fimmtudagur, júlí 28, 2005

Vá gleðin

Ótrúlegt hvað margir muna eftir afmælinu manns. Kítlar svolítið hégómagirndina í manni.

Til hamingju allir Gríshildur, Ilia, Gísli, Sandra (í gær), Birgitta Haukdal og aðrir sem gera tilkall til dagsins.

Takk

þriðjudagur, júlí 26, 2005

Nú fer sá dagur að koma að gríshildur heldur upp á afmælið mitt. Ef eitthvað er að marka vefritluna hennar hefur hún séð sér fært að baka kökur í tilefni dagsins og bjóða fólki. Ég gerði mér ekki grein fyrir því hve mikið gríslan líktist Móðir Teresu en alltaf er hægt að koma ynjunni á óvart.
Fyrir utan óvænt kaffiboð frú G. verður ynjan að heiman á afmælisdaginn. í ljósi aldursins er hún ekki á leiðinni á útihátíð heldur í giftingu. Taivan-farinn tilvonandi finnur að samfélagið er eitthvað að ota að henni að tími sé kominn til að vera gáfulegur...

Ynjan var ekki mjög ung þegar hún var gefin Njáli en komin við aldur þegar hún keypti miða til Taívan.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

staðfest

Ynjan gekk frá miðanum í gær, nú er ekki aftur snúið. Flug til London, þaðan Hong Kong og að síðustu til Taívan. Brottför 10.september og heimkoma 19.desember. Nú þegar er búið að ganga frá skutli og sækingu þannig að æstir aðdáendur ynjunnar geta látið af hugsunum sínum um að fá að sækja hana.

Mikill tími fer í að sinna draumaheimi ynjunnar en þess utan er hún ern og upprifin. Kannski ekki af þessari endalausu rigningu en sumrinu.

Eftir krókaleiðum, með betli og beittum vopnum náði ynjan í miða á Kim Larsen og situr óheyrilega spennt.

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Taívan

Flest er klárt og skipulagt fyrir ferðina, farmiðar liggja væntanlega í MT 52 eftir fáar vikur. Skipulagsæði ynjunnar kemur berlega í ljós við aðstæður sem þessar. Það sem til þarf við undirbúning á slíkri svaðilför:
Tíma, brottför er eftir 2 mánuði og ekki ráð nema í tíma sé tekið.
Þykka bók úr bókabúð, þar skal skrá helstu hugrenningar varðandi ferðina. Gangi skipulagning vel er nauðsynlegt að bókin hafi gorma svo auðvelt sé að rífa síðurnar úr og byrja aftur.
Síma, til að geta hringt í fólk sem nennir ekki að hlusta á þig og leiða það í allan sannleik málsins. Gott að hafa bókina þykku við hendina svona ef smáatriðin eru ekki fersk í höfðinu.
Tölvu, til að finna upplýsingar og vera með á nótunum.
Bakpoka, svo hægt sé að pakka og umpakka, endurpakka og aftur pakka.
Síðast en ekki síst umburðalyndan mann sem brosir út í annað þegar draumlyndið tekur völd:) Ákjósanlegt að taka ektamanninn með ef það er ekki í boðinu er nauðsynlegt að fyrir liggi loforð um heimsókn.

Ynjan gerir sér grein fyrir því að stóísk ró sé eiginleiki mikill, en stundum verður að vera hægt að fá lit í kinnarnar af tilhlökkun.

mánudagur, júlí 11, 2005

Arg

Ef einhvern vantar að losna við miða á Kim Larsen tónleikana má hinn sami hringja í mig, 4 miðar væru alveg fínt.

Ég er búin að gera núna þrjár tilraunir og alltaf gripið í tómt, fer að verða nokkuð fúl yfir þessu óláni, held áfram að vera hress í þeirri von að einhver forfallist á tónleikana eða hafi einfaldlega óvart keypt of marga.

Lifi rokið! Og rigningin

Arg

Ef einhvern vantar að losna við miða á Kim Larsen tónleikana má hinn sami hringja í mig, 4 miðar væru alveg fínt.

Ég er búin að gera núna þrjár tilraunir og alltaf gripið í tómt, fer að verða nokkuð fúl yfir þessu óláni, held áfram að vera hress í þeirri von að einhver forfallist á tónleikana eða hafi einfaldlega óvart keypt of marga.

Lifi rokið! Og rigningin

sunnudagur, júlí 03, 2005

Fór á Líf 8 tónleikana í hljómskálagarðinum. Útitónleikar eru alltaf sér á báti, eitthvað svo hressandi. Stjörnur Íslands stigu á sviðið, hver á eftir annarri og sungu málstaðnum til stuðnings. Ynjunni þótti eilítið undarlegt að Bubbi skyldi syngja Svartur afgan og Rómeó og Júlía, svona í ljósi þess að verið var að syngja fyrir betri heimi, ynjunni til efs um að fíkniefni bæti heiminn. Eflaust eru ekki allir sammála því. Rigningin var tillitsöm, að venju, og lét ekki finna fyrir sér fyrr en eftir tónleikana. Táknrænt hélt ynjan en svo hefur rignt síðan.

Gáfnafar ynjunnar batnar því miður ekkert með árunum því hún fór á fætur um fimm að morgni laugardags, þegar enn var föstudagur hjá mörgum. Ynjan keyrði um götur borgarinnar í leit að morgunverði á kaffihúsi. Veitingahúsaeigendur vita að ekki nokkur heilvita maður verslar fyrir átta á laugardegi og því fór hún í bakarí. Þegar sá dagur rennur upp að ynjan veit ekki aura sinna tal ætlar hún að opna kaffihús sem verður opið frá sex til níu á morgnanna svona ef hún skyldi einhvern tímann endurtaka leikinn.

föstudagur, júlí 01, 2005

Sumarblogg

Líkast til dregur úr bloggi á sumrin, svona líkt og bloggfærslur verða langar og ítarlegar á annatímum eins og á prófatímum.
Nú þegar ynjan situr fyrir framan tölvu allan daginn getur hún eiginlega ekki hugsað sér að fara heim og setjast aftur fyrir framan tölvuna. Sumarleti bloggsins á sér því nokkra skýringu.

Svo situr hún nú fyrir framan tölvuna, ætlar sér að sýna nokkra yfirbót en lítið gengur. Ynjan getur hugsað sér að nöldra yfir nýja páfanum, forsætisráðherra, íslensku máli, sorptímaritum og Engillínu Jólu en hreinlega nennir það ekki. Af hverju?

Það er sumar!!!!

Besta afsökun í heimi.