sunnudagur, október 22, 2006

Ferðin á bráðamóttökuna var ánægjuleg í alla staði. Ynjan mætti, í betra á sig komulagi en flestir aðrir og byrjaði að bíða.

Kannski má segja að þetta hafi verið opin bráðamóttaka því biðsalurinn var við hliðina á sóttkvínni og slysaherberginu. Salur sem sagði skurðstofa var líka opin en engar aðgerðir í bili.

Rétt eftir að Ynjan mætti var manni á þrítugsaldri rúllað inn í sjúkrarúmi, illa farinn líkamlega líklega eftir mótorhjólaslys, og plantað beint fyrir framan Ynjuna. Hún færði sig um eitt sæti af ótta við að blóðið af manninum færi að leka á hana. Mamma hans kom svo og stóð við rúmið hans og þau grétu bæði.

Við hliðina á mér var gömul kona, handleggsbrotin og beið. Hún brosti feimnislega til mín meðan hún skoðaði hvern sjáanlegan krók á mér og skyldi greinilega lítið í því af hverju þarna sat kona og ekkert rautt sjáanlegt og ekkert beinbrot.

Læknirinn kallaði mig til sín og við færðum okkur um 50 metra. Ég hafði enn góða sýn yfir biðstofuna og enn betri sýn yfir sjúkrarúmin.

Kona lá í einu rúminu með fleiri slöngur og línurit föst við sig en ég áður trúði að hægt væri að setja á eina manneskju. Hjúkrunarkona athugaði með línuritin, gargaði yfir herbergið eitthvað á kínversku, læknir kom og á meðan hann athugaði málið betur tæmdi hjúkrunarkonan pissumálið hjá rúmliggjandi konunni.

Við hliðina á henni lá kona undir sæng, komin vel við aldur og stundi. Stundum fleygðust fæturnir á henni upp í loft í einhverjum krömpum og aldraður eiginmaður hennar strauk henni þá um lærið og gætti þess að sængin væri yfir henni þegar kramparnir voru hættir. Hann horfði áhyggjufullur í kringum sig en bað aldrei neinn um aðstoð. Nema mig, þegar ég fékk mér vatnssopa þá veifaði hann til mín brosandi og ég færði honum vatn í poka og hann brosti í gegnum tárin.

Gaurinn með mömmu sinni gólaði og læknar þustu til og rúlluðu honum áfram. Hann fór í bakherbergið og hann sást ekki meira.

Maður kemur inn með meðvitundarlausa stúlku í fanginu og hjúkkurnar segja honum að láta hana á borðið. Hann stendur þolinmóður meðan borðið er tæmt og laki skellt á borðið. Hún liggur hreyfingarlaus með alls konar græjur tengdar við sig þar í dágóða stund.

Grenjandi kerling á stól kallar að hún þurfi að fara á klósettið og ungur maður kemur hlaupandi til að aðstoða hana. Hún skammar hann fyrir aumingjaskap og segir honum að hún sé svo gömul að hún þoli ekki að bíða eftir að komast á klósettið.

Meðan Ynjan bíður eftir niðurstöðum dregur starfsstúlka fyrir hjá sjúkrarúmi gamals manns, en bara svona passlega. Því gat Ynjan séð hvaða tækni hún beitti við að skipta á manninum.

Fólk kemur og fer. Börn hlaupa um gangana meðan önnur garga í fangi foreldra sinna. Fólk í hjólastól í fylgd ættingja bíður.

Þegar Ynjan hafði verið fullvissuð um að hún væri ekki að deyja og óhætt að fara heim komu sjúkraflutningamenn, töldu niður og færðu stúlkuna af borðinu yfir á sjúkrarúm.

Ynjan getur örugglega aldrei aftur horft á ER því það verður bara óspennandi. Næst þegar henni leiðist er kjörið að skella sér þangað aftur.