sunnudagur, október 29, 2006

Var að skríða heim frá huggulegum jazz-tónleikum. Fullt af hljómsveitum í svífandi sveiflu og stemmningin frábær. Að sitja úti í grasinu, í góðum félagsskap í lok október er ekki leiðinlegt, síður en svo.

Ein hljómsveitin safnaði um tuttugu manns upp á svið með sér og allir áttu að sveifla rassinum í takt við tónlistina og svo var sama atriði endurtekið nokkuð oft. Allir meira en til í tuskið og ég þakkaði mínu sæla fyrir að sitja aftarlega og þurfa ekki að óttast að vera dregin upp á svið.

Hrekkjavökupartý í gær, fullorðið fólk að halda upp á öskudaginn í vitlausum mánuði. Það var nokkuð áhugavert. Ég kann alltaf jafnvel að meta þá sem mæta sem trúboðar. Svartar buxur, hvít skyrta og bindi og reiðhjálmur á hausnum.

Það er nokkuð mikið af trúboðum í Taívan og þegar sótt er um dvalarleyfi eða framlengingu á dvöl í Taívan er boðið upp á nokkra möguleika til útskýringa á dvöl sinni,
Vinna
Skóli
Ættingjar
Trúboð.

Ég hef ekki enn haft kjarkinn til að krossa við, en kannski að ári þegar ég þarf að endurnýja dvalarleyfið.

Trúboðarnir hanga svolítið í almenningsgörðunum og trufla svo fólk. Sumir nenna að spjalla og aðrir ekki og þeim virðist vera sama hverjum þeir lenda á. Ég hef enn ekki lent á spjallinu við þá. Kannski standi í trúboðabiblíunni þeirra að ólíklegt sé að útlendingarnir í Taívan taki trúna í almenningsgarði. Kannski sést það á mér að mér er ekki viðbjargandi.

Ætli trúboðarnir mæti í hrekkjavökuveisluna sína sem guðleysingi eða búddi?

Helgin rokin hjá, allt sem ég ætlaði að gera í dag og í gær má allt eins gera á morgun. Illu er best slegið á frest og allt það