mánudagur, febrúar 27, 2006

Xiao Jie

Hún læðist yfirleitt inn í kennslustofuna, og reynir að fá sæti við hliðina á ynjunni. Takist það skimar hún yfir bækur ynju, flettir í gegnum heimavinnuna hennar og segir ,mjög gott". Brosir svo eins og sólin hafi verið sett í andlitið á henni, bendir á sína bók og segir ,ekki gott'. Brosið lýsir enn upp kennslustofuna.

Svo er ynjan á leiðinni á kaffihús í dag, inn á skólalóðinni, til móts við tungumálaskipti-vin sinn. Veðrið er gott- ynjan eitthvað að slóra. Ynjan heyrir einhvern kalla Íshjarta og fer að velta því fyrir sér hvort einhver annar í skólanum heiti sama nafni og hvort tónarnir séu rangir og merkingin önnur. Það hvarlar ekki að ynjunni að líta við.

Stuttu seinna er hún komin, móð og brosandi, með skólabókina í fanginu og gengur með ynjunni. ,Íshjarta' segir hún lágt ,homework- ég skil ekki'.

Með bendingum, kínverskum og enskum orðum ákveða þær að fara saman og kíkja yfir heimavinnuna.

, Ekki allir- ég skil ekki´ segir hún.

Ynjan teiknar mynd af fjórum körlum og krossar yfir einn ,ekki allir´. Teiknar aðra mynd, þrjár konur-krossar yfir eina ,ekki allir´. Enn ein mynd er teiknuð, fjórir menn, hringur settur um þá ,allir´.
Hún brosir og byrjar heimavinnuna, saman lesa þær yfir verkefnið og hún leysir það, að virðist áreynslulaust.

Svo lokar hún bókinni og segir , ég´ og setur hendurnar upp eins og hún keyri.
,Nú já´heyrist frá ynjunni ,áttu bíl?´
,Nei... ég keyra´.

,Já þannig´segir ynjan og reynir að fá botn í málið. Hún hristir bara höfuðið og lætur sem hún keyri. Segir svo ,fara´og ,takk´. Stendur upp og spyr hvort við sjáumst ekki á morgun í skólanum.

,Neineineinei, kennarinn sagði að það væri ekki tími á morgun´ segir ynjan og reynir að útskýra það samtímis með höndunum. Aftur reynir ynjan að útskýra með orðum og látbragði, gengur ekki.

,Ég skil ekki´.

Já hmmm, best að teikna upp vikuna, gera hring um mánudag...í dag.... tími. Hún kinkar kolli ,ég skil´.
Hringur teiknaður um þriðjudag ,á morgun.... ekki tími´. Ynjan krossar yfir þriðjudag. Ynjan er orðin stressuð og teiknar annan hring um þriðjudag ,á morgun - þú sofa´, ynjan setur hendurnar undir kinn og þykist hrjóta.

Hún hlær... ,á morgun ekki koma´. Ynjan samþykkir það. Svo hermir hún eftir ynjunni að leika sofa og segir ,ég ekki- á morgun þú sofa´. Þær brosa. Ynjan gerir hring um miðvikudag ,skóli koma´. Andlitið ljómar ,bless´.

Þetta er Xiao Jie, hún er frá Taílandi, við erum vinkonur.
Einu sinni leið ynjunni eins og Xiao Jie, nema ynjan er svo heppin að kunna ensku.

Ynja hlakkar til að spjalla við Xiao Jie og vita um hvað þær eru að tala.

laugardagur, febrúar 25, 2006

Svínið stóra heitir Tína. Hún er yfirleitt með lakkaðar neglur, kannski skiljanlegt að hún bíti greyið! Eigendurnir héldu að þeir væru að fá sér litið svín fyrir nokkrum árum en útkoman er 200 kílóa stykki. Ynjan reynir að gera sér ferð framhjá á hverjum degi svona til þess að lífga upp á tilveruna.

Um daginn var partý í skólanum, allt hlaðið af mat og skemmtiatriði, í tilefni nýrrar annar. Meiriháttar gaman, eftir matinn var hefðbundinn dans sýndur, veit ekki hvað hann heitir því ég skildi dömurnar ekki alveg. Ynjan vill kunna að dansa svona. Löturhægar og seiðandi hreyfingar sem dans, ynjan fylgdist dáleidd með. Svo þegar sýningunni var lokið fengu þeir nemendur sem vildu að prófa. Metþátttaka og útkoman var skemmtileg en langt því frá jafn þokkafull og þegar dansmeyjarnar voru bara tvær. Skondnast var að sjá ofurvaxna karlmenn reyna að standa í taichi stöðu, ynjan brosti innra með sér en restin af áhorfendum hló tröllahlátri. Svo sýndu japönsku skiptinemarnir breikdans og djassballet.

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Ynjan flutti inn í svona líka fína íbúð um daginn og búin að koma sér einstaklega vel fyrir. Allt sem prýðir gott hverfi og gott hús.

Ynjan viðurkennir að hún er enginn sérfræðingur í Taívanskri menningu en kynnist henni alltaf betur og betur. Þegar hún gekk framhjá litlum fjölskylduveitingastað um daginn var henni heldur brugðið. Við ísskápinn og eldunaraðstöðuna var risastórt feitt svín bundið við staur.

Þó kerla sé ekki viðkvæm, og hafi á langri ævi áttað sig á því að kjöt var einu sinni dýr, þá þótti henni heldur ógeðfellt að hafa matinn ferskan bundinn við staur, og það ekkert smá stykki.

Hún fór strax í það að reyna að hugsa þetta út frá nýju sjónarhorni, maturinn ferskur og svo eru margir veitingastaðir með humar og svona.....

Svo daginn eftir var henni allri lokið, en þá mætti hún svíninu stóra í gönguferð með fólki skellihlæjandi. Það var villimannslegt, kaupa ferskt kjöt, fara með það í gönguferð og eta svo.... nei þetta var of mikið.

En seinna um daginn var svínið aftur komið á veitingastaðinn, bundið við staur.... og þá spurði hún... HVAÐ ER EIGINLEGA Í GANGI?

já þetta er gæludýrið okkar, hún er æði, bara ekki klappa henni því hún bítur.... fast.

Já þú meinar.... má ég taka mynd?

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Langi pistillinn um fyrsta daginn

Fyrsti dagurinn í skólanum að baki. Ynjan fetaði skólalóðina eins og smákrakki brosandi út að eyrum, enda er ekki hægt annað en að vera glaður í sólskini og hita í febrúar.

Hún er með nýjan kennara sem heitir Lan laoshi, sem þýðir blái kennarinn, sem er soldið fyndið því ynjan hefur bara séð hana klædda í bleikt og múnderingin er yfirleitt slík að maður kallar hana næstum ósjálfrátt barbie.

Svo er Fang laoshi, sem er kennari torg, hana hafði hún í fyrra líka, en er jafnvel að spá í að sjá hvort hún geti ekki skipt um tíma og verið hjá einhverjum öðrum. Fang er nefnilega meira hrifin af því að tala ensku og þess utan skilur ynjan hvorki kínverskuna hennar né enskuna svo.... Ingunn skilur hvað við er átt.

Ynjan er í bekk með bandaríkjamanni sem hefur verið hér í tæp tvö ár og svo taílenskri stelpu sem er fersk beint af bátnum, hún talar litla ensku, en það hjálpar henni að hún er sæt og dugleg í bendingum svo strax eftir tvær kennslustundir stefnir allt í að við verðum góðar vinkonur.

Í seinni tímanum er svo japönsk stelpa með okkur. Ynjan veit að það er ljótt að blóta fólki en japanar eru bara allt of duglegir. Hún byrjaði daginn á því að stinga upp á því að við myndum byrja um miðja bók og læra fyrripartinn bara heima. Ynjan hóstaði og sagði fyrir hönd taílendingsins, sem er í sömu sporum og ynjan var fyrir áramót, að það væri ekki sanngjarnt! Ynjan hafði engar áhyggjur af sér .....

Ynjan hitti skiptimiðann sinn í gær líka, miklir fagnaðarfundir, við ætlum að halda áfram skiptiprógrammi okkar. Svo ætlar kerla að reyna að finna fleiri í tungumálaskiptiprógrammið sitt.

Þetta er orðið langt blogg en ekki er allt komið enn. Þetta með happið og hendina. Fólkið sem ætlaði að leigja með kerlu hætti við svo ynjan er ekki enn komin með húsnæði. Því fer betur að hún fær að gista hjá félögum sínum, en gistinæturnar eru brátt á enda. Í dag fer hún að skoða íbúð sem er alveg í miðri littlu evrópu, íbúðin hljómar vel en er soldið dýr, svo ynjan ákvað að ef hún væri geggjuð myndi hún skella sér á hana.
Helsti gallinn sem hún sér við þennan íverustað, svona fyrirfram, er að þar býr líka hundur sem heitir Juju og það bara getur ekki boðað gott. Svo fyrir hönd íslenska kattarstofnsins er hún ekkert að missa sig en sjáum hvað setur.

....vonandi er ykkur ekki illt í augunum af þessari langloku....

sunnudagur, febrúar 19, 2006

Þegar ynjan stóð á rútustöðinni og var á leið til Taichung, nálgaðist kona hana og byrjaði að spjalla á kínversku, furðulega mikið skildi kerlan og úr varð að þær sátu saman til Taichung og spjölluðu á kínensku. Setningar eins og ní do business og Now hen leng krydduðu bara rútuferðina.
Þegar komið var til borgarinnar krafðist kerla þess að fá að skutla ynjunni á hótel, panta herbergið, skoða það og sjá til þess að farangurinn væri borinn upp. Við ákváðum að hittast aftur seinna og drekka saman te.

Já svona er Taívan í da.

Gærdagurinn fór í að finna húsnæði, sem gekk eftir, bý nálægt miðbænum en er um 20 mínútur að keyra í skólann. Mun búa með fólki frá Kanada, kennurum. Held að þau séu að okra allhressilega á ynjunni. En herbergi fyrir 8000 krónur á mánuði getur það ekki verið rosalegt. Í dag stefnir ynjan á að flytja inn og verður vonandi búin að koma sér fyrir í kvöld. Skólinn byrjar á morgun og gott ef tilhlökkunin er ekki til staðar.

Það er nokkuð kalt hér, 13 stiga hiti í gær og koma lopavettlingarnir að góðum notum þegar þeyst er um á fáknum, sem flestir sjá sem vespudruslu.

Svo hitti maður alla félagana í gær, kíkti út og lífið hefur lítið breyst, það var gott að sjá alla aftur.

Nú er bara að stunda skólann af krafti og telja niður dagana þangað til Íslendingarnir koma.

Verði þeir heppnir mun rigna á þá ala Taivan

föstudagur, febrúar 17, 2006

Langt flug ad baki
Gott ad vera aftur i Taichung

nema nuna vantar Ingunni
en a moti kemur ad hun gat alveg keypt rutumidann inn i borgina ein

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Ynjan fór út á flugvöll og skyldi ekkert í því af hverju hún væri að fara til útlanda frá þessu yndislega heimili sínu og umhverfi. Nú í London er hún keik og full tilhlökkunar enda spennandi tímar framundan og svo fær hún góða gesti von bráðar.

Þegar sex tímar eru í flug til Taiwan fást þessar upplýsingar.

Fjórar vinnur gegnum tíðina:
Fiskvinnsla
sjómennska
kennsla
próförk

Fjórar bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur:
Over board
Coming to america
Stella í Orlofi
Sódóma


Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Grundarfjörður
Borgarnes
Akranes
Taiwan

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Uganda, Perú, Bandaríkin, England

Fernt matarkyns í uppáhaldi:
Íslenskt lamb
Brokkolí
Smjör
Kræklingur

fjórir sem mega: Sandra, Marta, Hafdís, Ragnhildur

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

VEGABRÉFIÐ ER KOMIÐ Í HÚS.......

enda lét ynjan tilfinningarnar ekkert þvælast fyrir sér. Flest komið ofan í tösku og farmiðinn á borðinu.
Þá vantar bara húsnæðið. Ynjan ætlar ekki að hafa áhyggjur af því. Það kemur eins og annað.

föstudagur, febrúar 10, 2006

Sauðssaga ynjunnar, annar hluti

,, og gettu hvað, það sama gerðist annar köttur önnur ferð á sjúkrahúsið."

Þetta er lauslega þýdd setning úr lauslega leiðinlegri bíómynd sem ynjan hugsar oft um þegar fólk gerir sömu heimskulegu mistökin tvisvar.

Ynjan kannast svo vel við þessar aðstæður. Til dæmis núna, hún á flug til London á fimmtudaginn kemur, til þess að geta farið þarf hún vegabréfið sitt. Vegabréfið hennar fór til Danmörku í stimpiltúr og þarf að koma fljótt og vel til baka.

Síðast þegar ynjan fór til London og þaðan til Taiwan var hún líka að bíða eftir vegabréfinu sínu, hún fékk það sama dag og hún fór úr landi.

Nú stefnir allt í sömu stöðu, Ynjan orðin stressuð, Ljóni þreyttur á seinaganginum í væflinum Ynju og vegabréfið góða í Danmörku. Það eru þrír og hálfur virkur dagur til stefnu. Á þessum tíma þarf bréfið að komast út á pósthús í Danmörku, til Íslands og heim til Ynjunnar.

Síðast lágu Gríshildur og Grýla á bæn opinberlega, ynjan liggur og grætur í von um að það dugi að rella.

Komi vegabréf í hús á réttum tíma lofar ynjan að reyna að gera þetta ekki aftur.

me

mánudagur, febrúar 06, 2006

Geitin fagra

14/07 2000 segir í dagbók ynjunnar:
Þetta var allt hið spaugilegasta, við höfðum talað við strákana, sem hjálpuðu okkur að fá þjónana til að breyta verðinu, og þeir sögðust geta reddað okkur ferð um LAke Bogora með ferðaþjónustufólki eins og ekkert væri. Við vorum sátt við það en brostum út í annað þegar póstmaðurinn kom og hafði tekið sér óskráð dagsleyfi til að ferja okkur milli staða. Svo þegar við komum í garðinn borguðum við ekki túristagjald inn í garðinn heldur lókalgjald en þurftum að borga einhversskonar lókaltúristapóstgjald sem var þarna mitt á milli.
Það borguðum við með brosi.
Dagurinn leið hratt enda margt fallegt að sjá og ólýsanlegt að horfa á breiður af flamingófuglum. Maður fékk samt smá heimþrá að standa við heitan hver!
Póstgaurinn skutlaði okkur í lok dags á veitingahús bæjarins, fengum okkur fisk og buðum strákunum með, þar sátum við í góðum félagsskap og skemmtum okkur vel. Allt í einu stendur geit við borðið hjá okkur og vildi sig hvergi hreyfa. Kvöldið versnaði ekkert við það. Við sátum fram eftir og drukkum kók en geitin fékk bara að horfa á.

Já það var gaman í afríku :)

laugardagur, febrúar 04, 2006

og svo er stokkið
svo er stokkið af stað.....

14 dagar í brottför

10 dagar í vegabréf

...tímanlega í því eins og alltaf!

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Eftir að hafa hlustað á langa ræðu og útskýringar segir daman ósköp yfirvegað ,,þess gerist ekki þörf - sendu þetta bara af stað".

Einfalt ekki satt?