sunnudagur, september 24, 2006

Stundum skil ég ekki hvað ég er heppin. Enn eitt vespuóhappið! Sem betur fer meiddist enginn alvarlega. Vespan þarf að fara í smá andlitslyftingu.


Búin að koma mér fyrir að mestu, yndislegt að sofa í tómri íbúð á dýnu sem er kannski heldur stutt. Ég verð bara að muna að rétta ekki úr mér þegar ég er sofandi, nema ég vilji hafa tærnar á gólfinu. Svolítið teiknimyndalegt þegar maður passar ekki í rúmið sitt og kannski breytist ég í teiknimynd hægt og hægt hérna.

Sat í almenningsgarði áðan og horfði á börn á línuskautum æfa sig. Nokkuð krúttlegt að horfa á tuttugu börn á línuskautum, stelpurnar í bleikum bol og með bleikan hjálm. Strákarnir með bláan hjálm og í bláum bol.
Ég hafði setið og gónt á börnum í smástund þegar ég tók eftir því að nokkur börn, ekki á hjólaskautum, voru búin að raða sér upp í hálfhring og góndu á mig. Eins og ekkert væri eðlilegra en að stilla sér upp fyrir framan útlendinginn og stara. Líklegast er ekkert eðlilegra.
Ég heilsaði þeim og þrír hlupu í burtu. Einn hafði kjarkinn í að spyrja hvort ég talaði kínversku, þegar ég sagði já smá, fóru tveir enn. Þau stóðu tvö þétt saman eftir og góndu á mig. Ég brosti og þau hörfuðu.