þriðjudagur, september 12, 2006

Komin til Taichung, heil á hófi. Ferðin gekk nokkuð ljúft fyrir sig þangað til ég kom til Hong Kong en þá skráði ég mig formlega í klúbb hinna sigldu, flognu og fúlu ferðalanga.
Fastir liðir eins og venjulega, farangurinn týndur. Er svo sem löngu hætt að nenna að kippa mér upp við það.
´
Því fór ég eiginlega strax að tilkynningaborðinu og sagði frá raunum mínum. Ég mátti bíða aðeins og svo fylla út eins og eitt eyðublað og bíða svo aðeins lengur og fylla út annað blað. Þá mátti ég hlaupa í þessa átt og þá hina og snúa mér svolítið í hringi. Maðurinn með lyklana var við en hann var ekki samvinnuþýður.

Mitt í þessum hlaupum fór flugvélin til Taívan án mín, í staðinn fyrir skokkið uppskar ég þriggja tíma bið á flugvellinum og kom til borgarinnar eftir háttatíma. Hlaut að koma að því að ég kæmist í hóp heimsborgara. Taskan verður að koma fljótlega, bara rétt áður en fötin standa stíf á mér, korter er nóg.

Taichung er fögur og hlý og rök og skólinn stendur enn og starfsfólkið kann enn að brosa. Kunnugleg andlit brosa fallega til manns og lyktin hefur ekkert breyst. Ég hef varla komið upp orði í dag án þess að skjóta inn í eins og einu eða tveimur íslenskum orðum, af hverju skilur fólk ekki setningar á borð við, have you seen my lykla?

Búin að drekka tvo bolla af Oolong te í dag, lífið gerist varla betra.......

Fyrir fjáða vini Ynjunnar má hringja í +886918334454 nú eða senda sms ... jú eða ekki.