sunnudagur, janúar 29, 2006

föstudagur, janúar 27, 2006

Ekki er öllum sauðum slátrað!

14. október síðastliðinn bloggaði ynjan um hremmingar sínar á pósthúsi einu í Taívan. Afgreiðsludaman vildi meina að landið ynjunnar væri ekki til en eftir japl, jaml og fuður urðu þær ásáttar um tilvist landsins en engin var hraðþjónustan þangað
Þann dag stóð á vefritlunni:

'Nei tad er ekki i lagi, umsoknarfrestur verdur runnin ut. Typiskt! Ynjan sendi brefid samt i von um ad vidtakandi kannist vid saudi.

Svo hugsaði ynjan ekki meira um það, hélt áfram sínu basli og pukri og leiddi ekki hugann að bréfinu góða og afdrifum þess.

Svo er ynjan undurblíð, nú í janúar, að undirbúa hádegisverð fyrir vinnuþjakaðann manninn og sér póstburðardrenginn skjótast hjá. Hún ákvað að klára að elda og skipta um í þvottavélinni áður en pósturinn yrði sóttur, enda lítið spennandi að skoða yfirlit Reikningsstofu bankanna. Þegar hún loks drattaðist að sækja bréfaruslið var svarbréf komið sem vitnað er í hér að ofan. Það gladdi ynjuna lítt, enda fátt óskemmtilegra en að fá staðlað neitunarbréf. Fólk ætti að kannast við þennan texta:

Kæri umsækjandi
Minningarsjóður Margrétar þakkar umsókn þína til sjóðsins frá því í haust. Alls bárust að þessu sinni um fimm hundruð umsóknir. Eftir vandlega yfirferð umsókna hefur stjórn sjóðsins ákveðið að veita styrk til tæplega tvö hundruð umsækjenda.

.... á maður að nenna að lesa meira? hugsaði ynjan meðan hún hrærði í pottinum. Svo kom:

Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að þér hefur verið veittur styrkur .....

..... ha! sei ha.... nei.... í geðshræringunni náði hún að sletta kjötsafa yfir bolinn ... hewhehe þetta þarf að lesa aftur:

Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að þér hefur verið veittur styrkur .....

... Gat þetta verið?... Brjálæðishláturinn var slíkur að kettirnir læddust út. Eftir stóð ynjan ein í eldhúsinu, byrjuð að brenna við matinn og löngu hætt að hugsa um manninn. Grútskítug pataði hún um eldhúsið og sveiflaði tilkynningunni góðu. Þetta var eitthvað skrýtið, ynjan fær bara ekki eitthvað svona svona bara ha bara svona sísvona. Ha hún, núna geggjað er þetta ekki djók?

Þó sjaldgæft sé þá klöknaði ynjan af gleði og þakklæti. Svo mundi hún eftir því að líkast til hefur bréfið borist of seint og þakkaði auðmjúkt fyrir að fólk kann enn að fyrirgefa sauðum.

Ynjan hefur vissu um að margir lesa síðuna en kvitta aldrei fyrir sig og kannski er þar á meðal einhver í úthlutunarnefnd. Sé svo segir ynjan auðmjúkt og blítt, takk fyrir mig.

JESSS Takk fyrir mig

miðvikudagur, janúar 25, 2006

... biðin eftir jarðskjálftanum

Loksins þarf ekki að þrátta um hvernig skuli kynna klakann. Gamlar hallærislegar staðalímyndir og náttúra er löngu úrelt kynning.

Þjóðin getur grobbað sig af því að vera einn stærsti álframleiðandi í heimi! Og það á mettíma. Geri aðrir betur. Hver þarf að markaðssetja Ísland sem óbyggt og óspillt þegar hann hefur ál?

Álið dugar nefnilega endalaust.
Ynjan hefur nú þegar lagt til við ferðamálaráð Íslands að framtíðar slagorð verði

MAGNAÐ Í MENGUN

eða

ÁL ÁN ENDA

laugardagur, janúar 21, 2006

Til að koma í veg fyrir frekari misskilning

Ynjan fór í afmæli í gær, sem ekki er í frásögur færandi nema kannski fyrir þær sakir að afmælið var gott. Hún er í góðu yfirlæti að spjalla við nokkra stórsnillinga þegar einn snillingurinn spyr, heldur álútur á svip, kerlu út í nýlegt blogg sem bar titilinn "í minningu besta vinar míns". Ynjan glotti, nokkuð ánægð með þá færslu og gerði sig klára í að hlusta á mikið lof.

´Seg mér - finnst þér ekkert óviðeigandi að dissa félaga þinn til margra ára á blogginu?´

Ynjan kom af fjöllum, hún hélt að allir vildu losna við Sigga Rettu. Hún taldi sig hafa farið nokkuð fínt í þetta.

´Ég hélt kannski að það væri verið að tala um mig og sat lengi og var að spekúlera hvort ég ætti að hringja í þig svona til að vera viss, jafnvel fá að heyra hvað veslings maðurinn hafði unnið sér til saka´.

Ynjan reyndi strax að leiðrétta misskilninginn ´hehe nei þú skilur Siggi Retta - sígarretta heheh tóbak heheh þú veist hætta að reykja eeee he´. Of seint - ynjan var orðin eins og kind.

Hann hristi hausinn ´nei ég þekki hann bara ekki´.

Ynjan hefur reynt í gegnum tíðina að fara varlega í færslum sínum á þessu bloggi og sver af sér öll tengsl við textabirtingu sem eitthvað á skilt við DV heitið. Stundum ritskoðar hún eigin gjörðir. Siggi gamli félagi ynjunnar hét öðru nafni Salem lights, kostar nú um 600 krónur pakkinn. Gælunafnið er útskýrt hér að ofan.

föstudagur, janúar 20, 2006

Þrátt fyrir að bóndadagur sé ekki löggiltur frídagur, sem hann ætti að vera frekar en jóladagur, sá ynjan sér fært um að halda upp á daginn með dekri.

Fjórum klukkustundum er hún endurnærð!

mánudagur, janúar 16, 2006

Umhverfis Ísland á 80 klukkustundum

Einhvers staðar uppi á Öxi um hávetur er lítil corolla á ferðinni. Í bílnum eru tvær dömur - sögu þeirra má rekja til Taívan.
Saman öll þrjú gengur ferðin vel, þrátt fyrir hálku og vont veður.
Ynjan undir stýri og hækkunin byrjar af krafti, krappasta beygja heiðarinnar fram undan, en hún var salíróleg, smá brekka puff.

Upp upp upp upp spól spól spól stopp stopp fuck fuck fuck.

Þær þvera veginn í miðri brekkunni á þykkum hálum ís. Ekki físilegt að reyna að fara niður og ekki mögulegt að fara upp. Meðan þær fara yfir stöðuna finnur ynjan að maginn á henni er á hvolfi - óvön slíkri tilfinningu álítur hún stressið hafa náð sérstökum tökum á sér í svartnættinu. Hún veit nefnilega vel að útilegumenn búa á Öxi.

Ákveðið er að bakka niður í rólegheitunum og fara svo fjörðinn. Eftir það leit ekki út fyrir að bílinn kæmist upp brekkuna og ynjan með þennan stress hnút í maganum. Iðratilfinningin sagði að ekki væri óhætt að halda lengra. Svo niður fara þær. Hægt en örugglega komast þær niður brekkuna öfugt, snúa bílnum og staðnæmast eitt augnablik. Tveir fólksbílar leggja á meðan brekkuna fyrir sig og komast heilir.

Eigum við - eigum við ekki? Þessi tilfinning í maga ynjunnar sagði nei- nú myndi eitthvað gerast ef þær færu ekki firðina. Rétt á meðan þær eru að reyna að komast að niðurstöðu um hvað eigi að gera, fer hnúturinn á hreyfingu. Undarlegt, óháð því hvað sagt var eða ákveðið - öðlaðist hnúturinn sjálfstætt líf í maga ynjunnar og hún vissi ekkert hvernig hún gæti núna fylgt sjötta skilningarvitinu þegar misvísandi skilaboð væru sem, hún hvítnaði í framan og þorði ekkert að segja, áður hafði hún vilja fara firðina vegna magatilfinningarinnar. Hún þagnaði og ferðafélaginn líka.

Í þögninni á austfjörðum um miðja nótt heyrðust allt í einu slíkar drumur að dundi í!
PRUMPOLO!!!

Útlendingurinn grenjaði úr hlátri og skrúfaði niður rúðuna - ökumaðurinn sökk niður að pedölunum.

O jæja líkast til var í lagi að reyna aftur eftir allt sjötta skilningarvitið stoppaði ekki lengi.

Þær fengu sér hvor sitt herbergið á Egilsstöðum svona til að koma í veg fyrir frekari skilaboð.

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Sniðgöngum DV þó fyr hefði verið

laugardagur, janúar 07, 2006

Í minningu vinar míns

Ynjan hafði oft hótað því áður að yfirgefa besta vin minn. Nú síðast rétt áður en hún fór til Taívan sagði hún honum að hún myndi segja honum upp þar. Hann hló upp í opið geðið á henni, nei honum myndi ynjan ekki sparka, hann hafði staðið við hlið hennar í 12 ár - ef ekki lengur og staðið með henni í gegnum súrt og sætt. Það var náttúrulega satt - þau hafa eitt ófáum stundunum saman. Alltaf- hverja einustu stund hefur hann verið þarna sem sannur vinur og staðið með henni. Aldrei hefur hann gagnrýnt hana eða yfirgefið. Skilyrðislaus vinátta en einhliða.

Svo hélt hún uppi viðteknum hætti og hótaði og þóttist en líkt og hann hafði bent henni á kom hún alltaf til baka, það leið bara lengri tími á milli.

Eitt kvöldið öskraði hún á hann ,,Ég nenni ekki að vera vinur þinn lengur" -daginn eftir bankaði hann og hún hleypti honum inn. Þau hafa stigið þennan dans áður.

Þegar þau gengu út úr flugvélinni stundi hún og kvaddi hann blíðlega og lofaði að hringja á gamlárskvöld, fyrr hefði hún ekki tíma fyrir hann. Hún reyndar hringdi einn daginn - bara til að skella á.

Við það stóð kerla, hún saknaði hans mikið fyrst en alltaf minna og minna. Ósjaldan ætlar hún að ná í hann og sættast en hættir alltaf við. Þau eiga margar minningarnar saman, góðar og ógáfulegar. Henni þykir vænt um hann en það er ekki nóg.

Það hlaut að koma að því að leiðir þeirra myndu skilja, hún er að vona að hann komi aldrei aftur í heimsókn.

Ef hann les bloggið þá :
Því miður Siggi þú varst orðinn heldur uppáþrengjandi, dýr í rekstri og svo kunna MT52-búar ekki að meta þig.
Sorrí

föstudagur, janúar 06, 2006

Innblásturinn á Höfða

Í slagviðrinu gerði ynjan stórmerkilega uppgvötun. Þarna stóð hún á íslenskri grundu, andlitsmálningin farin að leka, hárið úfið og erfitt standa í fæturna. Uppgvötunin laust bara í höfuðið á henni frítt í 9 vindstigum.
Ynjan er ekki bara þokkafull heldur líka kynþokkafull. Já svei, svona æsandi sem og hún var í rokinu gerði hún sér grein fyrir því að hún var sjálfstæð líka, svona rétt eins og allar hinar íslensku konurnar. Sexý og sjálfstæð.

Hitt vissi hún og þurfti ekki að hugsa um, hvað þá upphátt, að hún er lausgirt og drykkfelld. Alltaf meira og meira með brækurnar upp um sig eftir að Ljóni flutti inn en skemmtilega gefin fyrir sopann enn. Ekkert sem þarf að tala um, það að vera drykkfelldur kvenmaður- mátulega háður fullnægingu- er sem seltan í blóði sjómannsins.

Þetta var svo magnað augnablik- þegar hún horfðist í augu við víkingaeðlið að hún ákvað að deila þessu með þjóðinni.
Hún skyldi hringja í alla helstu fréttamiðla landsins, byrja á þjóðarsálinni DV og svo láta uppgvötunina ganga hringinn.

Hún vissi að á endanum kæmist hún að í Ópru eða Kónan eða Djei með þessar staðhæfingar, hún vissi eitt - íslenskar konur, svona rétt eins og hún, eru spes, og frá því þarf að segja og um þær þarf að tala.

Svo hringir hún í Mikka á DV og hann hló upphátt.

Óþolandi þegar ljótir gaurar stela kviðuuppgvötunum ynjunnar í janúarrokinu, fara með það í sjónvarpið og minnast ekki einu orði á það að þessar yndismeyjar eru rétt hálfdrættingar karla þegar horft er til launa.

Nú er svo komið að vindinum er ekki lengur treystandi fyrir hugljómunum!

mánudagur, janúar 02, 2006

Ynjan stóð með stóra bróður út á götu þegar nýárið heilsaði. Þarna stóðu þau systkinin og horfðu á mánaðarlaun Íslendinga fuðra upp.
Halli sjúkrahússins, hverjum er ekki sama - plaff flott sprengja
Mæðrastyrksnefnd- hvað er það - plaff litadýrðin
langveik börn - ekki mitt barn - víííí en fallegt
börn deyja úr hungri í Afríku - ha bomb
Fólk frýs úr kulda í Evrópu og svo mætti telja.

Stundin var enga síður góð með drengnum, augun voru hamingjusöm. Þá áttaði kerla sig á því að það að lifa í mómentinu á akkúrat við á gamlárskvöld, þetta var fallegt og gaman.... svo hefur maður áhyggjur af reikningunum á mómentinu sem það kemur.... 3. jan 4.jan 5. jan

... um að gera að vera eilítið bitur á nýárinu....