föstudagur, apríl 30, 2004

Bananalýðveldið Ísland

Meðan hið háa alþingi virðist vera upptekið við að ná fram persónulegum hefndaraðgerðum forsætisráðherra, hrynur réttarkerfið okkar.
Það er brýnt að þingmenn okkar fái nánast ótakmörkuð eftirlaun, geti takmarkað auð þeirra sem þeim er illa við meðan á alþingi liggur frumvarp um firningu á kynferðisbrotamálum fyrir, en það er ekkert brýnt að ná því í gegn því hver hefur áhyggjur af geðheilsu og misnotkun barna meðan maður getur tryggt sér góð eftirlaun eða komið í veg fyrir frelsi á fjölmiðlamarkaði?

Alltaf reglulega heyrir maður ropað í þessu samfélagi um mikilvægi barna og hve nauðsynlegt er að tryggja börnum þessa lands viðunnandi lífsskilyrði og öryggi, því þau munu jú jörðina erfa. Sérstaklega er ropað á hátíðisstundum þegar einhver er þarfnast viðurkenningar, jafnvel atkvæðis. En þegar til kastanna kemur er landinn svo upptekinn við að vera með höfuðið upp í rassgatinu á sér að við hirðum ekkert um börnin (Afsakið orðbragðið).
Dómur féll í hæstarétti nú fyrir skömmu þar í kynferðisafbrotamáli. Þar vitna stúlkur um að maður hafi misnotað þær á löngu tímabili í æsku þeirra, hægt er að nálgast ógeðfelldar lýsingar á því hvað hann gerði inná síðu hjá hæstarétti (og eflaust í DV). Maðurinn nýtur hér fyrningarréttar! Heppinn, maður er alltaf svo heppinn. Bíddu bíddu, hvað er þetta. Yndislegt að misnota og misbjóða stúlkum (og drengjum í einhverjum tilfellum) sem ekki geta varið sig og hafa lítið vit á að segja frá (ótti) og þegar málið kemur upp á yfirborðið er það langt um liðið að viðkomandi sleppur. Hvað segir maður þá ,, Sorry stelpur, það er vitað að kynferðisleg misnotkun hefur varanleg neikvæð sálræn áhrif á þann sem fyrir henni verður, en það er svo langt síðan að reddiði ykkur ekki bara? Viljiði sleikjó?
Þegar þessi ákveðni dómur er skoðaður er ljóst að embættisafglöp eru nokkuð áberandi, en maður lítur ekki í eigin rann eða leiðréttir sig til að réttlæti og lög nái fram að ganga, ó nei, maður reynir bara að halda haus, stelpur viliði ekki annan sleikjó?
Maðurinn umræddi, kannaðist að einhverju leyti við þau afrek sem talað var um, hann átti þó enga hlutdeild í einhverskonar misnotkun heldur var hann með eindæmum óheppinn ástundum og átti það til að detta á stúlkurnar og svo var hann það vísindalega sinnaður að gera þurfti nákvæmar mælingar á kynþroska stúlknanna með því að káfa á þeim. Óheppinn. Greyið.

Til hvers að ropa um mikilvægi barna ef lítið er skeytt um afdrif þeirra og vellíðan? Til hvers að ropa um börn þegar réttarkerfið getur ekki staðið undir vernd barna? Til hvers að ropa um mikilvægi verndar og öryggis barna ef ekki á að standa undir því? Er ekki hreinlegra að viðurkenna það að höfuðið sé fast, það sé ágætt og börn séu skemmtilegt stofustáss, sem ekki þarf að vernda sérstaklega. Greyið maðurinn var nú ekki annað en óheppinn. *rop*

Hvers virði eru þá börn landsins?
Hvers virði er sálarheill manna?
Er réttarkerfið einhvers virði?

Lengi lifi fjölmiðlafrumvarpið!




ALGJÖR HETJA

Hetja er skemmilegt orð, samansett af mörgum merkilegum stöfum og samkvæmt heilagri orðabók er merking þess kappi, hraustmenni, afreksmaður. Þjóðhetja er einhver sem hefur unnið afrek fyrir ættland sitt. Hetjukvæði eru til að mynda kvæði eftir mikla kappa.

Gunnar er nú meiri hetjan! Sjá má á þessari setningu að talað er um karlmann sem er hetja og það merkir að hann sé mikill kappi. Glöggir lesendur hafa séð að hetja er kvenkynsorð þó það merki kappi og Gunnar sé slíkur.
Eitthvað virðist það fara fyrir brjóstið á fólki að þetta merka orð sé kvenkyns, þó það ætti ekki að valda skaða. Jafngilt er ef Harpa er nú meiri hetjan! Það ætti jafnvel að hljóma betur þar sem talað er um konu sem er hetja (kvkorð).
Hetja á því jafnt að eiga við konur og karla sem unnið hafa til afreka og jafnvel dýr ef út í það er farið (Keikó var hetja á sínum tíma).
Þó orðið sé í kvenkyni hafa margir brugðið á það ráð að tala um Gunnar annarsvegar sem hetju og svo Hörpu hinsvegar sem kvenhetju!!!! Hvað er það eiginlega? Orðið er kvenkyns, vísar í afrek (þó lýsingin sé að mestu í kk) óháð kyni en samt er sett kven fyrir framan? Hvað veldur því? Getur verið að konur í gegnum aldirnar hafi hreinlega ekki unnið til afreka fyrr en á tímum kvennahreyfingarinnar og að íslensk kvennanöfn séu svo óræð að betra sé að setja kven fyrir framan? Getur verið að kvenhetja sé eitthvað meiri og betri hetja en hetjan sjálf hann Gunnar? Má vera að kvenhetjur séu málaðar í afrekum sínum á bikini? Eða með sítt undir höndunum og yfirvaraskegg og því betra að slá varnagla?

Einmitt
Hetjan

miðvikudagur, apríl 28, 2004

Ljónynjur eru yndislegar skepnur.
Þær vita fátt betra en að sleikja sólina, liggja letilega undir fallegu tré frá sólarupprás til sólarlags. Þó fá tré séu í miðborg Reykjavíkur og lítið um steikjandi hita, var sól og ljónynjunni leiðist það ekki. Saklaus dýr spretta fram á sjónarsviðið, í sumarhamnum, flestir í leit að sól og vissulega eru grasbítarnir þar líka.
Helsti löstur ljónynja mun vera eðlisborin leti og sérhlífni. Ljónynjan sér ekki ástæðu til að breyta dásemdarsólardegi í veiðar eða annan óþarfa s.s. próflestur og verkefnagerð sem myndi flokkast undir nútíma veiðiferli. Ljónynjan hugsar oft um veiðar sínar og lætur veiðarfærin liggja fyrir framan sig, blaðar aðeins í gegnum þau, en heldur svo áfram að njóta dagsins. En ljónynjum líður vel í sól. Til hvers að eyðileggja það?

Ótrúlegustu dýr spretta fram á sjónarsviðið, til dæmis spókuðu sig tveir skærgulir páskaungar í miðbænum í dag, þeir studdust reyndar við staf og teljast því varla ungar lengur. Þeir góluðu heldur ekki mikið.

Konan sem veit allt hefur ekki látið sjá sig lengi og ekki nokkur leið að vita hvar hún er. Þar sem að konan sem veit allt, veit allt, veit hún væntanlega hvar hún er svo það er líkast til óþarfi að óttast. Hennar er saknað.

Þrátt fyrir gleði sólarinnar virðist back gammon spilið á Hressó vera í álögum, ynjan kannast ekki við að hafa unnið eitt einasta spil lengi og ekki getur það verið vegna snilli mótspilarans. Fnuss þeim sem magnar galdra ynjunni í óhag.

SÓL SÓL SÓL

þriðjudagur, apríl 27, 2004

Stundum er ynjan einfaldlega hissa.

Einhver kornung stúlka, var nýlega valin fegursta fljóðið á mölinni. Reyndar efast ynjan ekki um það eitt augnablik að foreldrar hennar séu heilnæmt sveitafólk. Hinar stúlkurnar reyndu eflaust að telja sér trú um að þær væru líka sætar, bara á annan hátt, jafnvel innra með sér.
Ynjan hefur á langri ævi sinni náð að hunsa svona gripasýningar að mestu og er oftast með ,,mér er alveg sama" viðhorfið og ,,ef hún græðir eitthvað á því". Á góðu kvöldi getur hún eflaust æst sig eitthvað aðeins, svona rétt til að skapa stemmningu. Líkast til er ynjan einungis öfundssjúk, fædd forynja og mun aldrei taka þátt í svona ,,allir ægilega góðir vinir" sýningu.
Svona sýningar kosta peninga og einhver þarf að borga og því er brugðið á það ráð að fá fyrirtæki sem styrktaraðila. Kringlan var þar á meðal. Kringlan allt á sama stað. Er það ekki svolítið vafasamt? Gerir kringlan sér ekki grein fyrir því að hér á landi eru (vonandi) enn harðvíraðir andstæðingar gripasýninga sem svífast einskis í mótmælum sínum? Þetta eldheita fólk getur staðið með verðlítil spjöld í lopapeysum og mótmælt, farið í viðskiptabann og hreinlega brennt niður kringluna í bræði sinni! Eru þá öll fyrirtæki innan kringlunnar styrktaraðilar? Eru sem sagt allar verslanir í kringlunni vilhallar fegurðarsamkeppnum? Er verið að segja forynjum, tröllum og öðrum mikilmennum að halda sig frá kringlunni?! Hvað er eiginlega að gerast? Þá var ynjan hissa, en það virðist vera í tísku að vera nokkuð frakkur þessa dagana.

fnuss
Huglausa ynjan

mánudagur, apríl 26, 2004

Nauðsynlegt er að minna á að Gjölp er tröllkonuheiti. Tröllkonur fara þó að fela sig, sólin skín æ oftar og tröllkonur þola illa sólina. Forynjan sjálf þolir hana ágætlega og þó hún sé stundum stirð er ynjan ekkert sérstaklega hrædd um að verða að steini.
Hitt er þá mun líklegra að ynjan breytist í kaffi.

Kamilla fermdist í gær og ynjan sannreyndi elli sína. Þarna stóð hún, barnið, í galakjól með uppsett hár, stórglæsileg. Eftir þögn og vandræðalegt augnablik stundi ynjan upp úr sér ,, er stúlkan orðin fullorðin!" Þá fór ynjan að gráta, ekki yfir því að daman væri fermd heldur yfir þessari ÖMURLEGU setningu sem hún hafði misst út úr sér. Sterkt merki ellinnar, bráðum fer ynjan að eiga brjóstsykur á lager og tertu í frystinum svona ef einhver skyldi líta inn. Það var vel þess virði að keyra yfir hálft landið til að fá smá kræsingar. Ætli fólk leigi veislugesti í fermingar? Svona sem uppfyllingarefni?

SÓL :-)

laugardagur, apríl 24, 2004

Ynjan hefur ansi lengi verið gift skeggjuðum manni og sú mynd er föst í huga ynjunnar. Henni brá þegar heim kom maður, hárlaus í andlitinu og sagist búa með henni. Ynjan jafnaði sig, furðu seint, en er þakklát fyrir að þekkja nú öll andlit mannsins.

Ynjan fór í klippingu og sannfærðist um að hárgreiðslufólk hefur vondan húmor, í það minnsta lítinn húmor fyrir heimaklippingum og smá pönki. Sem og fyrr lofar hún bót og betrun og lofaði hárgreiðslukonunni að nota ekki slæri í samhengi við hár. Þar fór það.

Enn á ný rignir á rangláta og ynjan telur sig hafa tekið út sína refsingu fyrir sumarið, treystir því að vætan sé einvörðungu fyrir gróðurinn og svo sé hann mettur.

Best að fara og eyða peningum sem ekki eru til.

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Dagar vetrar eru taldir. Sumarið er mér hugleikið og líkast til hef ég röflað mest um það hér á blogginu að sumarið sé komið að það sé að koma.
Sól í hjarta.
Eitt óbrigðult merki sumars er þegar að rónarnir koma sér fyrir niðrá Austurvelli, ég sá nokkra í dag og þeir virðast koma ágætlega undan vetri. Annað gott merki er þegar að stúdentar landsins klæða sig upp, arka um bæinn í skríplalegum búningum.
Maður getur fagnað báðum hópum, horft til hins fyrri og verið þakklátur og auðmjúkur og samglaðst með hinum.

SÓL sól sól sól sól sól

Gleðilegt sumar

mánudagur, apríl 19, 2004

Einu sinni var ungur drengur frá Noregi staddur á íslandi með ungmennafélagi. Hann er tíu ára gamall. Hópurinn er í miðbæ Reykjavíkur, tekur strætó en drengurinn ungi verður eftir.
Góður maður fylgir honum á lögreglustöðina og fer því strætó bíður ekki.
Drengurinn grætur, en stynur upp úr sér að hann sé norskur. Ynjan talar norsku sem aldrei fyrr, tárin stoppa og saman bíða þau eftir lögreglu sem ætlar að ganga í málið.
Lögreglukonan kemur og segir ,,talar þú ekki íslensku?"
Ynjan bendir á að drengurinn sé norskur
,,taler du ekke íslensku?" endurtekur konan
,, ha" segir drengurinn
,, jæja góði, segðu mér nú hvað þú heitir og komdu hér inn með mér"

Ynjan veit að Erik norski er í góðum höndum

sunnudagur, apríl 18, 2004

Svona líka yndæl helgi liðin

Köfunardagurinn stórskemmtilegur og að honum loknum fór ynjan í matarboð og svo í gleði. Alltaf dásamlegt að umgangast skemmtilegt fólk.

Eitthvað hefur verið dyttað að bátnum góða og ef allt gengur eftir verður Kaptein Ynja komin á fulla siglingu næsta laugardag, hafið bláa hafið damdaram!
Eitthvað höfum við hjónaleysin myndast við að krukka í bílskrjóðnum en það er eitthvað eylítið lengra þar til hann verður ,,sjósettur". En öllu er tileinkuð stund og allt tekur sinn tíma.

Þegar sólin skín er ekki annað hægt en að vera kátur og glaður. Svo er sumardagurinn fyrsti á leiðinni, því fer maður að hætta að tala um blessað vorið heldur sumarið góða

Góðar stundir

föstudagur, apríl 16, 2004

Í handbók heimilisins eru mörg góð ráð, eitt þeirra er að sé maður efins um hvort setja eigi flíkina í þvottavél af ótta við að hún liti er hægt að bleyta bómullarhnoðra og setja við flíkina í fimm mínútur. Komi litur í bómullina er betra að setja flíkina í hreinsun.

Á stund sem þessari veltir maður því fyrir sér hvernig húsmæður komust af áður en að þessi bók var gefin út. Líkast til hefur allur þvottur verið eins á litinn og húsmæður snökktandi í hvert sinn sem þvottadagur var.
Sem betur fer á ég bókina.


fimmtudagur, apríl 08, 2004

já já það er einhver hundur í ynjunni.

Það er mjög kjánalegt hugtak. Er hundur í þér? nei ekki svo ég viti, svona miðað við grunnupplýsingar er lifur, nýru, lungu,maga og fleira. Svo er matur eftir aðstæðum en ekki hundur. Pylsa (hot dog) er líklegast nánasti hundurinn, allavega hér á Fróni...veit ekki með önnur lönd.
Stundum er talað um púka, afhverju ættu púkar að eyða orku sinni í að liggja í mannfólkinu? Líkast til hafa þeir annað og betra að gera.

Ynjan ætlar á vit köfunnar um páskana og hver veit nema að hún taki hundinn og púkann með.

þriðjudagur, apríl 06, 2004

Það að skálpa er að masa eða þvaðra. Ég skal reyna að halda mig á mottunni.

Fátt títt.

Hafi einhver áhuga á að kafa í Sundhöll Reykjavíkur 17. Apríl geta þeir hinir sömu sett sig í samband við ynjuna og fengið forsölumiða.

sunnudagur, apríl 04, 2004

Æ, þvílíkur grátur

Það er eins gott að Inga frænka (eða Inga syss) allt eftir aðstæðum, frétti af veikindum mínum.

Því eins og lesendur ættu að hafa séð þá var hatrömm barátta við sýklana miklu frá kasmír, sem endaði í 1-0 fyrir sýklunum. Ynjan lá í valnum, en réttnáði að plata manninn með ljáinn að kíkja eitthvað annað í kaffi...svona í bili. Hvað þessi hatramma barátta ynjunnar komi Ingu við má einhver spyrja. Jú rétt er það. Það geta nefnilega fáir vorkennt manni jafnvel og mikið og þannig stuðlað að skjótum bata og hún.

Ynjan lá upp í sófa mest alla helgina og ef henni þótti ástmaður sinn eitthvað vera að draga undan vorkuninni reddaði hún því fyrir horn með því að segja hátt og snjallt ,, Ertu veik?" Litla kisa ertu roooooooooooosalega veik?". Þeir vita það sem til þekkja að fái maður þessa yrðingu á sig, er óvænt búið að snúa umræðuefninu að manni sjálfum

atttsjúuu

Vallóni er Belgíumaður með frönsku að móðurmáli og er þá í eða frá Suður- Belgíu.
Vallprúður er myndarlegur á velli