sunnudagur, október 08, 2006

jú kominn tími á einn ferskan úr borg miðjunnar.

Nýbúin í þriggja daga fríi og tveir dagar eftir... ekki slor að liggja heima með tærnar upp í loft og tala um allt það sem hefði verið hægt að gera þessa löngu helgi.

Á föstudaginn var tunglhátíðin, þá er stelpa og kanína í tunglinu og tunglið er eins skært og það verður... auðvitað er fullt tungl.
Þetta er annar mesti hátíðisdagurinn á eftir nýjaárinu og mikill fjölskyldudagur. Grilllyktin tók öll völd í bænum og stundum heyrði maður karaókísöng óma inn á milli þess sem að flugeldarnir sprungu.
Þennan dag, öðrum fremur borðar maður hringlótta hluti því það boðar gæfu og hamingju. Tunglkökurnar eru líka ómissandi hluti hátíðarinnar og eru í laginu eins og fullt tungl. Ekki er verra að borða eitthvað langt eins og núðlur því þær tákna langlífi... hver diskur með sína merkingu allt etið í von um betra líf...
Ég át bara kjúkling á steikarhúsi og gleymdi tunglkökunni þetta árið. En þar sem ég segi engum frá þá...

Þegar maður fær svona langt og gott helgarfrí ætlar maður aldeilis að massa lærdóminn.
Svo fattar maður þegar fríið er búið að maður massar lærdóminn bara í næsta fríi. Ég verð örugglega allt allt of upptekin á morgun og hinn til þess að gera eitthvað vísdómsaukandi.