miðvikudagur, nóvember 15, 2006

gamalt efni og vonandi klassískt

Ég man vel eftir, á uppvaxtarárum mínum, hvað útlendingarnir á Grundarfirði voru spennandi. Öðruvísi föt, annað tungumál, þeir voru jafnvel öðruvísi á litinn! Mér fannst yndislegt að hjóla á eftir þeim og spjalla. Bara forvitnast, spurði um það sem lá mér á hjarta þann og þann daginn. Ekki óraði mig þá, að ég ætti eftir að vera í ámóta sporum og fólkið sem ég elti, útlendingur í ókunnu landi.

Ég minnist þess ekki að hafa verið elt af börnum á hjóli í Taívan, en sum benda á mig og hæðast að litarhætti mínum – nú eða stærð. Sérstaklega er gaman að kalla meiguoren (ameríkani) eða weiguoren (útlendingur) og fá að launum bros frá trölli. Forvitnin er eins hjá ungu barni á Grundarfirði og í Taichung og um margt er spurt.

Það er spennandi og á sama tíma erfitt að koma sér fyrir í öðru landi. Leggja þarf til hliðar flest sem áður var þekkt, sér í lagi ef tungumálið er ólíkt og óþekkt, byrja upp á nýtt. Að panta kaffi og fara í banka verður stór mál og það tekur á að kanna heiminn á nýtt. Sakleysislegur hlátur heimamanna, getur verið ógnandi þegar ekki er vitað um hvað er talað. Verði nýja lífið of magnþrungið er farið í áður þekktan veruleika - hina útlendingana. Þannig er auðvelt að einangrast og verða afskiptur í nýju samfélagi.

Með útglennt augun við afgreiðsluborð á fjölfarinni götu, kófsveitt, horfandi á tákn sem segja lítið - og blóðlanga í kaffi er ekkert grín. Afgreiðslustúlkan hristir hausinn og handaútskýringar koma ekki að gagni. Þá sér einhver aumur á manni og býðst til að hjálpa, kannski með því að tala ensku og túlka, hafa kjarkinn til þess að tala kínversku hægt – eða í versta falli teikna og hughreysta þar alla hlutaðeigandi. Þannig hef ég ófáa kaffibollana drukkið og ófá vandamálin leyst- með hjálp annarra. – Og eignast mína bestu vini hér í Taívan, standandi með úfið hárið- hjálparlaus. Enda eru Taívanar stoltir af hjálpsemi sinni og mega vera það.

Viti menn, ég hef ekki breytt menningu Taívana en lært heilmikið um hana og hef fengið tækifæri til þess að segja frá minni. Ég ógna ekki tungumáli þeirra, þó þeir hafi gaman að vonlitlum framburði mínum. Ég held að allir græði á veru minni hér. Ég get margt lært og miðlað áfram og Taívanar að sama skapi.

Það er auðvelt að festast í viðjum vanans, því sem er kunnuglegt og öruggt. Festast í þægindahugsun, sem hleypir fáu nýju að. Fyrir vikið, því miður, óttumst við oft aðra og gefum ekki færi á okkur. Við miðlum ekki okkar lífi og reynslu og lærum ekki um aðra, bara af vana.

Þegar öllu er á botninn hvolft tapa allir!

Því verður mér oft hugsað til barnanna þegar kemur að því alþjóðasamfélagi sem Grundfirðingar( Íslendingar) búa í, við getum lært heilmargt af þeim.

Börn eru nefnilega frábær, blátt áfram og óhrædd, ekki búin að læra að forðast og óttast hið ókunna og stendur ekki ógn af neinum. Þau eru könnuðir samfélagsins og taka því sem fyrir er.

Og börnin eru eins á Grundarfirði og í Taichung.