miðvikudagur, mars 31, 2004

ó mig auma

Ég finn hvernig sýklarnir setjast að í líkama mínum og ráðast á annars öflugt varnarkerfi. Sýklarnir eru fleiri þessa stundina. Eymsli í hálsi, verkir í höfði og tilfinning um allan kroppinn um að nú sé minn tími til að deyja. Leggjast miður, veslast upp og deyja.
Þegar maður er með ólæknandi krabbamein, eyðni og aðra illviðráðanlega sjúkdóma svona frá degi til dags er ekkert grín að þurfa svo að takast á við flensu.
Sem hálfur víkingur eða í það minnsta vinur hans ætla ég að standa á fótunum, hef einhvern veginn ekki tíma til að veikjast.

Ó mig auma

Skar er úrelt orð yfir óeirðir, illindi, jafnvel dramb og drembilega framkomu.
Hugleiðing dagsins er hver er munurinn á því að pissa á sig eða pissa í sig?

hnerr

þriðjudagur, mars 30, 2004

Fyrir nokkrum árum horfði ynjan lítið á sjónvarp, ekki meðvituð ákvörðun þannig. Þar fann hún ekki þá afþreyingu sem hún sóttist eftir.
Sú var tíðin að ynjan fékk ekki eitt einasta dagblað á heimilið. Grét ekki hátt, horfði helst á fréttir og sat stöku sinnum á kafiihúsum bæjarins og las blöðin. Ekki má gleyma sælunni við að fá sendan póst frá Hagkaup eða Elko. Þetta voru hér í gamladaga prýðispóstar. Ynjan man heldur ekki eftir því að hafa hlotið varanlegan skaða af, nema kannski ekki alveg verið inn í umræðunni en af sinni alkunnu snilld, laug hún sig út úr dægurmálaumræðunni, skáldaði í eyðurnar og einstaka sinnum þagði hún af fávisku, en laug þó heldur.

Svo kom Fréttablaðið, stopult, en vissulega var notalegt að sitja í eldhúsinu að morgni til og drekka í sig fróðleik um samfélagið og líðandi stund. Ilmurinn dásamlegur og meira kaffi drukkið en ella áður en lagt var af stað. Þegar lítið var um fréttir gat maður prófarkarlesið fyrir blaðið, merkt inn í með rauðum penna og jafnvel skrópað í einum tíma eða svo. Í þá tíð grét maður úr hlátri yfir innsláttarvillum og öðrum villum að nóttu til (eða fyrir 8 á morgnanna). Jú fréttablaðinu var tekið fagnandi þegar það kom.
Svo stappaði blaðburðarstúlkan (pólitísk ákvörðun) í sig stálinu og byrjaði að bera út á hverjum degi. Nú var það komið inn í rútínuna að lesa blaðið og hálf manneskja var ynjan ekki ólesin. Því miður fer villunum fækkandi.

Morgunblaðið komst á snoðir um að fúllyndustu ljón jarðar (El ynjos) voru nokkuð jákvæð fyrir hádegi með Fréttablaðið og ákvað að sjá hvort ekki væri hægt að hagga næðistund þess. Innrás morgunblaðsins var hafin. Ágætt alveg. Tvö prýðisgóð blöð snemma morguns og enn meiri ástæða til að skrópa í tímum hins lærða manns. Ynjan las blöðin dálkanna á milli og heyrði nú lygi hennar sögunni til.

Og þá kom DV í hatrammri baráttu um anda ynjunnar í póstkassann. Aðstæðurnar voru nokkuð óþægilegar, lestur blaðanna tók orðið óralangann tíma en blessunarlega sat ynjan kaffimett í eldhúsinu og skólaheimsóknir heyrðu sögunni til.
Ynjan stoppaði ekki lengi í paradís, hún sá fram á að komast ekki í skólann nokkurn tímann aftur, kaffið var búið og ljósaperan sprungin. Að auki er DV sorp sem hún vill ekki láta bendla sig við.
Hvað er þá til ráða?
Jú réttilega alveg það sama og ynjan hugsaði. Skítt með kaffið, niður með blöðin og lengi lifi nætursvefninn.... Það skaðar ekki að ljúga í dægurmálaumræðunni til að halda haus.

sunnudagur, mars 28, 2004

Langt er liðið á nóttina. Það er ótrúlega hljóðlátt í seli jöklanna. Ró sem maður er ekki vanur lengur. Snjókorn falla á stéttina og bráðna jafnóðum. Þögnin er yndisleg.

Röddin yfirgaf ynjuna, kannski ekkert vit að standa og öskra í klukkutíma. Þeim svíður... Hver hefði trúað því að ynjan ætti eftir að fylgjast með íþróttum? Jájá þeir tóku þetta...nei rosalegt að sjá þetta í öðrum leikhluta, blablablablabla. Ynjan hefur meir að segja lesið íþróttasíðurnar. Ætli þetta sé ekki tengt flensunni? Líði hjá og hverfi eins og allar góðar pestir? Ynjan hefur allavega hug á að stofna klúbb, hvað þá heldur að ganga í íþróttabuxum. Ynjan treystir því að fólk fyrirgefi henni þennan karakterbrest í bili og jái sig í gegnum íþróttatalið.

Ynjan varð vitni að ,,besta svari" Gettu betur spilsins fyrr og síðar. Spurt var um land í Evrópu. Íbúar þessa lands voru helst þekktir fyrir að þrauka hungursneyð´með því að lifa á kartöflum. Slegið er á bjölluna. ,,Þetta eru írar..andsk...Dublin...þetta eru írar, hvað heitir landið..andsk...Landið er FRAKKLAND



miðvikudagur, mars 24, 2004

Hún heyrði bíl nálgast, stökk fram, opnaði bréfalúguna, en sá ekkert. Hún ætlaði ekki að láta einhvern póstmann hafa sig út í þá vitleysu að opna útidyrahurðina til einskis. Ekki vill hún láta nágranna og póstinn halda að hún hafi ekkert annað betra að gera en að bíða eftir póstinum. Aldeilis ekki, hún er önnum kafin.
Hún finnur það samt að innra með sér er hún óróleg og þreytt, það er langt síðan pósturinn kom síðast, skammarlega langt síðan og hún veit innra með sér, hún veit að bréfið kemur núna. Hún finnur það, sér það í skýjunum og hjartað í henni slær hraðar. Mjög góð merki allt saman.
Hún sest aftur á kollinn í eldhúsinu, sem næst forstofunni og leggur við hlustir. Hún hefur ekki kveikt á útvarpinu síðan að póstmanninum seinkaði, hún ætlaði að ná í póstinn strax, um leið og hann dytti inn um lúguna.

Svo heyrist smellur, hún þýtur á fætur og horfir á lúguna. Það kom að því, það hlaut að koma að því.

sunnudagur, mars 21, 2004

Vorið reynir að hanga svona fyrir sólaraðdáendurna, jafndægur er liðið og ekkert nema sól og gleði framundan.

Við hjónaleysin höfum verið í óbyggðum (Borgarnesi) mestan part helgarinnar.
Á laugardagsmorgun´(nótt´) vaknaði ynjan hress, hóaði meðlimi fjölskyldunnar í morgunmat fyrir sjö, kvaddi með virtum og flaug á glæsifleygi sínu í borg óttans. Skemmtileg tónlist, fallegt útsýni og birta sem fyllir mann von og gleði. Ynjan mætir rétt fyrir eldsnemma til vinnu, .... og er svo 2 tímum of snemma. Það var fínt, sitja og drekka kaffi meðan maður horfði á samstarfsmenn sína strita. Sem betur fer gaf leifurinn sér tíma til að gleðja ynjuna svo ekki var þetta alslæm stund, langt því frá.
Í lok vaktar yfirgaf ynjan ósómann, hélt í sveitina og er með sterk einkenni ofdekrunar.

Hún stefnir að því að mæta á réttum tíma í vinnuna í dag :)

föstudagur, mars 19, 2004

jæja

Vaknaði 6.45 hress og kát og byrjaði að pakka ofaní ferðatösku, tók 4 af öllu, setti niður snyrtidót og gjafir. Tók til vegabréfið, tryggingarnar og aðra pappíra. Nokkrar bækur setti ég í handfarangurinn, m.a ferð á þjóðveginum og orðabækur. Ég þreif íbúðina hátt og lágt svo aðkoman væri góð, svona ef eitthvað kæmi uppá, skrifaði helstu ættingjum bréf og hef verið í símasambandi til að tilkynna fjarveru mína, staðsetningu, áætlaðann komu og brottfarartíma. Ég mun að sjálfsögðu hafa saman við komu og láta vita að allt sé í góðu lagi. Ég held allt komið en þarf að fara einu sinni enn yfir gátlistann minn. Ferðin verður erfið en ég hef pakkað nauðsynlegum ferðafélögum og ef ske skyldi að bjúgurinn væri óbærilegur, hef ég pantað piparmyntukælikrem. Þessi ferð mun takast vel.

Svo ætla ég að bruna í Borgarnes Cittttty um miðjan dag og kem líklega aftur í kvöld eða eldsnemma í fyrramálið.

fimmtudagur, mars 18, 2004

Fjærsveitungar sem og aðrir nærsveitungar

Orð Mörtu eru orð að sönnu, skíni sólin er ekki talað um annað en veðrið, fólk rífur af sér ullarfatnaðinn, pakkar loðfeldinum og setur upp sólgleraugu, gleymir svo að skoða veðurspánna. Það er alltaf með eindæmum gaman þegar sólin skín og fallegt og jákvætt fólk um alla borg.

Síðasti dagur í æfingakennslu að baki, ég held að æfingin hafi gengið vel og ekkert slor að vera kvaddur með rós og knúsi. Ég reyndi nú að forðast eitthvað þessi knús, hrædd um að valda börnunum skaða. Undarlegt að hafa það á tilfinningunni að maður sé 6000metrar á hæð og geti með andardrættinum einum feykt nemum um koll. Vissulega má valda miklum skaða með andremmu en ég óttast það lítið.

P.S muna að lífið er dásamlegt.

Stjank er stuna eða andvarp



þriðjudagur, mars 16, 2004

Klaufynjan er hnuggin í dag

Alltaf ætlar hún að vera góð og réttlát, siðsöm og prúð, en oftast er hún klaufsk. Einhver snillingurinn sagði að mistökin væru til að læra af þeim. Ynjan lofar því. Svo lofar hún líka að horfa niður fyrir sig næst.

Trölldómur er annað orð yfir galdra, fordæðuskap

mánudagur, mars 15, 2004

Nærsveitungar!

Vorið er komið! Formleg tilkynning frá veðurynjunni liggur nú fyrir.

Sem og sönn húsfrú var ég innandyra, með tuskuna á lofti og skrúbbaði allt sem fyrir var. Ronja hefur verið í svipuðum verkefnum undanfarið en ég veit að hún á ekki handbók heimilisins og því verður henni lítið úr verki. Handbók heimilisins byrjar fyrsta kaflann á mikilvægi skipulagningar. Ynjan er nú ekki ýkja tuskuóð og hefur sjaldan fengið uppnefnið skipulögp, steinarnir og glerhúsið eiga hér við.
Svona fyrir þá sem nenna þá er uppvask alveg hreint fáránlegt orð. Uppvask! Spáið í þetta

Svo má velta því fyrir sér hvort leyfilegt sé að nota forskeytið ör- svona þegar manni langar. Örþreyttur og örsmár er viðurkennt. Má segja örþjáður? Örglaður?

Börn eru nokkuð dásamlegar verur, svona þegar maður er hættur að óttast það að stíga á þær. Ég verð örlítið hnuggin að hugsa til þess að kennsla hefjist aftur hjá mér bráðlega. Svo er ég heppin með samstarfsfélaga og hver stund innan skólans er demantur.

Ynjan sá að vefdagbókin hennar er svo vinsæl og víðlesin að danir leggja á sig stíft nám þessa dagana í íslensku til að skilja ljósið! Alltaf eru latir námsmenn, danir engin undantekning, því bað ein daman mig að skrifa á dönsku!

Spise du dansk og snakke du pannekager. Ég veit ekki hvernig landinn tekur í þetta. Þá getur hann alltaf sótt ráða hjá vodkanum.

Ynjan er ekki bara skemmtileg heldur bráðfyndin líka. Þangað til næst...................


sunnudagur, mars 14, 2004

Ynjan hefur strokað út hverja setninguna á eftir annarri. Reynir að skrifa það sem henni býr í brjósti, en er hrædd um að vera misskilin. Gjörðir hennar eru nefnilega teknar sem hermileikir, hún er víst alltaf að reyna að vera eins og aðrir, þó hún reyni eftir fremsta megni að standa fyrir sjálfan sig og hafa gjörðir sínar í samræmi við það. Einhvernveginn taldi ynjan sig geta gert það sem hún vildi. Svo er ekki.
Kæru meðbræður (og systur) niðurstaðan er að hún lofar að passa sig betur næst.





föstudagur, mars 12, 2004

já góðan dag nærsveitungar

Ynjan man sinn fífil fegurri...nei heyrðu...hef ég skrifað þetta áður? Þá gengur það ekki. Ynjan er hress, þekkir ekki stress.

Lús, þetta litla orð, sem fylgir þessari litlu veru, gerir líf mitt spennuþrungið og á köflum fyllt ofsóknaræði og samsæriskenningum. Svo virðist sem lúsin hafi sér í lagi gaman af börnum, þeim sem umgangast mig. Börnin með lýsnar vini sína eru svo kjassandi nálægt manni að maður finnur fyrir kláða, ofsafengnum kláða....svo miklum að maður klórar sér og klórar og eflir hugsun sína um lýs margfalt.

Gamalt og gott ráð við þessum óvinum er að kemba hárið og leita sem ynjan hefur gert, oft á dag, helst á svefntíma líka og enga lús finnur hún. Þá kemur samsæriskenningin upp, .....þær liggja í felum á vegum CIA í hársverðinum, eru þarna og það verður erfitt að nálgast þær þrátt fyrir mikla kembingu.
Ég skoðaði handbók heimilisins, þar er eingöngu talað um lýs á gæludýrum og orðið brenna kemur óþægilega oft fyrir. Treysti mér ekki alveg í þær framkvæmdir.
Ynjan ætlar að kemba hárið...bara til öryggis...einu sinni enn.

Góða og kláðalausa helgi

miðvikudagur, mars 10, 2004

Latynjan hefur ekki tjáð sig í nokkra daga og eftir fjöldaáskoranir bloggar hún nú, örþreytt, allt fyrir almúgann.

Ynjan er nokkuð súr þennan daginn, súrynja kannski? Þannig er að þegar Drottningin góða ákvað að leyfa alheiminum að njóta snilli sinnar, reyndi hún bloggtitil eftir bloggtitil og allir uppteknir. Svo kemur þetta snilldaryrði YNJA, gott viðskeyti, hægt að nota eitt og sér. sjaldgæft og gott að henda inn forskeytum eftir skapgerð, þó fáir hafi lesið um kátynjuna! SVo hrynur heimurinn þegar ynja er nafn á litlum sætum stelpum í sollanum í Reykjavík, fórnarlömb tískunafngiftar. Hvað á það að þýða? Æji ohh.

Þetta er svona eins og þegar Birgitta Haukdal eyðilagði sjálfsmynd ynjunnar hér um árið, fyrst stal hún hárgreiðslunni, svo afmælisdeginum.
Mikið er á ynjuna lagt!

Stundum skil ég ekki af hverju stjórnendur landsins eru fullorðnir og teljast jafnvel rosknir þegar að lævísustu manneskjur jarðar og jafnframt þær útsmognustu eru í grunnskólum landsins, ófermd. Harðir glæpamenn á við ynjuna sem hefur migið í saltan sjó, kallar ekki allt ömmu sína, verður daglega fyrir barðinu á úthugsuðum herklækjum til að koma sér vel í haginn. Ekki aðeins daglega heldur á hverri klukkustund, jafnvel oftar ef út í það er farið en ynjan er ekkert bitur ef það hvarlaði að einhverjum, kannski sár en ekki mikið bitur.

Svo hefur orðið handklæði flækst mikið fyrir mér undanfarna daga. Skv. orðabók er handklæði klútur, dúkur til að þerra sig með, þurrka. Hvað er það?
Afhverju í ósköpunum er talað um handklæði þegar maður þarf að þurrka sér, handklæði er mun betra orð yfir vettlinga tildæmis. (klæði fyrir hendur). Afhverju er handklæði eins og við þekkjum það í dag ekki þerra eða þurrkklæði? Engin rök fyrir þessu. Handklæði er ekki einu sinni handklæði þegar maður þerrar á sér hendurnar því þá er það handþerra og klæði kemur þar hvergi nærri. klæði er skv. orðabók fatnaður.
ynjan fussar í óveðrinu yfir villuorðum samtímans.

sunnudagur, mars 07, 2004

Ég er með harðsperrur í vöðvum sem ég vissi ekki að væru til! Lærum saman, GAMAN.

Hjónaleysin við fórum ásamt hjúunum í Bongó á CHICAGO. Nokkuð lífleg sýning sem betur fer, því eitthvað átti kroppurinn erfitt með að losa sig við köfnunarefnið og vildi helst ekki gera það vakandi. Ég sýni ótrúlegan styrk enda kannski fulldýr gisting. Gott kvöld með góðu fólki.




föstudagur, mars 05, 2004

Hún ætlaði ekki að klikka á þessu eins og hún Svava forðum daga. Hún sat og beið orðin óróleg og kvíðin. Maður veit nefnilega aldrei hvort maður fái bréf, svo er líka hættulegt að borga ekki reikninga á réttum tíma. Til að allt gangi upp verður pósturinn að koma. Þeir segja hann á leiðinni var svarið sem hún fékk þegar hún loksins náði sambandi. Á leiðinni. Eins og það sé einhver lausn? Margoft var hún búin að fara yfir viðbrögð sín í huganum. Aftur og aftur, hvert smáatriði var vandlega hugsað og hver andardráttur var skipulagður, allt fyrir komu hans. Hún var búin að færa stólin nær dyralúgunni svo það væri öruggt að hún myndi ekki missa af honum. Almennt sat hún fram eftir kvöldi og drattaði sér svo í rúm, en hún var komin eldsnemma að forstofunni, til að tryggja að ekkert myndi fara fram hjá henni. Stundum heyrði hún þrusk, sperrti eyrun og stóð jafnvel upp, en engin var kominn að bæ. Hann er á leiðinni, en sú huggun!

miðvikudagur, mars 03, 2004

Eftir að hafa vafrað óhugnarlega lengi á vefnum er ég ekki viss um að hugsun mín sé skýr. Ég er þó ekki að halda því fram að hugsunin sé almennt skýr.
Margir í netheimum hafa á orði að ekki sé hægt að kaupa hamingju og að hamingjan fæðist innra með okkur og ytri aðstæður hafi þar ekkert að segja. Hannes Hólmsteinn vill þó meina að ríkur maður þyki þolanlegra að vera óhamingjusamur. Hamingjan fæst ekki á ,,dönskum dögum" í hagkaup og Bónus hefur enn ekki boðið hamingju á kostaverði. Stundum hefur mér fundist eins og betra bak hafi boðið hamingju en það er þá aðallega þegar kemur að vellíðun í svefni. Menn segja að stéttir og staða hafi þar ekki áhrif. Geðlæknar eru eflaust gott dæmi.
Flestir kyrja þetta fullum hálsi ,,hamingja fæst ekki í búð" eða eitthvað á þá leið meðan þeir vinna yfirvinnu til þess að geta keypt nýjan sófa eða bíl eða hús. Öll erum við tilbúin að leggja aðeins meira á okkur til þess að eignast hluti, sumir telja þessa hamingju í minningum og streða fyrir sólarlandaferðum. Þarna erum við komin með mótsögn i athöfn ogorð. við segjum að hamingjan sé ekki söluvara en hegðun okkar bendir alltaf í þá áttina að hún sé það. Hvað virkar ekki hérna. Eigum við að viðurkenna það í eitt skipti fyrir öll að við kaupum okkur hamingju í hvert sinn sem við vinnum aukavakt til þess fjárfesta meira?
Margir standa sig að því að gagnrýna fólk ,,sem ekki nennir að vinna" sama á hvaða forsendum það er því vinna er dyggð og ef þú vinnur ekki áttu ekki fyrir meiri hamingju . Eru þeir sem ekki keppast við hamingjukaupin betur staddir? Fáir treysta sér til þess að´segja 16 ára gamlir...,,ég ætla að vinna í Bónus hálfan daginn, þannig á ég nóg að bíta og brenna, fyrir græna kortinu og kemst í hugleiðslu 5 daga vikunnar. Inn á milli ætla ég að nota tímann í að lesa upplífgandi bókmenntir, hreyfa mig heilsusamlega, umgangast skemmtilegt og uppbyggilegt fólk en fyrst og fremst ætla ég að vera hamingjusamur! Ég hef aldrei hitt þessa manneskju og í dag í svartsýnishugsun minni efa ég það.

Flestir telja sig þó hamingjusama á einhverjum tímapunkti óháð því hvað það endist lengi. Það er gott að vera hamingjusamur og eftirsóknarvert en þegar til kastanna kemur virðist sem ´flestir séu sáttir við að dagurinn líði átakalaust og að launaumslagið gefi ekki frá sér púfff þegar það kemur.

Púff - var allt sem hamingjusama ynjan vildi segja í dag!
Hamingja er skv orðabók gæfa, gengi, gifta ,heill, eða lán.
Hamingjusama ynjan ber gæfu til þess að biðja um lán, sér til heilla svo hún geti gift sig og gengið vel.

þriðjudagur, mars 02, 2004

Ég hef þetta um málið að segja:

Pass