þriðjudagur, maí 30, 2006

Á morgun er drekabátahátíð í Taívan (Dragon boat festival-veit ekki um ísl. nafngift). Drekabátahátíðin er haldin hátíðleg allsstaðar í Taívan og rekja má sögu hátíðarinnar 2500 ár aftur í tímann! Þetta árið er hátíðin á miðvikudegi í lok maí, en hátíðin færist ár frá ári þar sem að hátíðin er á fimmta degi fimmta tunglmánaðar.

Drekabátahátíðin er til að halda illum öndum frá og minnast mikilmennis í sögu Taívan. Upphaflega var hátíðin til að reka burtu illa anda, enda að vori og pestar að ganga og skordýr á ferðinni. Dagurinn átti að hjálpa fólki að finna sinn innri frið. Enn þann dag í dag hengir fólk jurt á dyrnar hjá sér, en jurt þessi á að hjálpa til við að halda sjúkdómum og öðrum ósóma frá heimilinu. Ynjan er sem betur fer það hreinhjörtuð að ekki er þörf á særingum í hennar húsi.

Seinna var hátíðin tengd við Chu Yuan, sem fórnaði lífi sínu fyrir land sitt fyrir um 2200 árum. Chu Yuan gat ekki lengur horft upp á spillingu kóngafólksins og fórnaði lífi sínu fyrir málsstaðinn.

Þjóðsagan segir að þar sem að Chu Yuan kastaði sér í á eina, hafi fólk farið að henda hrísgrjónum vöfðum í bambuslauf í ána til þess að koma í veg fyrir að fiskarnir ætu líkama Chu Yuan. Zung zi er mikið etið þessa dagana og varla hægt að sjá götuhorn sem ekki bíður upp á ljúffeng hrísgrjón með einhverju góðgæti eins og sveppum eða kjöti.

Taívanar sjá ekkert því til fyrirstöðu að slá þessu tvennu saman enda játa þeir flestir fúslega að hver hátíð er blanda af því besta og til hvers að fara í smáatriði þegar hægt er að fagna?

Zung zi var upphaflega bara etið í kringum drekabátahátíðina en er núna vinsælt snakk og í uppáhaldi hjá ynjunni og hún hefur ekki undan nokkru að kvarta. Sér í lagi er það góðs viti að fjölskyldan sameinist um að búa til Zung zi og gefi börnum sínum rétt fyrir próf, enda boðar það betri einkunn að borða heimatilbúið Zung zi rétt fyrir próf.

Vinkona Ynjunnar játaði að fyrir stuttu að hún væri alltaf himinlifandi þegar hátíðin væri frá. Mamma hennar hefur ofurtrú á Zung zi og því er bambusvafningurinn það eina sem er á boðstólunum í rúma viku og mamman ætlast til þess að allir í fjölskyldunni séu við matarborðið fyrir hverja máltíð og sporðrenni í það minnsta einum í hvert mál.
Henni reiknaðist til að á þessum tíma torgaði hún um 25 Zung zi í það minnsta, sem dugar fyrir árið. Hún viðurkenndi að hún vogi sér ekki að sleppa úr máltíð eða eta eitthvað annað svona til að vera viss... ekki vill hún að mamman styrkist í trúnni svona ef eitthvað kemur fyrir hana og hún búin að svíkjast undan, það myndi þýða mánuður á næst ári fyrir Zung zi.

Ynjan ætlar að halda morgundaginn hátíðlegan með því að byrja að pakka niður.

sunnudagur, maí 28, 2006

Rækjuveiðar á sunnudegi

Það hefur rignt nokkuð mikið undanfarið, ekki svo valdi skaða, regnið hefur séð um að halda hitanum niðri sem er kærkomið fyrir svitaholurnar. Yfirleitt þegar ynjan leggur vespunni sinni, setur hún hjálminn í fótastæðið og skyggnið niður, svo hjálmurinn sé þur næst þegar komið er að honum. Eitthvað hefur ynjan verið annars hugar því hún gerði sér grein fyrir því í morgun að skyggnið var uppi.
Hún blótaði í hljóði, enda hefur ófýsilegt að vera með blautan hjálm, og teygði sig eftir hjálminum. Eitthvað hreyfðist. Við nánari athugun kemur í ljós að kettlingur hefur hreiðrað um sig inn í hjálminum og sýndi ekki á sér fararsnið og kunni ynjunni litlar þakkir fyrir næturgistinguna.

Eitthvað hefur gærdagurinn læðst óþægilega að manni í formi höfuðverkjar en góður amerískur morgunmatur í góðra vina hópi gerir gæfumuninn. Þegar maður er hálfsloj er oft gott að skríða aftur heim en í dag var ákveðið að fara á rækjuveiðar í borginni.

Við grunna sundlaug settumst við niður, hver með okkar stöng og okkar beitu. Feitir bitar af lifur settir á öngulinn, girnið sett út og gosdósin opnuð í von um betri heilsu. Bið og ekkert gerist. Taívanska tónlistin passlega hátt stillt og nokkuð huggulegt að halla sér aftur í plaststólnum og láta hugann reika, þegar hugurinn var farinn að reika heyrðist hamingjugól.
Ekki var baráttan mikil við fórnarlambið og ekki var það þungt en allir fögnuðu fyrstu rækjunni. Fagmannlega rifu þeir bláar klærnar af bráðinni og settu í geymslubúr. Þá áttaði ynjan sig á því að hún hafði ekki nokkurn áhuga á því að lenda í sömu aðstöðu og félaginn. Því tók hún önglana af veiðistönginni sinni en hélt áfram að dorga og láta hugann reika.
Ekki voru þær margar sem bitu á en gleðin mun meiri þegar henni var landað. Einhverjir höfðu áhyggjur af því að ynjan væri ekkert að ,,rækja" þrátt fyrir að færa til veiðistöngina og hagræða flotholtinu reglulega en hún afþakkaði pent öll boð um aðstoð, enda komin af þorski í beinan ættlið.

miðvikudagur, maí 24, 2006

Ynjan fórnaði hárlakkinu til þess að myrða kakkalakka númer tvö. Hún hefur ekki mikla þolinmæði fyrir því að þeir séu í herberginu hennar og sér enga huggun í því að aðeins kvenkakkalakkar geti flogið. Ynjan fékk móral óvænt síðast þegar hún fórnaði ,,bæjarblaðinu" og ákvað því að nota hárlakk í staðinn, þannig má telja sér trú um að það drepi ekki skriðdýrið heldur frysti það, þannig að hægt sé að kom því út fyrir.

Í upphafi annar kynntist Ynjan Japana sem er líka að læra kínversku. Þau hafa alltaf spjallað af og til. Þau hafa skipst á hversdagslegum upplýsingum um hvort annað, sagt lítillega frá löndum sínum og talað um hvernig lífið horfir til þeirra. Ynjan var ekkert fróð um Japan, er það ekki enn og hafði gaman af félagsskap drengs. Ynjan hafði aldrei manað sig upp í að spyrja hann út í nafnið sem hann ber, kunni ekki við að játa að hún vissi ekkert um nafnakerfi í Japan og vildi ekki koma upp um fáfræði sína, en hafði tekið eftir því að það var nokkuð ólíkt öðrum sem hún hafði heyrt. Þau sitja svo saman á kaffihúsi einn daginn og eru eitthvað að spjalla og ynjan var alveg bit yfir því hvað hann vissi mikið um Suður-Kóreu, vá hún vissi minna um Suður-Kóreu en Japan og hafði unun af því að hlusta á gaur. Svo leið á samtalið og ynjan farin að svitna. Svo manaði hún sig upp í að spyrja ,,ertu alinn upp í borg eða bæ?"
Hann svaraði að bragði að hann væri frá úthverfi í Seúl......
...og japanski vinur hennar Ynju er núna Suður-Kóreskur jarm jarm jarm

Svo ætlaði Ynjan að fá sér kaffisopa í morgunsárið, hún fer oft á sama staðinn, pínulítið kaffihús, með fjórum borðum og yndislegu starfsfólki og unaðslegt kaffi. Ynjan lagði fáknum og í huganum fór hún yfir hvernig kaffi hún væri í skapi fyrir. Svo hélt hún eitt augnablik að hún væri kannski orðin eilítið áttavilt, kaffihúsið var ekki þar og ynjan skimaði í kringum sig og jú hún var á réttum stað. Þarna stóð hún, fyrir framan kaffihúsið sem hún hafði sótt daginn áður og horfði á rústir og verkamenn. Búið að jafna kaffihúsið við jörðu.

þriðjudagur, maí 23, 2006

Ekki benda á mig! Með nokkuð skothelda fjarvistarsönnun.

kveikjum á kertum.

mánudagur, maí 22, 2006

Það er heitt úti og flugvélarnar fljúga yfir húsið mitt reglulega, ekki það að þær fljúgi ekki yfir önnur hús líka, en ég tek bara eftir því þegar þær fljúga yfir mitt.
Nágrannarnir eru á spjallinu fyrir utan, líkast til að hreinsa hrísgrjón í rólegheitunum eins og svo oft áður, ég veit ekki hvað lengi ég reyndi að skilja þau en allt kom fyrir ekki, taívanska er bara ekki lík kínversku.
Hundurinn horfir á mig bænaraugum, líkast til er hann að vona að ég nenni að klappa honum og til vara, standa í stofunni og henda fyrir hann tennisbolta. Boltarnir endast yfirleitt ekki nema í viku og eru heldur tættir á síðasta degi.
Nágrannastelpan er líkast til í skólanum, því ekki heyrist píanóspilið í þetta sinn, hún verður að fá að eiga það stelpuskottið, hún æfir sig af krafti og virðist hafa vit á því að spila ekki alltaf sama lagið aftur og aftur.
Verra er þegar hún spilar Fur Elíza, en það lag verður líkast til um ókomna ævi tengt við ruglabíla.
Hundurinn dillar rófunni og setur trýnið í lærið á mér til að undirstrika beiðni sína og þrátt fyrir vilja til þess að segja honum að hypja sig burt þá gengur það illa, hann er bara aðeins of spenntur og bleikur til þess skilja að hugurinn hvarflar til annara en hans.

Kveikjum á kertum.

laugardagur, maí 20, 2006

Only when....

,,Kæru lesendur, það eru þó nokkrar flettingar á þessari síðu og ég veit um einhverja en marga ekki eruð þið ekki til í að skrá nafn ykkar annað hvort í kommentakerfið eða gestabókina? Bara svona fyrir mig, ég er ekkert viðkvæm fyrir dulnefnum svo lengi sem ég fatta hver þau eru. Ynjunni skilst að þetta sé algengt umkvörtunarefni og ynjan er bara ekki sérstakari en svo. Takk."
Ynjan ætlar að halda þessari baráttu til streitu í nokkra daga. Kannski eru ekki fleiri sem lesa þessa síðu og lynjumamma bara að reyna að láta ynjunni líða betur með því að fletta síðunni óþarflega oft! Hver veit, en kvitta takk!

Fyrir nokkrum árum, nánar til tekið þegar ynjan útskrifaðist úr framhaldsskóla, fékk hún bol að gjöf. Frekar venjulegur stuttermabolur á honum er mynd af indjána og undir er texti svo hljóðandi:
Only when the last tree has died and the last river been poisoned and the last fish been caught will we realise that we cannot eat money.

Samstundis var bolurinn og ynjan eitt. Ynjan hefur unnað þessum bol lengi lengi og kannski meir en ráðlegt er þegar kemur að fatnaði. Hún gekk í bolnum á Íslandi, bolurinn fylgdi henni til austur-Afríku og aftur heim, þaðan fylgdi hann henni til suður-Ameríku og aftur heim. Þegar hér er komið sögu er bolurinn orðinn eilítið sjúskaður, með nokkrar málningaslettur en ástin minnkaði ekki. Bolurinn fylgdi og er nú með ynjunni í Taívan og má muna sinn fífil fegurri. Fyrir utan að vera teigður og þunnur er hálsmálið orðið tætt og smágöt hér og þar. Því miður verður ynjan að játa að dagar bolsins eru taldir.

Því ákvað hún með trega að farga honum. Kannski er það táknrænt að bolurinn sé úr sér genginn og markar ný tímamót í lífi ynjunnar.
Líklegra er þó að hún verði með ráðum og dáðum að reyna að finna annan bol sem getur komið í staðinn fyrir þennan.

Að blogga um bol sem manni þykir vænt um , allt er einhvern tíma fyrst!

Bolynjan hrygga

föstudagur, maí 19, 2006

Eilítið gaman að því að í síðustu færslu standi ,, í færslunni hér að ofan". Glöggir lesendur hafa væntanlega gert sér grein fyrir því að þar átti að standa ,, neðan". Ynjan lætur þetta standa svona fyrir gamanið. Gott að vita til þess að fólk sé almennt umburðarlynt gagnvart svona staðhæfingarvillum.

Ynjan fékk eitthvað í augað í gær og sveið ósköp mikið. Til þess að reyna að laga hið hvimleiða kreisti hún aftur augun. Svo fór hún að velta því fyrir sér hvort rafmagnið væri farið. Ekkert gáfnaljós kannski. Ynjan vonar bara að Ronja fái ekki heimþrá við að lesa þetta vilji fara aftur inn í skóg að spjalla við rassálfana (? voru það annars ekki þeir). Fer alveg að koma tími á Ronju Ræningjadóttur-stund, verst að ynjan vinnur ekki lengur á sambýli.

Ynjan hefur áður sagt frá því að í Taívan er árið 95 núna. Alþýðuveldið Kína var stofnað 1911 og því var byrjað upp á nýtt, Kína sjálft það er Fólks lýðveldið Kína notar 2006.

Í Japan er víst árið 17, sem ynjunni þykir undarlegt, því hún þekkir fólk frá Japan yfir tvítugu, en þá (ef ég hef skilið bekkjarsystur mína rétt- og ég er alls ekki viss!) tók við nýtt konungsveldi.

Taílendingar eiga samt vinninginn og skáka alla sem ynjan veit um og þar er árið 2529 hvorki meira né minna. Bekkjarsystir mín vildi lítið tjá sig um af hverju árið 2529 væri nú í Taílandi en hún kom því vel til skila að á næsta ári verður 2530 og það er nú gott að vita.

Ynjan fór í próf í dag og það gekk svo sem allt í lagi, kannski betur en hún átti von á (ekki ynjunni að kenna þetta var bara svo erfitt próf :)). Kennarinn minn býr yfir þessum dásamlega hæfileika að skella á okkur prófi án fyrirvara eða mesta lagi með dagsfyrirvara. Aldrei slíku vant lét hún vita í gær af prófinu. Ynjan gerði sér grein fyrir því að það yrði erfitt að undirbúa sig vel fyrir þetta próf og því bauð hún kennaranum sínum samstundis fé til þess að tryggja árangur á prófinu. Það hefði hún aldrei átt að gera. Fyrst afþakkaði kennarinn boð mitt sem var út af fyrir sig nógu slæmt. Svo tók hún sig til og nýtti frímínúturnar í að útskýra það fyrir ynjunni að í eina tíð hafi það ekki verið óalgengt að kennarar hafi þegið mútur þ.e. þegið ,,umslag" og tryggt námsárangur nemenda á pappír. Svo hafi þetta lagst af og flestir hafi núna ímugust á þeim sem hugsa um að ..borga sig út úr vandanum".

Ekki var það betra í næsta tíma þar sem ynjan náði að mismæla sig nokkuð oft, kannski of oft og t.d. hélt hún því fram að hún hefði nýlega barið kennarann sinn! Ansans, tónn til eða frá.

Kæru lesendur, það eru þó nokkrar flettingar á þessari síðu og ég veit um einhverja en marga ekki eruð þið ekki til í að skrá nafn ykkar annað hvort í kommentakerfið eða gestabókina? Bara svona fyrir mig, ég er ekkert viðkvæm fyrir dulnefnum svo lengi sem ég fatta hver þau eru.
Ynjunni skilst að þetta sé algengt umkvörtunarefni og ynjan er bara ekki sérstakari en svo.
Takk

fimmtudagur, maí 18, 2006

Í færslunni hér að ofan kemur fram að Taívan er á hefðbundinni kínversku skrifað: (taí)(wan) og á einfaldaðri kínversku skrifað:(taí) (wan). Munurinn er þónokkur á ritmálinu. Hins vegar hefur ynjan sára sjaldan rekist á Taívan ritað eingöngu á hefðbundinni kínversku eða einfaldaðari. Langalgengast er að ynjan sjái Taívan skrifað svona :台灣 þ.e. fyrra táknið einfaldað en ekki það seinna. Af hverju getur ynjan ekki sagt og meðleigjandinn yppti öxlum. Án vísindalegrar athugunar og hreinu giski grunar ynjan að ástæðan sé fegurðargildið. Eða hvað?

Einfölduð kínverska, ritmálið sem nú er í notkun í Kína var tekið upp um 1960 (fyrsta holl í einföldun 1956 og seinna 1964). Um það bil 2000 tákn voru einfölduð. Einfaldaða ritmálið var ekki notað í Taívan og lengi blátt bann var við að nota eða skrifa annað en hefðbundna kínversku. Þessu var framfylgt meðan herlögin voru í gildi. Embættismenn eiga enn þann dag í dag að nota bara hefðbundna kínversku´í skrifum sínum, en svo virðist sem horft sé framhjá notkun á nokkrum einhfölduðum eins og t.d. taí. Ynjan verður var við að fólk notar einfölduðu kínverskuna hér í flóknari táknum, þ.e. hafði hefðbundna táknið margar strokur er algengt skrifað sé einfalda táknið, hmm til þess var leikurinn gerður.

Nú virðist sem flestir í Taívan leggi rækt við hefðbundnu kínverskuna, segja hana fallegri og merkingarmeiri en þá einföldu. Flestir virðast vera sammála því að þó kínverska ritmálið hafi verið einfaldað til hægðarauka og til að auka á læsi, hafi það einnig verið skemmt eilítið þar sem lógígin er að einhverju leyti farin og fegurðin að sama skapi. En hvort á að ríkja fegurðin eða hentugleikinn?

Hefðb: einf:
Hefðb: einf:

Frekari upplýsingar hér og hér og hér og víðar.

miðvikudagur, maí 17, 2006

Taívan

Taívan er pínlítil eyja suður af Kína. Eyjan er um það bil þrisvar sinnum minni en Ísland. Taívan (stundum ranglega skrifað Tævan) er líka nokkuð þekkt undir nafninu Formósa, þar sem að portúgalirnir sem voru hér í eina tíð töluðu um Ilha Formósa, fagra eyjan. Og svo má ekki gleyma að Taívan er líka Lýðveldið Kína.

Fletti maður upp á wikipedia orðinu Taívan, gerist lítið en setji maður inn Tævan kemur:

Tævan (hefðbundin kínverska: 臺灣, einfölduð kínverska: 台湾, pinyin: Táiwān, wade-giles: T'ai-wan, tævanska: Tâi-oân) er eyja undan strönd meginlands Kína í Kyrrahafi. Hún gengur einnig undir nafninu Formósa, en portúgalskir sjómenn kölluðu hana Ilha Formosa sem þýðir „falleg eyja“ á portúgölsku. Eyjan er 394 km löng og 144 km breið, fjalllend, og er þakin af hitabeltis- og heittempruðum gróðri.
Upplýsingar um ríkið sem oft er nefnt Tævan er að finna undir: Lýðveldið Kína.

Sé smellt á þann link fást eftir farandi upplýsingar:

Lýðveldið Kína (hefðbundin kínverska: 中華民國, einfölduð kínverska: 中华民国; Wade-Giles: Chung-hua Min-kuo, Tongyong Pinyin: JhongHuá MínGuó, Hanyu Pinyin: Zhōnghuá Mínguó) er fjölflokka fulltrúalýðræðisríki sem nær nú yfir Tævan, Pescadoreseyjar, Kinmeneyjar og Matsueyjar undan strönd meginlands Kína. Nafnið „Tævan“ er oft notað til að vísa til þessa ríkis en „Kína“ til að vísa til Alþýðulýðveldisins Kína á meginlandinu.

Lýðveldið kína var eitt af 51 stofnríkjum Sameinuðu þjóðanna og eitt af þeim fimm ríkjum sem sátu í upprunalega öryggisráðinu, árið 1971 tók Alþýðulýðveldið Kína sæti þess hjá Sameinuðu þjóðunum og heldur því enn til dagsins í dag. Flest ríki tóku í kjölfar þess að viðurkenna Alþýðulýðveldið Kína sem sjálfstætt ríki í stað Lýðveldisins Kína en Lýðveldið Kína er nú viðurkennt sem sjálfstætt ríki af 26 ríkjum.

Reyndar hefur ynjan aldrei heyrt nokkurn mann minnast á Pescadores-eyjar, mun algengara er að talað sé um Penghu-eyjar. Penghu gekk einu sinni undir nafninu Pescadores og vel má vera að það sé þekktara og útbreiddara nafn.

nei bara svona ef þið voruð að spá
Taínjan

þriðjudagur, maí 16, 2006

Og Ljóni bara forsíðumaður!

mánudagur, maí 15, 2006

í gær, klukkan 01.44, að staðartíma var meðalstór kakkalakki myrtur á taiyuanlu 16, nánar tiltekið á þriðju hæð, í hægra horni herbergisins, sé gengið inn í herbergið.

Eftir stuttan eltingaleik fékk hann nýjasta tölublað Compas af öllu afli yfir búkinn, talið er að kakkalakkinn hafi látist samstundið. Hann var þó barinn einu sinni enn til að fullvissa morðingjann. Engin vitni hafa komið fram. Eftir þeim verður ekki auglýst.

Morðinginn hefur játað aðild að málinu og virðist ekki iðrast.
Málið telst upplýst og verður ekki rannsakað frekar.

sunnudagur, maí 14, 2006

Ynjan horfði á ágæta mynd í gær, Brokeback Mountain(vonandi rétt stafað) og sofnaði ekki yfir henni.
Þegar myndin var búin fór Ynjan að forvitnast um hvernig málum væri háttað hér í Taívan og spurði meðleigjandann spjörunum úr. Eins og svo oft þegar fólk er að spjalla var spurt hvernig er málum háttað á Íslandi meðal samkynhneigðra.

Auðvitað gerði ynjan sig klára í að ropa um ágæti landsins og hve framarlega við værum og ein setning flaug og svo fór kerla að hugsa til biskupsins og þá fór hún að stama svolítið og vildi ekki ræða málið frekar.

Fyrir nokkru var eldheit umræða á Íslandi um hvort samkynhneigðir ættu að hafa sama rétt og aðrir. Þetta þótti mörgum, þar á meðal ynjunni, undarlegt. Það á ekki að þurfa að ræða. Nei bíddu auðvitað þarf að ræða mál þegar þau eru í ólestri. Fyrst og fremst þarf að laga mál sem eru í ólestri.

Þó biskupinn hafi kannski fengið óþarflega mikla athygli fyrir annarlegar skoðanir sínar má ekki gleyma að margir prestar innan kirkjunnar eru ekki sammála biskupi og vilja að einn réttur sé fyrir alla. Misjafnar eru skoðanirnar. Sama hvernig er horft á málið snýst þetta allt um hvort allir eigi að vera jafnir fyrir lögum og hafa sama rétt. (Sjálf hefur Ynjan enn ekki skilið af hverju nokkur maður vill fá blessun kirkjunnar, samkynhneigður eða gagnkynhneigður en það er svo annað mál). Sé það kappsmál einhvers að fá einhvern með nafnbótina séra til að segja jú þið eruð gift/ar/ir þá er það svo sem sársaukalaust.

Frumvarp var lagt fram á alþingi 21. apríl síðastliðinn og því verður að vona að það fari í gegn. Svo rakst ynjan á þetta og svo virðist sem að vonandi fyrr en seinna að kirkja gagnkynhneigðra stígi skref fram á við og inn í nútímann.

Stundum hefur ynjan heyrt fólk segja að börnin fari svo illa út úr því að samkynhneigt fólk hafi sama rétt og aðrir fyrir lögum. Oftast er umræðan á þessa leið:
En hvað með börn samkynhneigðra, þeim verður bara strítt í skóla (eins og ekkert barn eigi samkynhneigt foreldri).
Jú börnum hefur verið strítt og þeim verður áfram strítt, ef það er ekki eitt þá annað, þegar ynjan var ung og fékk að finna fyrir stríðninni var þetta einhvern veginn svona:

,,mamma þín er feit!" sagði einhver
,, mamma þín er ljót!" sagði ynjan til baka.

Svo tuttugu árum seinna eru önnur börn, með aðra foreldra á skólalóðinni.

,, mamma þín er lessa! segir einhver
,, mamma þín er ljót!" verður svarið.

Það er ekki hægt að fela sig á bakvið kjánaleg rök sem styðja misrétti, sama í hvaða mynd það er.

Ekki fyrir svo löngu fór það eftir því hvernig húðlitur þinn var, hvaða réttindi þú hafðir.
Ekki fyrir svo löngu var talið best að hafa konur sem réttindaminnstar (og er sumstaðar enn).

Það er og verður hallærislegt að vilja ekki öllum sömu réttindi, sama á hvaða forsendum. Það að vitna í eldgamalt rit er vont og segja að í nafni trúarinnar sé einn æðri en annar. Verra er að hafa ekki nokkurt rit á bak við sig og segja af því bara.

Ynjan vonar því heitt og innilega að eftir hefðbundin störf við sauðburð að þetta fari í gegn.

já já Ynjan svona ljómandi hress á sunnudegi í Taichung.
Fyrir þá sem velta því fyrir sér hvar Taívanar standa má kíkja á nokkra hlekki eins og þennan og eflaust fleiri.

fimmtudagur, maí 11, 2006

sumt er dásamlegra en annað!

Úr læknaskýrslum:
- Að höfðu samræði við lækni féllst hann á að koma sjálfviljugur inn.

- Á öðrum degi var hnéð betra og á þriðja degi var það alveg horfið.

- Daginn fyrir innlögn borðaði hún kvöldmat á eðlilegan hátt með kjötbollum.

- Eðlileg augnskoðun fyrir utan sérkennilegt andlitsfall...

- Eftir það var hún í samkvæmi...

Fékk vægan verk undir morgunsárið...

- Hún hefur þroskast eðlilega framan til...

- Hún rann til á svelli og virðist að lappirnar á henni hafi farið í sitt hvora áttina í byrjun
desember.

- Húðin var rök og þurr.

- Misnotaði áfengi í óhófi áður fyrr...

- Móðir getur látið barnið sitja með því að setja fæturna í hring...

- Nú er svo komið fyrir henni að hún getur að mestu hjálpað sér sjálf...

- Saga er fengin hjá uppgefnum ættingjum... -

Sjúklingur á vanda til að fara austur í sveit um helgar. Þar datt undan henni hestur...

- Sjúklingur var í morgun að drekka te og borða maís þegar að bar mann sem heitir Kristmundur.

- Skoðun við komu leiðir í ljós unglingspilt...

- Tekin var mynd af sjúklingi sem sýndi breytingar í Hafnarfirði...

- Við komu á spítalann var sjúklingur fljótlega skoðaður af undirrituðum og kemur þá í ljós að um er að ræða 46 ára karlmann sem er mjög þrekvaxinn og vöðvastæltur...

- Við rectal exploration fannst stækkaður skjaldkirtill...

- Við skoðun á sjúklingi kemur fram áberandi kyndeyfð...

- Við skoðun eru engar eitlastækkanir að gagni... - Það sem fyllti mælinn var þvagleki...

- Það vottar fyrir gyllinæð hægra megin á kálfa...

- Þegar hann var lagður inn hafði ör hjartsláttur stoppað og honum leið betur.

- Þessi maður veit ekkert um skyldleika í ætt....

- Sjúklingur batnar ef lagst er ofan á hann...

- Sjúklingur borðar reglulegt mataræði...

- Sjúklingur er ekki þekktur fyrir að fremja sjálfsmorð.

- Sjúklingur er fertug, að öðru leyti ekkert athugavert.

- Sjúklingur er svo hress að hann gæti gengið langleiðina til Akureyrar...

- Sjúklingur er tilfinningalaus frá tá og niður úr.

- Sjúklingur fékk sér vöfflur í morgunmat og var kominn með lystarstol í hádeginu.

- Sjúklingur fékk þá mjög langsótt kvef...

- Sjúklingur fær verki í bringuna ef hún liggur á vinstri hlið lengur en í eitt ár.

- Sjúklingur hefur aldrei fundið fyrir þessum verkjum nema þegar hann vaskar upp í sumarbústað

- en er ráðlagt eftirlit ef verkirnir koma fram við önnur tækifæri...

- Sjúklingur hefur átt við gott heilsufar að stríða...

- Sjúklingur hefur fremur óbærilega verki...

- Sjúklingur hefur formlegar hægðir...

- Sjúklingur hefur skilið eftir hvítu blóðkornin á öðrum spítala.

- Sjúklingur hefur verið að þyngjast af asmanum sl. sólarhring...

- Sjúklingur hefur verið mædd sl. fimm ár...

- Sjúklingur hefur verið niðurdreginn alveg síðan hann byrjaði að hitta mig 1983.

- Sjúklingur lenti á parketgólfi og bar fyrir sig höndina með þeim árangri að hún brotnaði...

- Sjúklingur hefur verið í vandræðum með gervifótinn en hann hefur haft fjóra fætur frá því að hann lenti í slysinu, en þann síðasta fékk hann í apríl sl.

- Sjúklingur lærði söngnám...

- Sjúklingur tekur engin lyf en magnyl þess á milli...

- Sjúklingur tárast og grætur stöðugt. Virðist líka vera niðurdreginn.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Oft þegar heitt er í veðri sækir að manni þorsti. Eigi maður pening í Taívan þarf maður aldrei að hafa áhyggjur af því að þurfa að fara of langt til að sækja svalandi drykk.
Í dag er hitinn nokkuð mikill og ynjan þyrst en vel upplögð.

Því ákvað ynjan að fara í ,,æfasigíkínverskuleikinn". Nokkuð skemmtilegur og einfaldur leikur. Hann fer þannig fram að ynjan fer á einhverja staði t.d. í búð og spyr afgreiðslufólkið út í þessa og hina vöru og heldur greyunum á snakkinu. Regla númer eitt er að tali einhver ensku, fer hún ekki þangað, regla númer tvö er að kaupa ekkert sem kostar meira en 130 krónur og regla númer þrjú er að fara ekki of oft á sömu staðina svo upp komist um leikinn. Einfalt og gott.

Í dag var leikurinn í eilítið breyttu formi, því nú sótti ynjan aðeins testanda í nágrenninu. Í mjög óvísindalegri könnun ynjunar komst hún að því að fari hún lítinn hring í nágrenni sínu getur hún stoppað á um 20 drykkjarstöndum og þá er ekki verið að telja kaffihús, matsöluhús og aðra starfsemi sem selur meira en kaffi.

Standur eitt, 50 skref frá húsi ynjunnar. Fín æfing og gott grænt te.

Standur tvö, afgreiðsludaman talaði ensku og átti ekki sexfaldan moccahíno með soyjamjólk. Bömmerstaður.

Standur þrjú, sérlega ljúfengt rósate, með sítrónu, ískalt. Yndæl tannfá kona í afgreiðslunni, sem spjallaði lengur en hún þurfti.

pása, settist í almenningsgarðinn og dáðist að Tínu í síðdegisgöngunni.

Standur fjögur, skemmtilegt afgreiðslufólk, gott kaffi (var orðið bumbult af te og vökvadrykkju) og heilmikið spjall.

Standur fimm, hef ómögulega lyst á nokkru en ákvað að skoða aðeins.
,,Hvaðan ertu?" fyrsta spurning... auðsvarað.
,,Soldið langt í burtu er það ekki?" auðsvarað.
,,Hvað ertu að gera hér?" auðsvarað.
,,Hvaða tungumál talaru heima hjá þér?" auðsvarað.
,,Eitthvað líkt þýsku?" auðsvarað eða svona passlega.
,,Þekkiru einhvern sem talar þýsku?" auðsvarað.
,,Talaru þýsku?" auðsvarað -
,,Viltu læra þýsku?" .... hvaða bull spurning er þetta eiginlega?
,,en ensku?". .... ertu ekki að grínast eða?
,,helduru að þú getir hjálpað mér að læra ensku?" ...... djöf....

Þarna fékk ynjan nóg, hvað hélt daman, að hún væri bara að leika sér eða þarna til þess að þjálfa hana í einhverju tungumáli, fnuss!

þriðjudagur, maí 09, 2006

Hitinn fer hækkandi á hverjum degi og rakinn er mikill. Ynjan hefur vissu fyrir því að svitakirtlarnir eru virkir. Ekki að Ynjan hafi ástæðu til að kvarta, það er ljúft að vera í sólinni og í svona hita eru ferðirnar í 7/11 bara ánægjulegri.

Námið miðar ágætlega, betur með hverjum deginum og Ynjan hefur aldrei slíku vant gaman af skólastússinu, en þrátt fyrir nokkuð langan skólaferil leiðist henni yfirleitt setan. Undur og stórmerki gerðust í dag þegar fíni fíni kennarinn hennar mætti í sama dressinu og hún var í fyrr á önninni. Ynjan átti ekki von á því að sjá kerlu í sömu fötunum tvisvar og var því nokkuð hissa. Fíni kennarinn minnir Ynjuna á ævintýrið með 365 kjólunum, en óskar ástkærum kennara sínum ekki það að þurfa að vinna í eldhúsi í sama ljóta kjólnum. Langt því frá.

Ertu með tattoo? öskraði bíttibarnið þegar við hittumst um daginn skelkuð
Hvað er tattoo? spurði Ynja til baka.
hmm já það verður víst að játa það.
Hvað sagði mamma þín? sagði hún með augun útglennt
Það er nú soldið langt síðan ég fékk mér það.
Hefuru einhvern tíma verið með gat annars staðar en í eyrunum spurði hún og blóðþrýstingurinn kominn upp úr öllu valdi.

Eigum við kannski að skipta um umræðuefni stakk ynjan upp á.
Hvað gerðiru um helg...?
Ynjan greip fram í fyrir henni og spurði hvernig skólinn gengi.

Ynjan ætlar ekki að bera ábyrgð á því að bíttibarnið fræðist um lífsins ósóma eingöngu með henni. Nógu skelkað er barnið að hitta hana yfir kaffisopa.

sunnudagur, maí 07, 2006

Ekki fyrir svo löngu dreymdi ynjuna draum.

Þetta var í rauninni ekkert merkilegur draumur þannig, fólk hér og þar að fara þangað og koma hingað, veislur, göngutúrar og annað.

Í draumnum höfðu allir fótlegg sem var hægt að rúlla upp og var eiginlega á rófubeininu. Menn höfðu lagt niður þann hallærislega sið að bjóða upp á stóla, fólk rúllaði fætinum niður og notuðu sem koll.

Þá var líka nokkuð þægilegt að standa langtímum saman þar sem maður setti þriðja fótinn niður og náði góðri hvíldarstöðu.

Ynjan skilur ekki af hverju menn hafa ekki fyrir löngu tekið þetta upp.

Kick ass

fimmtudagur, maí 04, 2006

Þar sem ynjan nennti ekki að blogga um hversdagsleikann kemur hversdagslegur leikur.....

1. Aldrei í lífi mínu: hef ég sleikt á mér bakið.
2. Þegar ég var fimm ára: var ég líkast til haugaskítug niðri á bryggju eða í fjörunni.
3. Menntaskólaárin voru: upphitun fyrir margt betra
4. Ég hitti einu sinni: kött með þrjá fætur
5. Einu sinni þegar ég var á bar: drakk ég bjór og horfði á fólk hvíla lúin bein
6. Síðastliðna nótt: svaf ég lítið, líkast til vegna kaffifdrykkju
7. Næsta skipti sem ég fer í kirkju: verður þegar einhver deyr
8. Þegar ég sný hausnum til vinstri sé ég: gluggatjöld
9. Þegar ég sný hausnum til hægri sé ég: hund, geisladisk, bækur, hurð, teppi, línu af moskítóneti, flugnaspaða, aloavera-gel, tóma vatnsflösku og kveikjara.
10.Þegar ég verð gömul/gamall: Ætla ég að búa í suðurhluta Afríku og eiga bækur og kaffi.
11. Um þetta leyti á næsta ári: verð ég líkast til ári eldri.
12. Betra nafn fyrir mig væri: kannski ekki frumlegt en Íshjarta ... einhver ?
13. Ég á erfitt með að skilja: utanríkisstefnu Bandaríkjamanna, köttinn minn og heimalinga.
14. Þú veist mér líkar vel við þig ef: ég er vakandi þegar við hittumst.
15. Fyrsta manneskjan til að eignast barn í þínum vinahóp væri: úrelt spurning
16. Farðu eftir ráðum mínum: hættu að hugsa um peninga og kíktu til Taívan
17. Uppáhalds morgunmaturinn minn er: steikt egg með graslauk
18. Afhverju myndir þú hata mig: Því þú myndir segja að ég væri ekki góð í kínversku ? eða hmmm
19. Ég myndi stoppa mitt eigið brúðkaup ef: það ætti að halda það í kirkju, nú og ef Johnny Depp myndi droppa við.... sorrý Ljóni.... ekki það að fólk þurfi að hafa áhyggjur af því á næstu árum
20. Heimurinn mætti alveg vera án: hungursneyðar, fátæktar, hnetusmjörs og moskító
21. Ég myndi frekar sleikja svínsrass en að: láta taka af mér hendina
22. Bréfaklemmur eru nytsamlegri en: refaklemmur
23. Ef ég geri e-ð vel, er það: yfirleitt vel gert.
24. Myndir sem þú fellir tár yfir eru: aðeins of margar

miðvikudagur, maí 03, 2006

Nú er ráð.

Standa upp frá tölvunni, slökkva á henni beri svo undir og fara út á videoleigu. Eða þangað sem farið er til þess að nálgast myndir.

Finna mynd sem heitir á ensku saving face eða mian zi og er hin mesta skemmtan.

Fleira er það ekki í kvöld, þátturinn verður aftur á dagskrá að viku liðinni, veriði sæl.

mánudagur, maí 01, 2006

Það er heitt úti og þótt tónlistin reyni að fullvissa ynjuna um að kaldir dropar muni falla í alla nótt er hún ekki sannfærð. Heitt og rigning þannig mun það vera.

Ljóni sefur á gólfinu, eins og hann segir sjálfur, hann er líklega að leggja sig í síðasta sinn á Tai Yuan Lú. Hann flýgur heim á morgun. Hann er sætur þegar hann sefur í rúminu, á tatamimottunni, friðsæll.
Hroturnar eru bara notalegar, hægar og í takt við tónlistina.

Fyrir framan ynjuna er flugnaspaði sem gengur fyrir rafhlöðu og er ætlaður til þess að stuða moskítóflugurnar. Ynjan hefur enn ekki gómað flugu þrátt fyrir tilraunir til þess. En hún veit eftir sára tilraun að straumurinn er mikill og maður verður svolítið vankaður eftir stuðið. Moskítófluga myndi líkast til segja höggið banvænt, en hver spyr flugur?

Stundum þegar ynjan hleypur um herbergið vopnuð spaðanum veltir hún því fyrir sér hvaða rétt hún hafi til þess að drepa flugur. Hvort hún hafi æðri tilverurétt en þær? Yfirleitt leggur hún frá sér spaðann og skríður undir moskítónetið sitt og reynir að ganga úr skugga um að þær séu ekki þar. Þær eru samt lunknar við að næra sig á henni.

Samt reyndi moskítófluga einu sinni að drepa ynjuna, líklega fékk sú fluga ekki móral en hún var heldur ekki vopnuð slátrara sem gengur fyrir rafhlöðum.

,,Hjartað mitt það slær, bara fyrir þig" heyrist angurvært frá diskmanninum, hinn maðurinn dregur andann djúpt. Það er viðeigandi fyrir stemninguna að ynjan dregur andann djúpt í leiðinni.

Væri ynjan ekki svona dönnuð myndi hún brenna miðann hans og hringja í foreldrana og láta eins og hann hefði týnst á leiðinni heim af barnum. Segja að hann hefði fallið í hendur hryðjuverkamanna og ekkert hægt að gera.
Verst er að Ljóni er ansi fundvís og ratinn annað er frúin.

Ætli það séu margir í Darfur að læra kínversku? spyr hún sjálfa sig. Sitji einhver í Darfur með tárin í augunum er það líkast til ekki vegna þess að Ljóni er hættur að hrjóta.