inn í skáp, spreyja lyktareyði, fela vínflöskurnar, sparka fötum undir sófa og rúm, laga kaffi, mála sig og standa brosandi þegar að kaffifíkillinn kemur inn i örvæntingarfullri fráhvörf. Ekki það að ekkert kaffi hafi verið í boði, annarsstaðar þar sem að fólk var vakandi.....bara ekki nógu gott. Fyrir vikið er ég auðmjúkur þjónn, fórnarlamb mikið ósofin með í maganum eftir kaffidrykkju. Allt fyrir málstaðinn.

Skuldaskil Sverris Hermannssonar hafa glatt mig. Nú þegar að sjónvarpið er farið úr svefnherberginu, neyðist maður til að a) tala við manninn sem þráir heitt svefn sinn b) leggja sig sjálfur, sem er ómögurlegt þegar maður telst til náttug(g)la. c) sitja frammi fyrir framan sjónvarpið sem fyrr er það ómögurlegt þar sem drottningin sæla á það til að sofna í sófanum, vakna ekki fyrr en upp er risinn dagur...með hneggjandi höfuðverk vegna lélegrar líkamsstöðu og kjaftasögu um ósætti hjónaleysanna. Þá verður maður að taka upp gamlan og úreltan sið...lestur. Nú þegar ég hef náð augnhreyfingum aftur og þjálfað handleggsvöðvana í lestur er þetta ekki svo slæmt. Því segi ég..bóklestur er allra meina bót og þetta sjónvarp er ekkert annað en gleðispillir heilsbrigðrar æsku.
Þar hafið þið það
nokkrir dagar til jóla.....!!!!!!!!!!!

sunnudagur, desember 21, 2003

Því miður er ég ekki með orðabókina við hendina, slæ því inn orði dagsins í kvöld og þá er það opinberlega orð kvöldsins.

Skemmti mér konunglega í gærkveldi með nokkrum kennó dömum og ástmanni mínum. Góður matur gott vín og góður félagsskapur. Verst að manni endist ekki nóttin og um tvö var ég farin að flegja mér í gólfið og krefjast þess að fara heim. ,,frekjuaðferðin" virkar alltaf.

Það styttist í jólin eins og væntanlega flestir hafa gert sér grein fyrir, ég er að undirbúa scrabble or(r)ustu. Ég legg dag við nótt að lesa orðabókina, leggja á minnið orðmyndir og afvegaleidd eða úreld orð. Ég sit með stafina fyrir framan mig og mynda orð eftir skeiðklukku og þegar á hólminn er komið, grunar mig að keppinautar mínir muni skríða undir stól og biðjast vægðar. Eða þeir svindli bara. Það hefur komið fyrir áður og mun gerast aftur.

Jólainnkaup að mestu frá og búið að hrekja jólaköttinn aftur til fjalla. Ég held að jólakötturinn ætti að taka að sér nýtt hlutverk og nútímalegra. Það er að ,,ÉTA" burt aukakílóin sem leggjast á fólk yfir hátíðarnar ( ekki nema þau rati eingöngu til mín). Við þetta tel ég jólaköttinn fá uppreisn æru og góðvild manna í það minnsta mína. Ja há

Ég lýsi hér með eftir nýyrði yfir sushi (ekki hrámatur takk) það verður að vera lýsandi, íslenskt og aðlaðandi.

laugardagur, desember 20, 2003

Þegar fátt er að segja skal maður þegja.

Munið eftir smáfuglunum og gæsunum, hungurtímabil :-)

fimmtudagur, desember 18, 2003

Orð dagsins jólabörnin góð er velgur sem er hjálmur.
Íbúðin hefur verið nokkuð ,,dreifð" undanfarna daga vegna framkvæmda en þetta stefnir allt í betra horf og ef mér skjöplast ekki þá ættu jólin að koma án vandkvæða.
Ég er svo lánsöm að vera langt komin með jólagjafalistann, örfáir heimsborgarar eftir eins og Gösli.
Varð mér úti um eintak af ,,Sverrir skuldaskil" stefni að því að uppfræða mig um ósóma landsins og helstu yfirmanna til að geta skammast og rifist og hneykslast eins og eina kvöldstund.
Ég skellti mér í kertagerð í dag. Leiðbeiningarnar eru ekki flóknar. Haltu á kertinu fyrir ofan vaxpottinn, settu kertið ofan í vaxið, hífðu kertið uppúr og dokaðu augnablik, endurtakist eftir smekk. Ég skildi þetta vel, æfði mig í huganum og stefndi að miklum sigri í kertagerð. En æi litli auminginn... með fínhreyfingareinkunn 0 klúðraði þessu algjörlega og kom heim með einhverja bogna brúna ógnvekjandi klessu sem hefði mátt nota til að fæla Saddam úr holunni sinni en nei þetta var jólaföndrið mitt. Ástmaður minn horfði undan, muldraði ,,rosafínt" og breytti um umræðuefni.
Og hér sit ég....ekkert sár.
Þá er þessum dýrðardegi lokið. Játning dagsins er að ég er ekki hippi. Ég kann heldur ekki að dansa. búhú
Það gekk hundur fram hjá mér og spurði hvort ég hefði lesið bókina eftir Arnlýð og ég svaraði á móti að ekki væri rauðhetta til sölu. Við þetta fyrtist maðurinn við og hélt á rr fund. Eftir að hafa gengið lengi með geisladiskum og fleiri ljósálfum hvarlaði það að okkur að það gæti verið gaman að leggjast á götuna og láta bílana keyra yfir okkur í þeirri von að geta afsannað afstæðiskenninguna. Allt kom fyrir ekki uppskeran var kerti.
Kannski er rétt að taka uppá postulíni í ljósi fyrri atburða og koma betur fram við krókudílinn á neðstu hæðinni í þeirri von að fá að vera viðstaddur lýtaaðgerðina sem stendur til. Hætta að rækta kúta og svífa meira. Loftnotkun meðal kanína er langt yfir almennu meðaltali.
orð dagsins er pálreka sem er verkfæri til að stinga og moka með.
Lifið heil

þriðjudagur, desember 16, 2003

Óttalega er gott að vera búin í prófum!!!

Ósköp er gott að vera til

ógurlega er gott að vera ég

mánudagur, desember 15, 2003

Letiblóðið ég hef enga laungun til að læra, ligg heldur og horfi á lélegt sjónvarpsefni.

Fúkyrðin frussuðust á mig: Þágufallssjúklingur, skrollari, eignarfallsflóttamaður, flámælissjúlkingur og fleira ljótt sem ekki er hægt að hafa eftir.

Eitt próf eftir í þessum guðsvolaða skóla og þá ætla ég að skella mér í jökló. Það verður hressandi að þerra tárin, brosa smá og tala um gamla tíma. Fortíðarþráhyggjan er mér allt.

Herbergið mitt er allt í rúst, miklar breytingar og lagfæringar og og ég er bara orðin spennt, það verður skemmtilegt!!! Eftir svona breytingar líður manni eins og maður hafi flutt í einhverja fallega höll.

Náði loksins að berja þetta gróðurverkefni af mér og á nú enn eftir að skila því síðasta, stefni á morgundaginn. Ég vona bara að kennarinn verði kominn í jólaskap, verði jafnvel í jólaglögg og góðu skapi þegar hann fer yfir prófið......

Orð dagsins er dónalegt svo viðkvæmar sálir eru beðnar um að stoppa hér......Skuð er gróft orð yfir sköp (????!!!!????) konu eða kvendýrs eða 2. slangur um konu, stúlku......ég er þrumuskuð ( oog í vesælum bænum skiljið þetta samkv. seinni skilgreiningu.

Nóg af röfli

sunnudagur, desember 14, 2003

Í dag er ég nokkuð sorgmædd yfir grimmd mannanna. Enn meir svíður heimska þeirra. Ég er ekki stemmd til að vera með orð dagsins, þykir það óviðeigandi.

Stundum vildi ég óska að fólk gæti tekið sig til og hugsað þó það væri ekki nema örfáum sinnum svona rétt til að upplifa jólaandakvótann.

Fólk er fífl

laugardagur, desember 13, 2003

Orð dagsins er ofát, orð sem er mikið viðeigandi og lýsandi fyrir daginn þ.e. það að borða of mikið.
Ég vaknaði mygluð með höfuðverk í sófanum á hádegi í dag og hafði 15 mínútur til að breyta betlara í drottningu. Tók 16 mín sem verður að teljast viðunnandi. Mætti niður á Óðinsvé með manninum og við tók, þriggja tíma át. Já ÉG BORÐAÐI Í ÞRJÁ TÍMA. Ekki gáfurlegt en enga að síður gott.
Fór svo í vinnuna eitt augnablik og það var ágætt að eltast við manni fjörugara fólk, svona rétt til að fá meltinguna af stað.

Fór í jólaglögg í gær líka svo bráðum þarf að strengja band í mig svo ég blási ekki yfir í himinhvolfið.
Survivor fer í taugarnar á mér þar sem að niðurstöður eru ekki eins og ég vil hafa þær.

Mamma segist vera búin að kaupa sameiginlega jólagjöf handa mér og Helga svo nú hef ég tvær vikur til að komast að því hvað hún keypti. Annars fer að líða að því að maður geri jólagjafalista sem hægt er að færa jólasveininum og hann getur dreyft listanum.

Komið að lærdómi, nóg af hangsi.


föstudagur, desember 12, 2003

Svona góðan daginn með léttum og skýrum framburði.

Óþarfi að gráta þó drottningin hafi ekkert skrifað í gær, mikið um að vera.
Eyddi deginum sem og öðrum dögum í að blekkja undivitundina, taldi henni trú um að ég kynni námsefnið.
Svo kom að leiknum Snæfell- Haukar í Hafnarfirði. Það er alltaf gaman að fara með stóra bróður að horfa á litla bróður en leikurinn var dapur! ÉG öskraði lítið, skammaðist ekkert í dómurunum, veitti andstæðingum ekkert aðhald og hélt röddinni! Miðað við mælikvarðan var þetta ÖMURLEGUR LEIKUR og ég krefst þess að ég upplifi meiri spennu næst.

Það stefndi allt í spennuhrynu í siðfræðiprófinu en það er ósköp lítið spennandi að vita ekki neitt. Ef hart fer í hart og ég fell á þessu prófi þá ætla ég beint niður í ráðuneyti og krefjast þess að fá viðurkenningu á því að siðblindir séu líka blindir (eins og konur eru líka menn) og krefjast þess að fá kennsluréttindin á fati eða kræsilegar örorkubætur.

Úlfúð er orð dagsins sem merkir fjandskapur, óvinátta, ósætti. Úlani er þó miklum mun skemmtilegra orð og mun vera kesjuriddari, léttvopnaður riddari. ....Ég er ekkert viss um að það sé hollt að lesa svona mikið í orðabókum.

Hamhleypan textahöfundurinn er kominn á skrið og ef allt gengur eftir verðum við dömurnar heimsfrægar innan skamms. Leoncie má fara að gæta sín ef hún ætlar að halda velli.

greifynjan kveður

miðvikudagur, desember 10, 2003

Alheimur sofynja heilsar

Orð dagsins er beyla sem mun vera herðakistill eða kryppa, jafnvel notað sem gæluorð við barn um líkama eða kropp!!!!!

Lítið um fréttir af vígstöðunum. Gervilærdómur í kvennastöðinni hressir bætir kætir. Dagurinn í dag var í fyrsta sinn lengi þar sem ég drakk ekki yfir mig af kaffi og missi því af kaffiskjálftanum sem annars hefur verið með mér undanfarna daga.
Eitthvað hefur dregið úr bloggnotkun og mér leiðist þegar fólk bloggar ekki. Þá á ég svo erfitt með að koma mér undan lærdómi. Skamm þið lata fólk.

Ég hefði getað farið á Muse svo ekki en svo og aftur ekki og svo getað farið og svo ekki þannig að ég fór aldrei. Mig langaði heldur ekki neitt.

Ofát í prófum er eitthvað sem á örugglega erindi í siðareglur kennaranema. Maður er eins og fjalltennt geit eftir lélega sumarbeit sífellt etandi. Þó ég gjarnan vildi halda því fram að brokkolí og sellerí væru á boðstólunum veit ég að því yrði mótmælt og fólk myndi klaga mig svo ég segi ekki neitt um veitingarnar annað en það að brokkolí er ekki í boði.

Mér þykir vænt um þig, takk fyrir að lesa.

þriðjudagur, desember 09, 2003

Afsakið ég verð bara að koma þessu að. Ég reyni að hætta að hlæja en það gengur ekki...eftirfarandi er úr grein af mbl.is Bæjarstjóri í smábæ í Kaliforníu vill að sýslumaðurinn í Kernsýslu reki lögreglumann fyrir að kalla sig „dude", en það er bandarískt slanguryrði sem ungmenni nota gjarnan hver um annan og hefur stundum verið þýtt á íslensku sem „melur". MELUR besta orð í heimi. ,,Melur, hvar er bílinn minn" . Skv. íslenskri orðabók mun melur annars vegar vera svæði þakið möl eða smásteinum, hæð, hóll, getur verið kindarspörð eða í grasafræði melgresi. Hinsvegar er það mölur, eyðsluseggur og skammaryrði! Takk fyrir mig mbl.is :)
Orð dagsins er hrökkbrauð sem er þunnt, stökkt og þurrt brauð oft ferkantað.

Ég get ekki farið að skæla núna, því miður, ég reyndi lengi að finna eitthvað til að skæla yfir og allt kom fyrir ekki. Þetta próf var langt frá því að vera erfitt og var eiginlega það auðvelt að ég trúði þessu ekki og reyndi því að finna atriði til að þyngja prófið en það eina sem ég hafði upp úr því var lengri yfirseta. Ég er óendanlega glöð yfir því að hafa verið svona mikill tossi og lært svona lítið því ég væri svo fúl yfir því að vera með uppfullan hausinn af óþarfa upplýsingum sem svo hefðu ekki nýst mér fyrir prófið!!!!! Hugsa jákvætt skiptir öllu.

Ég stefni þó að því að læra aðeins meira fyrir næsta próf.
Ef prófið ykkar er merkt með N þá vil ég benda ykkur á að það er hvorki núll né níu. Þessi stórkostlega athugasemd merkir (leitið) NÁMSRÁÐGJAFAR. Allt föla pissið mitt endar næstum í buxunum við þennan brandara.

meir um það síðar
Brosið sólskin er gott fyrir tennurnar

mánudagur, desember 08, 2003

Góðan daginn góðir hálsar (ég er að springa úr hlátri yfir eigin athugasemd, hálsar hahaha, sjá pistil gærdagsins).

Það kom að því að ég færi í fýlu út í orðabókina góðu. Orð dagsins er heimsáfir það er áfir sem kreistar eru úr smjöri þegar það er handhnoðað ( þeir sem þótti þær góðar voru taldir mikið upp á heiminn). Nauðsynlegt orð í nútímaheimi. Ég veit ekki með ykkur en ég vissi ekki hvað áfir var svo ég geri ráð fyrir því að vitneskja ykkar sé ekki meiri,,,, áfir er lögurinn sem verður eftir þegar rjómi er strokkaður og var áður nýttur til drykkjar og í ýmsan mjólkurmat... meir að segja er til áfagrautur sem er grautur úr áfum með mjölákasti. En nú er ég komin með tvö orð. Betur að því afhverju ég er brjáluð. engin athugasemd er sett við´heimsáfir en ég myndi telja þetta orð úrelt og eiga vera merkt með krossi sem þyðir fornt eða úrelt mál ekki satt. Svo er orðið hindurvitni merkt með krossi og ég myndi telja það gott og viðeigandi orð. Ég er brjáluð brjáluð, ég verð með næst þegar íslensk orðabók verður gefin út!

Próf próf próf....engin lærdómur enginn lærdómur mikið talað. Ég blaðaði í gegnum bókalistann en sat mest útí horni í tepruskap mínum og flissaði. Stelpurnar sögðu svæsnar sögur sem ekki er hægt að hafa eftir í ljósi þagnareiðsins. Ég er tepra...því miður...orð á við rass, kúkur, píka fara alveg með mig. Tala nú ekki um ef þessi orð eru sett í eina og sömu söguna af meðal-jóni. Ég er tepra sem get ekki hvíslað (get það alveg en það er óhollt).
Annars vildi ég þakka stúlkukindunum fyrir ánægjulegan dag og biðja þær að ritskoða skemmtisögurnar sínar. Fyrirgefiði.

Kærastinn (afsaka rangaorðnotkun áður) var að koma inn með rjúkandi heita og gómsæta pizzu og ég stefni að því að fara í kappát við hann núna og slugsa svo fram eftir kvöldi með þá fullvissu í höfðinu að ég viti allt um upprunaframburð og staðbundnar mállýzkur.
Ef svo er ekki mun ég skæla hér á morgun.

Pizza PIZZA pizza

sunnudagur, desember 07, 2003

Orð dagsins er slóðalöpp sem mun vera ónytjungur og skussi. Hver dagur er uppgvötun þegar kemur að íslensku orðabókinni.

Skellti mér snemma á fætur til að meðtaka vísdóm íslenskunnar en fræddist sem fyrr meir um mannlegt líf.
Þó veit ég nú að hvísl fer illa með röddina og heiti ég því að hvísla aldrei aldrei aftur. Ég ætla að tala skýrt og áheyrilega án þess að vera með ofvöndun eða rangar áherslur. Ég ætla að láta af óskýrmæli og fyrirlíta nýja flámælið. Þágufallssýki heyrir nú fortíðinni. Ég mun standa bein í bakið og gæta þess að nýta mér þindaröndun við hvert tækifæri þannig að bumban á mér stendur þanin út í loftið. Ég mun taka loftsýni reglulega og gæta að rakastigi. Ég mun gera öndunaræfingar að morgni til eins og hoho æfinguna og taka tónskalann á morgnanna í sturtu. Ég stefni þó framar öllu að gera kjörorð mitt að ,,ég pissa fölu". Svo stefni ég að því að loka mig ofaní heilbrigðu holunni minni og skrifast á við ljósberann minn.........

Apynjan hefur ekkert fleira til málanna að leggja enda snar heilög eftir gluggalesturinn


laugardagur, desember 06, 2003

Ágætu sveitungar

Ég vaknaði í fýlu sem gæti drepið búrhval, skildi ekki ósvífni ektamannsins að bjóða mér hafragraut og hvað þá að spyrja AFHVERJU ég vildi hann ekki!! Var langt fram á dag að jafna mig á þeirri staðreynd að ég væri vakandi.

Fór eftir vinnu á meyjarskemmuna að læra og endaði í sögustund sem var nokkuð gott, yndælt að grenja úr hlátri af og til .... ég held að ég muni kunna söguna um skyr.is um ókomna tíð en gleyma þessu prófi fljótlega eftir jól.

Orð dagsins er stagaður .... feitur sbr. stagaður hestur. Ég er þessari orðabók óendanlega þakklát.

Gestabók - gestapó
Kveð að sinni
Forynja

föstudagur, desember 05, 2003

Góðan daginn alheimur!

Letihaugur er víst rétta orðið yfir mig í dag. Lítil er reisnin þessa stundina. Vaknaði eldsnemma í morgun og skellti mér á kaffihús með henni mömmu. Sat þar í nær fjóra tíma og skeggræddi lífið og tilveruna. Æðislega skemmtilegt. Ég mæli með þessu, að sitja á kaffihúsi með mömmu svei mér þá nokkuð notalegt.

Orð dagsins er struntur en það mun vera há og mjó klettstrýta og/eða veigur, kraftur...eða eins og maður myndi segja það er struntur í þessu (á við um sterkt kaffi). Þetta vissi ég allavega ekki.

Ég var næstum búin að gleyma atriði gærdagsins þegar ég fór á Körfuleik með snæfelliog Njarðvík. Sjónvarpið sagði Njarðvíkinga hafa tekið hólmara í kennslustund, líklega satt, sorry gamli gráni.

Einhversstaðar djúpt í sálarfylgsnum mínum er keppnismanneskja sem missir sig alveg á svona leikjum. Hvetur sína menn, skammar andstæðinga, veitir dómurum aðhald með misgóðum athugasemdum og missir röddina. Þessi manneskja dettur einhvernveginn inn í leikinn, verður hann. Gallinn er sá að hún er ekki alveg með reglurnar á hreinu og á það til að klappa á röngum augnablikum. OOOOOPS.
Ég þjáist líka af íþróttameiðsum sem verða rakin beint til leiksins, sprungin æð í lófanum og það er vont að keyra. Enginn sársauki í strætó :-)

Ég stefni að því að eyða deginum í að koma mér undan lærdómi.

Annars þykir mér Ragnhildur yndisleg

fimmtudagur, desember 04, 2003

Sæl enn á ný.

Fimmtánþúskrónaorð dagsins er Kengála en það mun vera villingsleg hryssa, horær eða stelpugála. Gott að geta slegið um sig í slúðrinu og sagt að hún sé kengála.

Dagurinn hefur farið í kaffihúsahangs, sem er alltaf upplífgandi að umgangast skemmtilegt fólk.
Ég sat í strætó þar sem að eldri kona settist á móti mér og gætti sín sem mest hún mátti að líta ekki einu sinni til mín og ég þori að veðja að hún gæti ekki sagt hvernig ég lít út þó hún ætti lífið að leysa. Er ekki málið að hætta að vera svona hræddur, við sauðsvartan almúgan (nema náttlega að hann sé illa fjalltenntur) brosa aðeins framan í tilveruna.

Heilsufríkið ég fer á körfuboltaleik nú í kvöld, svona til að missa röddina og peppa upp andann. Ætli það sé ekki best að draga fram liðsbúninginn og byrja að mála sig!!!!!

miðvikudagur, desember 03, 2003

Sælt veri fólkið.
Forynja mætt að þessu sinni.

Var að standa uppfrá matarborðinu, eftir að hafa svolgrað í mig dýrindisgrænmetispítsu, sem vakti reyndar ekki lukku allra viðstaddra.
Ótrúlega gott að vera búin að skila af sér helstu verkefnum og geta einbeitt sér að afsökunum fyrir því að læra ekki undir´próf. Mér skilst að þetta sé algengt meðalæsku landsins.

Dýrindis dagur, eftir mikið sof, drattaðist ég á brennsluna með Helga, þar hittum við skemmtilegt fólk á við Palla, Óla Örn og svo hana Elísabet sem ég hef bara ekki séð í háa herrans tíð. Eftir skemmtilega samverustund, fórum við til Matta að drekka kaffi sem var óvenjugott og þegar allt stemmdi í að ég þyrfti að læra þá........hringdi marta og lýsti sömu sjúkdómseinkennum, einbeitingarskorti og því skellti ég mér þangað og drakk meira kaffi.
Alltaf gott að slóra.

Sá fréttir áðan og get ekki verið sammála umhverfisráðherra í umræðunni um Rússland og Kyotobókunina og vitna í eitthvað sem ég fékk stundum að heyra þegar ég nennti ekki að fylgja reglum samfélagsins ,, þú ert ekkert betri þó einhver annar sé verri". Orð að sönnu.

fimmtánþúsundkróna orð dagsins er fjalltenntur og það mun vera um sauðfé sem er nægilega vel tennt til að reka á fjall. Þetta vissuði ekki

þriðjudagur, desember 02, 2003

Halló halló
Fornynjan sjálf með ádeilu á lífið og tilveruna, fylgist spennt með!
Soffía