mánudagur, nóvember 20, 2006

I am Kloot í Mp3 spilaranum og við erum tvö að hlusta.

Við þeytumst eftir hraðbrautinni í tuttugu ára gömlum bíl, sem má muna sinn fífil fegurri. Það er farið að dimma og steypuklumparnir og vegatollarnir gera mann sljórri en vanalega.
Félaginn tönglast á því að hann megi ekki keyra hraðar en 120 og bölvar ökumönnunum hægri vinstri. ,,Nanbúdao wo" Ég glotti út í annað en ákveð að segja ekki frá sumri hinna miklu sekta.

Áður en ég veit af er ég komin undir yfirborð sjávar og óska einskis heitar en að vera með tálkn. Ægifagrir fiskar synda hjá og kóralrifin eru marglit. Ruslið skyggir samt á annars þessa dásamlegu köfun.

Hvernær ætli heimurinn átti sig á því að hafið tekur ekki endalaust við?
Ætli mannskepnan geti einhvern tíma hætt ofveiði?

Mér stendur ekki á sama þegar meters langur snákur syndir fram hjá mér og upp á yfirborðið til þess að anda. Honum virðist nokkuð sama um tilvist mína. Ég er heilluð af tilvist hans.

Það hvarflar ekki að mér að viðurkenna fyrir kennaranum mínum að ég hafi haldið mér í hæfilegri fjarlægð frá honum, ég ætti í hættu að tapa orðspori mínu sem nagli.

Sólin skein og ég hugsaði ekki niðurstaðan sólbruni á öxlum eftir frábæra köfunarhelgi. Því lærði ég að segja ,,fórnarkostnaður" á kínversku í dag.