miðvikudagur, október 18, 2006

Enn eitt prófið frá. Kennararnir trúa því að við lærum ekki nema það sé próf á þriggja daga fresti. Frasinn, ef það er engin pressa lærið þið þá eitthvað?
Það er ný stelpa í bekknum, frá Hong Kong, hún er góð í kínversku en er alveg sannfærð um að það sé betra að tala ensku við mig. Undanfarið hefur hún svarað mér á þá leið að hún sé ekki nógu góð í ensku til þess að svara spurningum mínum. Kannski spyr ég of nærgöngulla spurninga og svona kemur hún sér undan því að svara.

Mér fer líka fram í japönsku og hef blótað því í hljóði undanfarið að hafa ekki skellt mér til Japans í nám. Japanska virðist nefnilega vera enska með innilega frábærum framburði og stöku japönsku orði. Ég held ég hafi lært fleiri japönsk orð í tímanum í dag en ég lærði í kínversku á mánuði.

Tveir aðdáendur síðunnar eru í Japan -að læra japönsku eða kunna hana nú þegar, þeim er frjálst að mótmæla sleggjudómum mínum sem eru byggðir á algerri fáfræði.

Þessa dagana þrái ég ekkert heitar en hávaxinn karlmann með kúrekahatt sem tekur hattinn niður þegar hann hittir heldri konur. Hann er yfirleitt í blárri bómullarskyrtu sem er strekkt yfir axlir hans og vöðvastæltan brjóstkassann. Hann gengur yfirleitt í gallabuxum, sem eru örlítið rifnar hjá hnjánum og veigrar sér ekki við að sofa í hlöðunni til þess að gæta öryggis hesta sinna.....