mánudagur, apríl 30, 2007

Kannski rétt að koma með einn laufléttan að austan.
Ekki víst að slík tækifæri gefist mikið oftar.

Kvaddi ástkæra bekkjarfélaga og kennara ekki fyrir löngu. Þeir mættu í Yukata í tilefni dagsins, fallegri blómarósir sjást varla. Saman drukkum við kaffi og ræddum kosti og galla þess að þær kæmu í heimsókn til mín frekar en ég til þeirra.

Flest komið ofan í kassa og leiðin liggur á pósthúsið. Núna er ég ekkert stressuð yfir því, gleymi því seint þegar ég fór fyrst ein á pósthús hér í Taívan. Mikið vatn runnið til sjávar síðan þá.

Helgin var yndisleg, brunaði um á vespunni í leit að minjagripum og náði ótrúlegustu samningum sögunnar í prútti. Held að flest allt sé komið en ætla að fara eina ferð í dag, svona til að vera viss.

Veðrið hefur verið yndislegt og helgin notuð í að liggja í almenningsgarði og spila Kubb. Félagarnir mættu til að spila, svona fyrir mig, því tækifærin verða ekki mikið fleiri. Sem betur fer hvarf skelfingar svipurinn fljótlega og gleðin skein af mönnum. Kubb er sannarlega gleðigjafi.

Fólk horfði skelfingu lostið á okkur. Verð að venjast því aftur fljótlega að bráðum þyki ég ekkert merkileg í góðra vinahópi. Líkast til á maður eftir að sakna þess að glápt sé á mann.

Ruslabíllinn vakti mig í morgun, hann kemur ekki til með að gera það mikið oftar. Hlakka til að sjá hvernig ruslaþjónustan er í Cambridge.

Svo í rétt svona í restina langar mig að óska prestum og dyggum stuðningsmönnum þjóðkirkjunnar til hamingju með að trúa því einlægt að til sé annars flokks fólk og vilja viðhalda þeim reglum og vitna í úrelt trúarrit sér til stuðnings. Held að guði sjálfum sé alveg sama. Á ekki von á því að hann eyði mikið af tíma sínum í kirkju, enda nóg um að vera annarsstaðar.
Eins og snillingurinn benti á hér um árið þá eiga samkynhneigðir að hafa rétt á því að vera jafn vansælir og aðrir.
Ætti ég hatt tæki ég hann niður fyrir þá sem svo dyggilega trúa guði að þeir vilja alla jafna. Það þarft kjark til að mæta öllum jöfnum. Hitt er auðvelt.
Þá er hjónabandið ekki heilagra en svo að Michael Jackson gifti sig í tvígang.

Já það verður gott að koma heim.

sunnudagur, apríl 22, 2007

Stikkorð um helgina

+ örkvöldmatur með góðu fólki
+ stormur og jarðskjálfti
+ barnaheimili og tær
+ tónlist og matur til styrktar börnum í neyð
+ matur á veitingastað með félögunum
+ hundur meig á tösku
+ Taiwan, nation, state or province?
+ Kíló af melónu
+ sími og bók
+ kjúklingur og veröld
+ útimarkaður og kassar
+ Ljón best í heimi


Ætla svo að senda þakkir í anda Rásar tvö til múrljónsins fyrir að kíkja við í MT52 og flota. Fer í það að kaupa nýja pípu handa þér.....

miðvikudagur, apríl 18, 2007

Farartækin í Taívan eru yndisleg. Get ekki hætt að lofa dásemdir þess að þeytast um á vespu.

Bílarnir hérna eru svo sem eins og aðrir bílar, en oft nýjar og áður óþekktar tegundir eða skemmtilegir litir eða Hello Kitty-bílar.

Ruslabílarnir eru yndi. Svona þegar maður er orðinn ónæmur fyrir ,,söng" þeirra. Á hverjum morgni rúnta þeir um og spila ,,ruslalagið". Ekki fyrir svo löngu var það ,,fur elisa" en núna er það ,,ruslalagið" sökum tónlistarvankunnáttu.

Svo spilar endurvinnslubílinn annað lag.
Svolítið gott kerfi. Alltaf þegar maður heyrir lagið hleypur maður út á götu og hendir ruslinu í bílinn og fer inn aftur. Ekkert vesen, ekkert rugl.

Auglýsingabílarnir eru öllu verri. Yfirleitt pínulitlir bláir pallbílar - eiginlega bara svona sýnishorn. Þeir keyra um löturhægt og svo eru auglýsingar /áróður öskraðar af segulbandi út í alheiminn.
Frekar þreytandi. Stundum eru auglýst föt, stundum matur, ósjaldan eru frambjóðendur sem sjá fyrir ónæðinu og þar fram eftir götunum.

Í dag gekk þetta skrefinu lengra. Lítill blár auglýsingabíll fór löturhægt eftir götunni, ökumaðurinn eflaust úr sveit og lætin slík úr kallkerfinu að ekki var hægt að hunsa.

Var litið upp og sá þar risastóran sjónvarpskjá með myndum af fatnaði og textinn í stóru letri. Keyrði næstum aftan á bílinn.

Ekki einn skjár, nei þrír voru þeir. Einn að aftan og svo til hliðanna.

Er þetta ekki einum of langt gengið hjá sjónvarpskynslóðinni?
Að horfa á auglýsingar á leiðinni heim á vespunni sinni?

Eða er ég bara gamaldags? (þrái svo sem ekki athugasemdir við þessa spurningu)

þriðjudagur, apríl 17, 2007

Ekki langt frá íbúðinni minni í Taívan, er lítill og kósý veitingastaður sem ég fer oft á.
Japanskur staður sem töfrar fram allt það sem mig langar að borða fyrir minna en 160 krónur.

Ég hef vanið komur mínar þangað, fer annan hvern dag og stundum daglega. Kokkarnir hafa yfirleitt orð á því ef ég læt ekki sjá mig í nokkra daga.

Fer yfirleitt á kvöldin, ein og borða í rólegheitunum. Spjalla smá og drekk te og geng svo aftur heim.

Staðurinn er yfirleitt fullur af fólki en andrúmsloftið mjög afslappað. Helsti kosturinn við staðinn er að þetta er svona borðaðu og farðu staður. Frábær staður.

Svo ætlaði ég að fara og fá mér nautakjöt, með hrísgrjónum eins og svo oft áður.

Lokað

bara sísvona eins og ekkert sé sjálfsagðara

Lokað um ókomna tíð.

Þetta er fjórði veitingastaðurinn sem ég ven komur mínar á sem lokar. Ætla samt ekkert að segja frá því ef ég mögulega finn nýjan stað

föstudagur, apríl 13, 2007

Allt er einhvern tíma fyrst

Mætti í skólann í morgun, svo sem ekkert fréttnæmt við mætinguna sem slíka.

Þegar ég mætti var mér tilkynnt að mér hafði verið dömpað. Ekki bara mér einni heldur bekknum í heild sinni.

Ástæðan er víst sú að ég bað kennarann minn um að vera með fjölbreyttari kennslustundir. Allt í góðu, fannst þetta heldur einsleitt.

Skildi ekki alveg og þótti ekki mikið um uns ég áttaði mig á því að þetta er í fyrsta sinn sem kennari hefur dömpað mér. Og þið verðið að fyrirgefa, að ástæðulausu.

Flestar umvandanir hef ég fyllilega átt skilið, með undantekningum þó.

Ekki svo að skilja að ég sé stolt af þessari hlið skólaferils míns en ég hef verið rekin oftar úr skólan en ég kæri mig um að muna, þessi leiði ávani byrjaði snemma og hætti seint.
Mér hefur verið bent á að hætta í skóla, ég beðin um að mæta ekki tímabundið, ég hef fengið leyfi og sjálf hef ég tekið ákvörðun um að mæta ekki í lengri eða skemmri tíma og hætt án nokkurrar hvatningar. Ég hef beðið um að vera færð um bekk og sagt mig úr áföngum.

Það er óra langt síðan

Mér hefur aldrei verið dömpað fyrr en nú og þá lendi ég í hópdömpi.

Fyrir nokkrum árum ákvað ég að hætta þessu skólarugli mínu og tók mig á í skóla, mætti reglulega, brosti af og til í tímum og sat þar flestum stundum vakandi. Ég eyddi þremur árum í að læra að vera eins og meistarar mínir sælla daga. Síðan þá hefur skólaganga mín blómstrað og gengið áfallalítið fyrir sig.

En svo á þrítugsaldri, fyrir litlar sem engar sakir, er mér sparkað.
Ég er látin skipta um bekk og bekkjarfélagar mínir hljóta sömu örlög.

Dömpað... sparkað... sagt upp... dömpað.

Veit ekki hvernig ég á að bregðast við.
Á ég að gráta yfir þessu, verandi á þrítugsaldri og enn í ,,sama" farinu?
eða
ætti ég kannski að gleðjast yfir því að hafa enn ,,tötsið"? Meir að segja svo að ég þarf lítið til saka að vinna.

Kannski kominn tími til að mæta í ermalausum bol, sýna húðflúrin, draga fram vinnufatajakkann og hermannaskóna, klína þykkri rönd í kringum augun og setja hárið í andlitið og sjá hvað gerist

Ég fæ í það minnsta ekki mikið fleiri tækifæri

verst að hermannaskórnir fóru í ruslið og vinnufatajakkinn passaði fyrir nokkrum kílóum síðan...

augnmálningin breytir heldur ekki þeirri staðreynd að mér var dömpað.

mánudagur, apríl 09, 2007

Óhætt er að segja að Taívan sé eitt best varðveitta leyndarmál Asíu.

Annað vel varðveitt leyndarmál í Taívan er upplýsingamiðstöð við lestarstöð eina í Taipei. Því þrátt fyrir einstaka hæfni í kortalestri þrömmuðum við fram og til baka án þess að reka auga í miðstöðina. Loks löngu seinna rákum við augun í starfsmann merktan miðstöðinni í dimmu horni.

Við fengum þær upplýsingar sem við leituðum eftir. Á miða var skrifað heimilisfang hótels í Taoyuan, nafnið á hótelinu og svo hve mikið ferð með leigubíl ætti að kosta.

Í lestinni til Taoyuan spurði ég gestinn um upplifun ferðarinnar. Þar sem að ferðalagið var að lokum komið var að mér þótti stund til að fara yfir helstu atburði ferðarinnar.

Af einskærri yfirvegun sagðist gesturinn ætla að bíða með svarið. Ferðin væri ekki búin og miðað við uppákomur síðustu daga vænti hún þess að ævintýrin væru ekki á enda.

Það biðu okkar karlmenn með hnetutuggu þegar við komum til Taoyuan og buðu okkur far á flugvöllinn.

Vopnaðar miðanum góða, réttum við hann fram og brostum.

Af ákefð sem ég hef ekki upplifað áður í Taívan, soguðust þeir að okkur og spurðu hvert við værum að fara.

Svo kallaði einn bílstjórinn upp yfir sig. ,,Hér stendur að það kosti 100 NT að fara á hótelið! Uss það er ekki hægt, ekki hægt. Lágmark150 NT."

Svo baðaði hann höndum og gekk í burtu og einhverjir með honum.

Eftir stóðu menn með eldrauðan munninn og skeggræddu þessa tölu.

Við fengum smá aðstoð og vorum sannfærðar um að hér, líkt og annarsstaðar í Taívan, væri notast við metrarukkun. Því settumst við upp í næsta leigubíl og hann keyrði af stað.

Ég bað hann um að setja meterinn á en hann sagði ferðina kosta 150. Ég bað hann aftur. Þá stoppaði hann bílinn. Ég gaf mig strax og sagði það svo sem ekki skipta höfuðmáli 150 NT væri allt í lagi.
En hann blótaði okkur bara og rak okkur út. Með látum

Opnaði hurðina hjá gestinum og skipaði honum út.
Opnaði skottið og henti farangrinum á jörðina.

Eftir stóðum við kindurnar gáttaðar.

Svo arkaði hann í burtu, hrækti rauðum vökva og baðaði út höndum. Hneykslaður!

Eldri maður benti á leigubíl stutt frá og sagði meter.

Skelfingulostnar gengum við að leigubílnum og hann sannfærði okkur um að hann myndi nota meterinn.

Ferðin var svona eins og leigubílaferðir eru gjarnan, við vorum keyrðar á áfangastað.

Meterinn gaf upp töluna 120

Tókum upp 150 NT og réttum leigubílstjóranum og þökkuðum honum skutlið og góða þjónustu.

fimmtudagur, apríl 05, 2007

Pinglin

Þrátt fyrir miklar rigningar og þoku ber gesturinn sig vel.
Ég hef hins vegar grátið, mest í hljóði en stundum upphátt, appelsínið skilaði sér en maltið þoldi ekki flugvélahnoðið.
Kem til með að segja oft afhverju KuBBið mitt angar af Malti í framtíðinni.

Við höfum farið víða og séð ósköp fagra staði að við höldum, þegar ekki er þoka.

Þegar við ákváðum að koma okkur niður úr rigningunni og langt í burtu frá heitum hverum var afráðið að koma við í smábæ og skoða heimsins stæsta tesafn.

Viðeigandi að stoppa á tesafni í Taívan, sitja svo innan um ógnandi fjöllin og drekka te, handtínt fyrir augum okkar. Þetta gat ekki klikkað.

Pinglin er 2000 manna bær og við stukkum út í rigninguna síðdegis með bros á vör. Glotti út í annað þegar gesturinn gretti sig yfir svínahúðinni sem var á tilboðsverði.

Eins og sönnum túristum sæmir komum við fyrst við á upplýsingamiðstöðinni. Sniðugt, þá er hægt að sjá eitthvað meira en kemur fram í leiðarbókinni.

Kona á miðjum aldri tók á móti okkur, færði okkur te og flissaði. Flissaði og svitnaði. Eitthvað var það við veru okkar sem gerði hana svo óstyrka að hún hreinlega treysti sér ekki til að tala við okkur. Sagði bara engin rúta til Hualien...

sem var vont því þangað var leiðinni haldið.

Svo birtist starfsmaður frá bæjarskrifstofu Pinglin, vopnuð ensku og gerði okkur grein fyrir því að allar leiðir væru til Taipei...

sem var vont því þaðan komum við. Síðasta rútan til Taipei þann daginn var farin.

Ugglaust hefðum við svitnað fljótlega, önnur okkar bölvað og hin grátið, og örvænt, hefði starfsmaðurinn, sem nú var öllu rólegri, ekki komið hlaupandi með lítinn poka sem tryggja á öryggi okkar.

Strand í smábæ í Taívan, það er vond hugmynd.

Linda bauð okkur að geyma dótið okkar á bæjarskrifstofunni meðan við skoðuðum safnið fræga, hún þyrfti að tala við vini sína og hefði svo samband.

Líkast til er ekki mikill ferðamannastraumur þangað.

Allt í þorpinu snýst um te, hefur alltaf gert það og gerir það líkast til alltaf.

Eftir upplýsandi rúnt um safnið mættum við á bæjarskrifstofuna aftur. Þar var Linda með vini sínum sem ætlaði að skutla okkur í næsta bæ svo við gætum tekið rútu. Tók það fram að hann væri einhleypur og myndarlegur, ég bauð henni bræður mína í skiptum. Fannst hjúskaparstaða þeirra óþarfa upplýsingar.

Hún lét okkur fá te ræktað og verkað í bænum, svona í verðlaun fyrir trassaskapinn.
Einn starfsmaðurinn gaf okkur lyklakippu með mynd af bænum, svona til að tryggja að við myndum aldrei gleyma því að við hugsuðum ekkert um rútu samgöngur áður en við lögðum af stað.
Þrátt fyrir heilabrot og góðan vilja gátum við ekkert gefið þeim, nema minninguna um hvítu gellurnar sem næstum því voru strandaglópar í norðurhluta Taívan.

Gesturinn hefur séð og fengið að finna að gestrisni og hjálpsemi Taívana er einstök.

Einstök

Ansi víða hefðum við fengið að labba í næsta bæjarfélag.


Safnið var nauðaómerkilegt, þannig.