miðvikudagur, september 27, 2006

ERT ÞÚ ÍSLENDINGURINN?
jamm
ÉG ER BÚIN AÐ VERA AÐ LEITA AÐ ÞÉR!

Fyrir framan mig stóð ung stelpa alltof mikið máluð og pissaði næstum því í sig af gleði, hún hitti Íslendinginn. Ég brást við eins og sannur Íslendingur og var eins og fífl, segir maður...já ég var líka að leita að þér? Nei.

Hún er norsk og stóð þarna glottandi eins og górilluungi með banana og réði sér varla fyrir kæti. Svo sagði hún mér frá öllum þeim sem höfðu sagt henni frá mér. Paranojan óx, hvað var fólkið að segja.
Þá er fyrri grunur minn staðfestur ég er Íslendingurinn. Íslendingurinn. Frumlegt ekki satt?

Bráðum verður kennaradagurinn haldinn hátíðlegur. Þann dag á Konfúsíus að hafa fæðst og hann var jú kennari. Í fyrra þegar kennaradagurinn var náði ég að humma hann fram af mér, horfði á nemendur skrifa kennurum sínum fallegar orðsendingar um göfugleika þeirra og svo voru orðsendingarnar hengdar upp.

Í ár átti ég ekki að sleppa, ég þóttist ekki skilja hvað samnemendur mínir sögðu þegar þeir réttu mér miðana til þess að ég gæti lagt mitt af mörkum í að dásama þessar verur, kennara. En þær komu aftur og töluðu smá ensku og voru búnar að skrifa niður tákn til þess að ég myndi vita hvað væri í gangi.

Svo ég var með þrjá miða í höndunum, einn fyrir hvern kennara og átti að senda þeim línu. Mér hefur sjaldan liðið jafnfáránlega.

Ég rifjaði samstundis upp stundirnar þegar mér var vísað úr skóla hér í denn, þegar ég átti mér þann draum heitastann að kennararnir mínir myndu veikjast til langframa og kennsla lögð niður. Þegar ég lagði mig fram um að yrða ekki á þá og slagorðið, notum smokkinn kennarar fæðast daglega var dauðans alvara.
Ég gerði mér líka grein fyrir því að það er lengra síðan í árum en ég kæri um um að muna og uppreisnarseggurinn í mér dó einhvern tíma á síðustu öld. Mig rámar meir að segja í að hafa klárað nám tengt kennslu....

Hvað skrifar maður til bleika kennarans síns? Elsku bleiki kennari, þú ert bleikara en allt bleikt og stundum næ ég ekki að einbeita mér því ég er dáleidd af því að horfa á fötin þín?
Eða hinn kvenkennarann.... Ég gæti aldrei sofnað í tíma hjá þér því þú ert með svo skerandi rödd?
Nú eða til karlkennarans míns.... Þú er svolítið sætur þegar þú flissar en réttu úr þér maður, þú ert ekki það hávaxinn.

Nokkuð margar ámóta vondar hugmyndir fæddust og engin þeirra prenthæf. Kannski væri ráð að skrifa eitthvað á við að þau væru bestu kennarar í heimi og hver mínúta með þeim sem gull í huga mínum. En það væri bara lygi, þau eru fín, ég kann vel við þau en í hjarta mínu eru minningar um kennara sem eru svo dásamlegir að mér leið eins og ég væri að fremja helgispjöll.
Af hverju er skylda að skrifa kennaranum sínum sleikjubréf einu sinni á ári?

Því meira sem ég hugsaði um málið því meira svitnaði ég og angistin óx. Kannski er ráð að veikjast sjálfur eða skrá sig í annan skóla.

Niðurstaðan var hógvær en einlæg:

Broskall og takk á kínversku,
Zhang Bing Xin