fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Ynjan var á leiðinni heim eftir langan dag í skólanum. Leiðin heim er ekkert sérstaklega stutt en aksturinn er ánægjulegur svona almennt.

Svo er hún stopp að bíða eftir grænu ljósi eins og hitt fólkið á vespunum og fólkið í bílnunum. Grænt ljós og kerla heyrir DÚNK.

Ekkert sérstaklega brugðið lítur hún við og sér mann liggja í götunni og bíl fara lötur hægt eftir löppinni á manninum og hann öskrar.
Ynjan var heldur gáttuð og brást hetjulega við, hún starði bara! Jú núna var henni brugðið einhverra hluta vegna hugsaði hún ekki um annað en að maðurinn væri í gráum buxum! Já þegar einhver þarf á aðstoð að halda er gott að leggja á minnið hvernig buxum viðkomandi er í.

Svo var bílinn stopp og hjakkaði aðeins á lærinu á manninum, þangað til Ynjan rankaði aðeins við sér og lagðist á flautuna og gaf fólkinu merki um að bakka, en fólkið í bílnum horfði flóttalega í kringum sig og hafði ekki hugmynd um hvað var í gangi og af hverju bíllinn rann ekki ljúft að stað.

Loks tók einhver við sér og hoppaði af vespunni sinni og hljóp að bílnum. Maðurinn undir bílnum var líka farinn að berja í húddið á bílnum.

Ökumaðurinn steig út skelfingulostinn að sjá og stumraði yfir manninum sem hafði lent undir bílnum og gaurnum sem hafði vit á því að stökkva til og aðstoða greyið manninn. Buxurnar hans voru enn gráar þegar Ynjan rankaði endanlega við sér og keyrði í burtu, vitandi að maðurinn væri í góðum höndum.

Gráar buxur!

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Eitt það allra skemmtilegasta sem ég veit er þegar taivanar setja upp ,,peace" merkið fyrir myndatöku, yfirleitt er önnur höndin uppi en stundum báðar. Ég hef bara aldrei náð þessum brandara.

En svo útskýrði bekkjarfélagi minn fyrir mér í dag að í rauninni táknið V fyrir Victory. Hún benti mér líka á að hafi maður báðar hendur á lofti, ,,peace" merkin upp við andlitið þá virkar það grennandi.

Þær höfðu ekkert heyrt um öfuga ,,peace" merkið og gildi þess að vera enn með tvo fingur þegar maður notast við boga... ég útskýrði það ekkert nánar heldur.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Bráðum fer að rigna, ég er ekki með regnkápuna mína og þarf því að keyra heim með súrt regn í andliti mínu og á fötum mínum. Ég fagna regninu, það hreinsar loftið aðeins og kannski verður ekki þykkt mengunarský yfir öllu á morgun, hver veit nema ég sjái til himins.

Börnin eru orðin níu, fjögurra vikna drengur bættist í hópinn í síðustu viku. Hann hefur ekki enn fengið nafn en er kallaður grenjuskjóðan enn sem er. Hann ber nafn með rentu.
Undarleg tilfinning að sitja með þrjú svöng börn fyrir framan sig og moka upp í þau mat. Svolítið eins og á sinfóníutónleikum, þau arga um leið og þau eru búin að kyngja. Ég verð því að æfa mig í að gefa þremur í einu. Það er langt síðan ég fór á sinfóníutónleika.
Þau eru farin að þekkja mig og Pi (gælunafn þýðir óþekkur) fleygir sér orðið í fangið á mér þegar ég kem. Sú umhyggja sem ég get boðið er sú umhyggja sem hann fær. Hann er aldrei sóttur á kvöldin.

Við sitjum 14 saman í herbergi og erum að leika og stóru börnin hrópa frænka frænka og gera grín af framburði mínum. Ég brosi í kampinn, svolítið sár, ekki mikið. Ég verð víst alltaf útlendingurinn sama hvað.

Starfstúlka kemur inn og er með þykkt leðurbelti um mittið á sér og ól hangandi frá beltinu. Unglingsstrákur er fastur í ólinni og eltir starfsstúlkuna. Ég kem hugsuninni um Inggjaldsfíflið ekki frá. Ég leit undan þegar hún batt strákinn við burðarsúlu í miðju herberginu. En hvað er hægt að segja við erum þrjú og börnin fjórtán. Mig svíður enn í hjartað. Við lékum okkur saman við súluna, hann barði dótinu sínu í dótið mitt og hló. Mig langaði mest að gráta.

Bekkjarfélagarnir neyddu mig til að bjóða þeim í mat. Hugmyndin var svo sem ekkert vond þangað til ég fattaði að ég á bara þrjá diska og fjóra bolla og við verðum fimm. Ég á engar skálar og lítið um annan borðbúnað. Það eru heldur engir stólar í íbúðinni. Kannski ég panti bara pítsu og segi þetta japanskt matarboð. Eða bjóði upp á grjónagraut í plastmáli.
Það er ekki hægt að sitja á gólfinu því það er alltaf svart af sóti, mengunin smýgur um allt.

Hjálmurinn minn hvarf um helgina. Ég vona að sá sem tók hann hafi þurft á honum að halda. Ég fór og keypti nýjan hjálm.

sunnudagur, nóvember 26, 2006

Það tók svo langan tíma að logga sig inn að núna nenni ég ekki að blogga. Svo eru vefritluleiðbeiningarnar á kínversku. Það er fúlt.

Meira seinna

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Íslendingar koma í veg fyrir botnvörpubann

Málamiðlunartillaga um alþjóðlegt bann við botnvörpuveiðum á úthöfunum var felld á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, í gærkvöldi, fyrir fyrir tilstuðlan Íslendinga.

Hvaða fámuna fávitaskapur er þetta?

Eins og snillingurinn sagði þá eru íslendingar sammála umhverfisvernd ef það kemur ekki við okkur.

Eru allir búnir að gleyma Great Banks?

Ef einhver spyr þá er ég frá Grænlandi nú eða Chad.

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Aung San Suu Kyi hefur setið í stofufangelsi í sautján ár. Hún fórnaði fjölskyldu sinni fyrir hugsjón sína. Eiginlega hefur hún fórnað lífinu fyrir hugsjón sína.
Kannski er enn von fyrir Burma/Myanmar. Vonandi man Aung San Suu Kyi eftir því að Mandela beið í 27 ár.
Ég meika ekki að bíða eftir strætó

Ya Mei bekkjarsystir mín, fleygði sér í fangið á mér og flissaði. Ya Mei fann upp góða skapið. Ég kunni ekki við að segja henni að bolurinn minn væri allur út í hori. Henni stóð örugglega á sama...

mánudagur, nóvember 20, 2006

I am Kloot í Mp3 spilaranum og við erum tvö að hlusta.

Við þeytumst eftir hraðbrautinni í tuttugu ára gömlum bíl, sem má muna sinn fífil fegurri. Það er farið að dimma og steypuklumparnir og vegatollarnir gera mann sljórri en vanalega.
Félaginn tönglast á því að hann megi ekki keyra hraðar en 120 og bölvar ökumönnunum hægri vinstri. ,,Nanbúdao wo" Ég glotti út í annað en ákveð að segja ekki frá sumri hinna miklu sekta.

Áður en ég veit af er ég komin undir yfirborð sjávar og óska einskis heitar en að vera með tálkn. Ægifagrir fiskar synda hjá og kóralrifin eru marglit. Ruslið skyggir samt á annars þessa dásamlegu köfun.

Hvernær ætli heimurinn átti sig á því að hafið tekur ekki endalaust við?
Ætli mannskepnan geti einhvern tíma hætt ofveiði?

Mér stendur ekki á sama þegar meters langur snákur syndir fram hjá mér og upp á yfirborðið til þess að anda. Honum virðist nokkuð sama um tilvist mína. Ég er heilluð af tilvist hans.

Það hvarflar ekki að mér að viðurkenna fyrir kennaranum mínum að ég hafi haldið mér í hæfilegri fjarlægð frá honum, ég ætti í hættu að tapa orðspori mínu sem nagli.

Sólin skein og ég hugsaði ekki niðurstaðan sólbruni á öxlum eftir frábæra köfunarhelgi. Því lærði ég að segja ,,fórnarkostnaður" á kínversku í dag.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

gamalt efni og vonandi klassískt

Ég man vel eftir, á uppvaxtarárum mínum, hvað útlendingarnir á Grundarfirði voru spennandi. Öðruvísi föt, annað tungumál, þeir voru jafnvel öðruvísi á litinn! Mér fannst yndislegt að hjóla á eftir þeim og spjalla. Bara forvitnast, spurði um það sem lá mér á hjarta þann og þann daginn. Ekki óraði mig þá, að ég ætti eftir að vera í ámóta sporum og fólkið sem ég elti, útlendingur í ókunnu landi.

Ég minnist þess ekki að hafa verið elt af börnum á hjóli í Taívan, en sum benda á mig og hæðast að litarhætti mínum – nú eða stærð. Sérstaklega er gaman að kalla meiguoren (ameríkani) eða weiguoren (útlendingur) og fá að launum bros frá trölli. Forvitnin er eins hjá ungu barni á Grundarfirði og í Taichung og um margt er spurt.

Það er spennandi og á sama tíma erfitt að koma sér fyrir í öðru landi. Leggja þarf til hliðar flest sem áður var þekkt, sér í lagi ef tungumálið er ólíkt og óþekkt, byrja upp á nýtt. Að panta kaffi og fara í banka verður stór mál og það tekur á að kanna heiminn á nýtt. Sakleysislegur hlátur heimamanna, getur verið ógnandi þegar ekki er vitað um hvað er talað. Verði nýja lífið of magnþrungið er farið í áður þekktan veruleika - hina útlendingana. Þannig er auðvelt að einangrast og verða afskiptur í nýju samfélagi.

Með útglennt augun við afgreiðsluborð á fjölfarinni götu, kófsveitt, horfandi á tákn sem segja lítið - og blóðlanga í kaffi er ekkert grín. Afgreiðslustúlkan hristir hausinn og handaútskýringar koma ekki að gagni. Þá sér einhver aumur á manni og býðst til að hjálpa, kannski með því að tala ensku og túlka, hafa kjarkinn til þess að tala kínversku hægt – eða í versta falli teikna og hughreysta þar alla hlutaðeigandi. Þannig hef ég ófáa kaffibollana drukkið og ófá vandamálin leyst- með hjálp annarra. – Og eignast mína bestu vini hér í Taívan, standandi með úfið hárið- hjálparlaus. Enda eru Taívanar stoltir af hjálpsemi sinni og mega vera það.

Viti menn, ég hef ekki breytt menningu Taívana en lært heilmikið um hana og hef fengið tækifæri til þess að segja frá minni. Ég ógna ekki tungumáli þeirra, þó þeir hafi gaman að vonlitlum framburði mínum. Ég held að allir græði á veru minni hér. Ég get margt lært og miðlað áfram og Taívanar að sama skapi.

Það er auðvelt að festast í viðjum vanans, því sem er kunnuglegt og öruggt. Festast í þægindahugsun, sem hleypir fáu nýju að. Fyrir vikið, því miður, óttumst við oft aðra og gefum ekki færi á okkur. Við miðlum ekki okkar lífi og reynslu og lærum ekki um aðra, bara af vana.

Þegar öllu er á botninn hvolft tapa allir!

Því verður mér oft hugsað til barnanna þegar kemur að því alþjóðasamfélagi sem Grundfirðingar( Íslendingar) búa í, við getum lært heilmargt af þeim.

Börn eru nefnilega frábær, blátt áfram og óhrædd, ekki búin að læra að forðast og óttast hið ókunna og stendur ekki ógn af neinum. Þau eru könnuðir samfélagsins og taka því sem fyrir er.

Og börnin eru eins á Grundarfirði og í Taichung.

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Hér á ég heima, lengsta blogg í heimi.

Hliðin var stórt og ógnvekjandi. Málað rautt og erfitt að sjá inn fyrir. Ég stóð fyrir utan og velti því fyrir mér hvort ég ætti að fara aftur heim og láta sem ég hefði gleymt því að ég ætlaði að mæta. Láta aldrei sjá mig aftur.

Þegar ég hringdi dyrabjöllunni hugsaði ég um Ólíver Tvist, sama hvernig allt fer í dag, ekki biðja um meira.

Stutt orðaskipti og gáttirnar opnuðust. Það færðist yfir mig bros. Það var sem ég væri komin í ævintýraland. Há tré um allt, hús á víð og dreif, fótboltavöllur og frjálsíþróttavöllur. Húsin múrsteinslöguð og þvottur fyrir utan hvert eitt og einasta hús. Þorp inn í borg.

Risastór hvít kirkjubygging hægra megin við eitt húsið. Enginn kross sjáanlegur.

Á móti okkur tók brosandi kona og leiddi okkur í skrifstofubygginguna, þar sem maður um fimmtugt stóð skælbrosandi líka og bauð okkur velkomin.

Hann benti til kirkjunnar og sagði að upphaflega hafi samtökin verið kristileg samtök en árið 1979 var breytt um stefnu og nú má hver trúa því sem hann vill sagði hann kankvís. Þegar stofnunin fór af stað árið 1959 voru aðeins tíu munaðarleysingjahæli í Taívan, nú eru þau um 250.

Hann leyddi okkur inn í eina byggingu á eftir annarri, fas hans var afslappað og traust. Hann sagðist hafa unnið með stofnuninni lengur en hann kærði sig um að muna. Hann sagði það ekki óalgengt. Þeir sem hættu ekki eftir tvö eða þrjú ár hættu aldrei. Hann var komin í skrifstofustarf, löngu hættur að vinna inni á heimilunum. Það væri erfitt starf og krefjandi. Vinnutíminn 24 klukkustundir og svo frí. Vinnan felst í því að vera staðgengill foreldra, nema maður vinnur á vöktum og á sextán börn annan hvern dag.

Þetta þorp er með mörg heimili og hýsir börn á aldrinum sex til átján ára. Hvert heimili er skipt eftir aldri og eftir tíu ára aldur eftir kyni líka.

Byggingin fyrir yngstu börnin var með 16 litla stóla og risastórt borð, glænýtt sjónvarp, leikjatölva og dvd-spilari haganlega út í horni. Hann hló og sagði þau stundum helst ekki vilja fara í skólann.

Í hverju herbergi voru tvær kojur, fjórar sængur snyrtilega samanbrotnar, ein í hverju rúmi. Frammi á gangi voru box með tannbustum og bollum raðað snyrtilega upp. Veggirnir í eldhúsinu skreyttir með teikningum eftir börnin. Leikherbergið troðfullt af dóti. Þau borða morgunmat inni á heimilunum en allir borða saman í hádegis og kvöldmat í mötuneytinu.

Eitt húsið var bleikt að innan, veggir skreyttir með bleikum teikningum og bleik gluggatjöld allsstaðar. Fiskabúr á skrifborði hvers og eins og myndir af poppstjörnum um alla veggi. Við vorum komnar í stelpuhúsið.
Strákaunglingaheimilið var ekki bleikt og ekki skreytt. Alvöru hrátt strákaheimili. Einn unglingurinn var heima, þegar hann sá til okkar var hann ekki lengi að forða sér og inn í herbergi. Ég skildi hann svo sem vel.

Átján ára fara þau flest út í lífið, pakka saman því litla sem þau eiga og fara. Stofnunin reynir eftir megni að redda öllum vinnu. Sumir fá að vera lengur sé vilji fyrir því að fara í háskóla. Erfitt er hinsvegar að finna háskóla sem ekki taka greiðslu eða útvega fé í háskólanám fyrir þau.
Hann sagði sum ekki þekkja annað en lífið hér og því væri fjölskylda þeirra þarna. Önnur þekktu annað og verra líf og tóku lífinu hér fagnandi. Enn önnur eru með sár á sálinni sem aldrei virðast gróa.

Við fengum fylgd yfir á næsta heimili, tuttugu mínútna keyrsla, þar sem aðeins færri búa eða um áttatíu börn og ungmenni.

Í glampandi sólskini hljóp stúlka á móti mér og faðmaði, hún hefur verið á að giska fjórtán ára. Já steríotýpan fyrir downs vildi helst kyssa mig á munninn.
Við gengum inn í garðinn og á að giska tuttugu börn í hjólastólum og með spelkur um allan skrokk sátu úti í sólinni. Sumir voru á rúntinum, starfsmaður ýtti þeim hring eða tvo og gekk á línuna, allir áttu að fá sinn göngutúr.

Kona á miðjum aldri leiddi okkur um bygginguna og sagði frá íbúunum. Flestir voru munaðarlausir, yfirgefnir af foreldrum og einhverjir áttu foreldra sem ekki gátu séð þeim farboða. Einhverjir voru á fæti og þótti ekki leiðinlegt að horfa á útlendinginn og segja halló.

Við skoðum sjúkrabygginguna, börn á aldrinum eins til tólf ára lágu í rúmum meðan var verið að gefa þeim að borða, snúa eða teygja. Lítil stúlka grét hástöfum en starfsfólkið hélt áfram að sinna þeim sem átti að sinna. Hennar tími var ekki kominn enn.

Á annarri hæðinni voru krakkar á aldrinum sex til tíu ára ásamt nokkrum eldri sem ekki voru andlega heilir. Hvort börnin voru það veit ég ekki en ekkert sjáanlegt að. Á annarri hæð búa börn sem eiga það sameiginlegt að hafa verið misnotuð á einhvern hátt og eru betur sett hér en heima hjá sér. ,,Ástæðurnar eru svo margar”, sagði konan. ,,Oft er ég hætt að spyrja af hverju, svona er lífið.” Börnin tóku sér pásu og göptu af undrun en féllust á að syngja tvö lög fyrir okkur og voru klöppuð upp í að syngja það þriðja.
Stúlka á unglingsaldri kom og knúsaði mig, slefuð um allan líkama og brosti sínu breiðasta. Hún hafði ekki fengið margar tennur í vöggugjöf en henni var sama, bleikur gómurinn blasti við mér og augu hennar blikuðu.

Hvað tekur við upp á þriðju hæð? Ég fann hvernig fætur mínir þyngdust með hverri mínútunni. Konan opnaði hurð og sagði ,,hér eru börnin”.

Fyrir framan mig inní stóru rými voru fimm börn á aldrinum ellefu til sextán mánaða og léku sér með dót. Þau voru öll í eins fötum og undu sér vel. Eitt stóð upp og hljóp til fylgdarkonunnar. Já hann þekkti hana augljóslega vel. Fagnaðarfundir.

Ég staldraði við og lék aðeins við þau og ekki leiddist þeim athyglin, langt því frá. ,,Svo eru þessi litlu hérna fyrir innan”. Mér brá svo að ég stóð upp og gekk inn í herbergið fyrir innan. Verða þau eitthvað minni en þetta?

Þrjú börn lágu í barnarúmum, eitt svaf vært, annað lá þögult og horfði út í loftið og eitt lá á maganum og horfði á mynd af Hello Kitty. ,,Þessi er kallaður Tiger” sagði fylgdarkonan og benti á stæðilegan þriggja mánaða dreng. ,,Hann lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Hann hefur verið hérna frá því hann var þriggja vikna.”

,,Þessi dama er líka þriggja mánaða, hún heitir Litla Sæt. Það er augljóslega eitthvað að henni en við vitum ekki enn hvað. Tíminn leiðir það í ljós. Foreldrar hennar skildu hana líka eftir á fæðingarheimilinu, en hún var skilin eftir því eitthvað er að, af hverju Tiger og stúlkan þarna voru skilin eftir veit enginn. Foreldrarnir ungir, hræddir, fátækir, barnmargir eða vitlausir, hver veit. Kannski verða þau heppin og eignast heimili. Maður veit aldrei.

Eins mánaða gömul stúlkan vaknaði og byrjaði að gráta. Það var ekki erfitt að taka hana upp og hún steinþagnaði og lygndi aftur augunum.
Litla Sæt hefur skynjað að eitthvað væri óvenjulegt svo hún skældi líka og var því tekin upp og snarþagnaði. Tiger gerði slíkt hið sama. Öll voru þau komin á handlegg og steinþögðu. Bleyjurnar voru þungar en umsjónarkonan sagði vera skipt á þeim á tveggja tíma fresti. Hálftími í það enn.

Þarna stóðum við inni á ungbarnaheimili fyrir átta börn og eina umsjónarkonan á svæðinu var augljóslega fegin að þurfa ekki að sinna þeim um sinn.

Tími kominn til að fara. Það var ekki erfitt að leggja þau frá sér, en sárt að heyra þau gráta. Þau voru ekkert ósátt við að vera í fangi, sama hvaða fang það var. Hvernig getur ein manneskja sinnt átta börnum og gefið þeim þá athygli sem þau þurfa þegar fimm eru á fæti? Ég sneri við og tók eitt barnið aftur upp og það hætti að gráta. Ég gerði mér grein fyrir því að ég gæti ekki verið þarna það sem eftirlifði dags svo ég lét það aftur frá mér og tárin trilluðu samstundis.

Ég stoppaði í dyragættinni og horfði yfir velbúið herbergið og reyndi að útiloka barnagrátinn. Tíu forvitin augu horfðu á eftir mér loka hurðinni.

Það var þá sem ég laut höfði í hljóðri þökk fyrir lífið.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

já þá er það komið á hreint ég er kínversk.
Þeir sem eru með rönd við olnboga þegar þeir beygja hönd sína eru kínverskir (han) og svo skemmtilega vill til að ég skarta tveimur slíkum línum. Annað en kennarinn minn sem hlýtur að vera uppgjafar japani eða Taílendingur í dulargerfi. Hann þvertekur fyrir slíkt, þrátt fyrir að geta rakið ættir sínar aftur til hollenskra trúboða. Áttu trúboðarnir ekki að vera bera trú sína en ekki blóð?
Taívanar eru mikið blönduð þjóð og margir ,,lentu" í trúboðunum.
Hvað voru forfeður (mæður) mínir að andskotast til Kína?

Shi bi shou you fu.

Yi ju liang de.

Ég kann orðið nokkuð mikið af orðatiltækjum, ekki seinna vænna það er fátt skemmtilegra en fólk sem skreytir mál sitt með orðatiltækjum og málsháttum. Verst að ég verð að tala í samhengislitlum frösum til að koma þeim að því kunnáttan er nú enn bara svona og svona.

Þegar ég kom til Taivan lenti ég á Chang Kai shek flugvellinum í Taipei, þegar ég flýg frá Taívan mun ég nota Taoyun flugvöllinn. Einn og sami völlurinn en Chang karlinn ekki lengur inn. Ég reyndar veit ekki til þess að hann hafi nokkurn tíma verið það. Sonur hans er samt vel virtur hér.

föstudagur, nóvember 03, 2006

Svo sungu þær hástöfum í tíma í dag og flissuðu mikið. Skildu lítið í því af hverju ég tók ekki betur undir. Reyndi hvað ég gat en fliss og háir tónar komu í veg fyrir að sönghæfileikar mínir nutu sín að fullu. já föstudagur í fólkinu og lítið um afköst í þessum tíma.

Um daginn sá ég auglýstan geisladisk. Fögrum orðum var farið um söngvarann, sönginn og nefnt var að vestræn tónlist, sagnahefð Tíbeta og hefðbundinn kínverskur söngur væri á þessum diski sameinaður í eitt. Ég get játað að ég hef aldrei hlustað á diskinn til enda... ég heyrði hvorki vestræna tónlist, sagnahefð hvaðan sem hún kom og eitthvað var lítið um söng, kínverskan eða ekki.
Þessi diskur ætti bara að vera spilaður fyrir heyrnarlausa og þá lágt.

Svo á Ljóni afmæli í dag, en af fenginni reynslu ætla ég ekki að syngja fyrir hann í tilefni dagsins....

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

...en það á ekki að drepa hvali, þeir eru spendýr, sætir og með falleg augu.
...borðaru túnfisk?
... eeee já
... Þegiðu þá!


Túnfiskur (já líka þessi sem er í dós) er í bráðri útrýmingarhættu og hann getur synt hratt, er með heitt blóð og svei mér þá ef ekki falleg augu.