laugardagur, september 23, 2006

Við fengum íbúðina í dag, því hefur verið í mörgu að snúast.
Fyrst þurfti að eitra allhressilega hér og þar, kakkalakkar eru húsdýr sem ég er ekkert sérlega hrifin af. Ég tók mig vel út með eiturbrúsann og spreyjaði af lífsins sálarkröftum. Þrátt fyrir að vilja ekkert heitar en losna við kvikindin, uppskar ég móral! Líklega var það ágætisákvörðun að verða ekki sjómaður!

Ýmislegt þurfti að gera, kaupa eitt og annað. Meðleigjandinn minn, sem er nýkomin til landsins, á ekki vespu og því þurfti hún að fljóta aftan á vespunni. Sem var ekkert mál á leiðinni í búðina en eitthvað varð sjónin kómískari á heimleiðinni.

Í fyrsta leiðangri voru hreinlætisvörur keyptar og eitthvað smotterí, uppskeran fjórir fullir innkaupapokar. Við á pínulítilli vespu. Því hélt meðleigjandinn á tveimur pokum og ég hafði tvo í framrýminu, þ.e. þar sem maður setur yfirleitt fæturna.

Í seinni leiðangrinum þurfti að koma fyrir tveimur baskkörfum, tveimur koddum og tveimur stórum viftum og tveimur manneskjum, ein stór og hin lítil.
Ég geri mér ekki fulla grein fyrir því hvernig var að horfa á þetta. Hún hélt á viftu og koddunum tveimur, ég hafði körfurnar milli fótanna og tyllti viftunni einhvern veginn á fótinn á mér sem ég rétt náði að setja í fótastæðið, ég var líka með lítinn poka í hægri hendi.

Af hverju Taívanarnir brostu svo breitt til okkar skil ég ekki enn, ég hef séð fjögurra manna fjölskyldu á minni vespu en minni og heilu tveggja manna dýnurnar fluttar á milli á sama farartæki.