sunnudagur, ágúst 28, 2005

Gaurinn gaurinn mættur á svæðið!

Ég held ég hafi ekki upplifað jafn ólíka helgi, andstæðurnar hrópandi og miklar. Ég hef sjaldan glaðst yfir því að vera að eldast en þessi helgi er undantekning.

Föstudagurinn var sá magnaðasti sem ég hef séð, er enn að skorta huganum að honum og endurupplifa ævintýrið, kraftaverkið og klisjurnar. Hjörtur sem er betur þekktur sem JÚPITER skellti sér í heiminn á föstudeginum. Magnað. Ég hlakka svo til að kynnast honum betur. Í eigin klisjukenndum koma upp frasar og orðatiltæki sem í gegnum tíðina hafa farið í taugarnar á mér. Hjörtur er magnaðasta barn allra tíma. Róleg Ynjan... en maður á að segja það sem manni finnst. Frábært og allir til hamingju gaurinn gaurinn!!

Laugardagurinn var svo sá ógeðslegasti sem ég hef upplifað lengi ef nokkurn tímann og ef einhvern tíma hefur verið stund fyrir drama þá var það í gær. Því miður var ynjan í aðalhlutverki. Því miður á eftir að minna ynjuna á þennan dag nokkuð lengi. Ynjan drap ekki mann en Ljóni ,,drap" eiginlega sjálfan sig á óeiginlegan hátt. Ynjan er enn í svo miklu uppnámi að hún getur ekki hugsað sér að útskýra málið nánar. En vonandi þó ynjan efist, hlær hún af þessu eftir 25 ár. Ynjan var farin að hlakka til Taívan-ferðarinnar og hlakkar enn meira til núna en á allt öðrum forsendum, hún þarf að komast í sjónpásu.

Gallinn við góðu dagana er sá að þeir koma aldrei aftur. Þeir standa eftir sem minning.
Kosturinn við vondu dagana er að þeir koma aldrei aftur og maður reynir að gleyma þeim sem fyrst.

Oft var þörf en nú er nauðsyn.

En í ljósi þess að Hjörtur sé á svæðinu verður maður að gleðjast, vera glaður og kátur. Hann skiptir víst meira máli en margt annað.
... jákvæðni er allt sem þarf....

Klisynjan mikla frá kasmír

sunnudagur, ágúst 21, 2005

Já þú meinar

Í gær var tuttugasti og í dag eru tuttugu dagar þangað til ég fer til fyrirheitna landsins, Taívan. Tilviljun, nei það held ég ekki.

Annars hef ég farið nokkuð oft út á flugvöll í sumar og þegar maður fer svo oft til Leifs líður manni eins og maður hafi verið í útlöndum, tala nú ekki um þegar maður á sígarettur sem eru BOX og með útlenskan texta á sér fyrir sjónskerta.

Menningarnótt í gær sem var eiginlega meira um daginn og þá um kvöldið en ljómandi gott afmæli Reykjavík til heiðurs. Yndislegur dagur sem var nokkuð nátengdur öðuskel og steinbít, til þess að ýta undir eigin brandara fór ynjan á tónleika með rauðum fiskum og fór þaðan með nokkrum stoppum annars staðar niður á höfn og horfði á syrpu Todmobile sem kallaði fram tár á ynjunni. Syrpa á menningarnótt er eitthvað sem Gylfi Ægis myndi gera. Flugeldasýningin byrjaði af miklum móð og ynjan ásamt sínum ektamanni himinlifandi yfir ljósadýrðinni. En helv. sýningin ætlaði aldrei að hætta og þegar ynjan var komin með nóg af dýrðinni gat hún ekki hætt að telja þúsundkellingarnar sem orkuveitareykjavíkjur sprengdi upp á minn kostnað. Ynjan engdist um og kvaldist. Fínt að hafa sýningu í boði or en hún þarf ekki að vera það löng að maður fer að hugsa um bruðlið. Nóg bruðlar or samt. Ég sat og hugsaði um hve lengi ég gæti haft kveikt á tölvunni minni frítt fyrir rauða flugeldinn og hve lengi gæti ég haft kveikt á eldavélinni fyrir fiðrildaflugeldinn? Bruðl og aftur bruðl niður með alfreð og or!

En allt var þetta í þágu alþýðunnar og allir skemmtu sér nema gaurinn sem bjó upp í Grafarvogi og kunni því illa hve lengi strætó var á leiðinni og fór út strax á hlemmi!

mánudagur, ágúst 15, 2005

supæsa ekki vissi ég að daninn Jakup Svestrup væri svona rosalega rosalega heitur. Gott að vita að maður geti enn þá kiknað í hnjánum og flissað eins og smá stelpa. Ekki yfir Jakup heldur ... gott að vera í góðra manna hóp.
Þvottavélin mín virðist ætla að gefa (upp) öndina að okkur forspurðum. Heldur slappt að vera ekki í samráði, það er inni í dag.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Klukkan er alveg að verða ellefu og ég á að vera löngu búin í vinnunni.
Skil ekki af hverju ég er þar enn.

föstudagur, ágúst 05, 2005

Kaffi

Kaffi er það mikilvægur drykkur að þegar kaffivélin bilar í vinnunni, afkastar maður ekki neitt.
Maður er einfaldlega í fýlu yfir kaffiskorti.
Nei kannski ekki lengur en ynjan byrjaði kvöldið á því að bæta upp kaffiskortinn, tíu bollar - wonntúgó!

mánudagur, ágúst 01, 2005

Göngutúrinn

Þegar ég var yngri og bjó í litlu sjávarplássi, gekk lífið út á fiskinn. Í þorpinu voru starfræktar nokkrar fiskvinnslur og ég vann nokkur sumur í einni þeirra.
Í frystihúsinu var mikið af fólki og mikið af sérstökum karakterum. Einn þeirra var Gísli kallaður göngutúr. Ég minnist þess ekki að hafa talað oft við hann en man eftir honum í bakgrunninum, reykjandi vindil á leiðinni í göngutúr eftir vinnu. Frystihúsin eru flest farin á hausinn en göngutúrinn er enn í bænum.
Gísli hefur að mér vitandi alltaf búið einn en á að sögn tvö uppkomin börn sem ég hef aldrei séð. Árin liðu og ekki minnist ég þess að hafa hugsað mikið til Gísla, gerði ráð fyrir að hjá honum sem og öðrum gengi lífið sinn vanagang.
Eitthvað hefur lífið ákveðið að svíkja Gísla, hann er ekki alveg heill heilsu þrátt fyrir mikla jákvæðni. Hann er hættur að vinna, fluttur á elliheimilið á staðnum. Hann nýr þumlunum stanslaust og andlitið kippist til og mest áberandi er þegar hann hreyfir munninn á sér, þá eru viprur um munnvikið og hann á erfitt með að halda munninum lokuðum. Sökum veikinda hans er hann farinn að fá rauða skelli í andlitið.

Lífsgleðin er enn til staðar þótt minnið sé að fara. Hann elskar að dansa, ganga og hitta túrista. Þessa líffyllingu sína nær hann að uppfylla þegar skemmtiferðaskipin koma í bæinn, hann man ekki hvað starfskonan heitir á elliheimilinu en hann man upp á hár hvenær skipin eru væntanleg að landi.
Gísli fer eins og klukka niður að höfn og bíður ferðalanganna. Um leið og þeir stíga á land heilsar hann þeim á engilsaxnesku og tekur sporið, stundum reynir hann að fá einhvern til að dansa við sig en oftast sveiflast hann til einn. Að launum þiggur hann handaband og litla kveðju.
Nú bíður Gísli í ofvæni eftir því að presturinn komi úr sumarfríi, hann þráir ekkert heitar en að fá að gerast sendiboði kirkjunnar, helst í tengslum við skemmtiferðaskipin. Það er ábyrgðarstarf að opna kirkjuna.
Gísli er yfirleitt einn á göngu en staldrar hjá þeim sem við hann vilja tala, segir þeim frá börnum sínum, skemmtiferðaskipunum, mannráninu, kirkjunni og öðru sem hann hefur unun af. Stundum stoppar hann hjá þeim sem helst vilja gleyma tilvist hans.
Fæstir í bæjarfélaginu vilja af honum vita, helst ekki að hann komi að skipunum, enn síður að hann dansi hvað þá að hann láti yfir höfuð sjá sig á skemmtunum. Ítrekað hefur verið reynt að meina honum að taka þátt í komu túristanna, en Gísli veit að hann getur dansað og veit að koma skipanna gefur lífi hans tilgang.
Gísli hefur engan svikið og engan leikið illa, hann þráir að dansa og hitta fólk.
Gísli er örugglega ekkert ólíkur mér fyrir utan minnið.
Ég er þó oftast velkomin þar sem ég er. Reykvíkingum er alveg sama hvar ég dansa.
Sem betur fer á göngutúrinn sér málsvara í bænum en þeir vinna því miður ekki á elliheimilinu, þar segir hann að sér sé smalað sem sauðfé væri.

tökum sporið