laugardagur, desember 29, 2007

langi pistillinn

Aðeins örfáir dagar eftir af 2007.

Finnst núna þegar ég sit fyrir framan tölvuna, með kattarrass í andlitinu, eins og árið 2007 hafi verið eftirminnilegt ár. Eftirminnilegra en hin? Kannski- ég er bara svo fljót að gleyma, svo hafi ég fullyrt eitthvað um viðburðarríkt ár áður, hefst samanburður eða ég ber fyrir mig minnisleysi.

Kötturinn neitar að fara og er nú kominn hálfur í fangið á mér og hálfur á tölvuna, það er erfitt að vélrita svona en ég minnist nú orða vélritunarkennarans fyrir tíu árum um að fingrasetning sé mikilvægt hjálpartæki í lífinu.

Árið 2007 byrjaði ég í Póllandi, örfáir flugeldar sprengdir og ég tárfelldi.
Ég var stödd í Biaistok- í góðu yfirlæti án þess að vera í skemmtiferð. Nokkrum dögum seinna kom ég heim, með elsta bróður mínum og fylgdi honum svo til grafar 8. janúar.
Janúar minnti á að dauði og líf fylgjast að því ljóst var að von var á barni.

Kötturinn kemur sér betur fyrir á lyklaborðinu og malar sem aldrei fyr.

Með Storm innanborðs flaug ég til Taívan í síðasta sinn - í bili, hélt þar áfram kínverskunáminu, rúntaði um á vespunni og skoðaði landið betur með Villu - sem kíkti til Taívan í vetrarfríinu sínu. Ferðin á tesafnið var eftirminnileg og dásamlegt að fá far án þess að húkka á austurströndinni. Villa neitaði fegursta karlmanni sem ég hef séð um koss og syrgir enn (þetta með kosssorgina er óstaðfest ályktun)

Maðurinn treysti heimkomu mína með því að sækja mig til London, þar vorum við í góðu yfirlæti í nokkra daga. Eftir heimkomuna fann ég að óléttar konur eru ekkert eftirsóttustu starfskraftar í heimi.

Réði mig í vinnu í versluninni Grund- sem nú er Sögumiðstöð. Lóðsaði útlendinga um Snæfellsnes og laug Íslendinga fulla um ágæti eigins lands og útgerðarsögu. Þar myndaðist fyrsta sería ,,Undir fjallinu" með mig og vini mína í aðalhlutverki.

Kötturinn kominn með nóg af pikki og stekkur í burtu. Kattarmatur heyrist etinn.

Sagan gerist að miklu leiti á hóteli og í Sögumiðstöðinni. Þáttaröðin er þroskasaga- allt verður svo fallegt og gáfulegt. Aðalpersónan fær sálarfrið og NOMP og MIMP og Little Britain gera dagana ógleymanlega.
Ég kynnti KuBB til sögunnar og bjargaði þar með Grundfirðingum frá almennum sumarleiðindum.
Við hjónaleysin rúntuðum í kringum Snæfellsnesið- myndfestum rollur og kríur. Veðrið er betra í minningunni.

Kötturinn stendur nú við útidyrahurðina og krefst þess að vera hleypt út, niðurstaðan er að hann var aðeins í veðurathugun og nei- það viðrar ekki vel til útivistar.

September fór í að þrífa MT52, skyndilega voru sýklar allsstaðar. Maðurinn í MT52 kunni ekki að meta nýja þrifæðið og skildi ekki af hverju ekki var hægt að fara að sofa fyrr en búið væri að ryksuga og skúra og af hverju það var mikilvægt að setja sótthreinsandi efni í hvert horn og skipta um á rúminu annan hvern dag. Húsfrúin í MT52 var orðin heldur sver, fúl og beið spennt eftir barni með tusku í hendi.

ött4r5nn ste5g á 3y23ab6rð5ð 6g -v´5 er erf5tt að ha3da áfra0 0eð b36ggf+rs34na, Hann treð4r tr´5n5n4 á sér ´5 and35t5ð á 0ér 6g 0a3ar, he50tar 23a//, Sest sv6 t53 h35ðar 6g 0a3ar -ar se0 a3dre5 fyr, h6n40 er 0e5nað4r aðgang4r að 3y23ab6rð5n4
Jess, náði að laga lyklaborðið og kötturinn leggst á músina og heldur áfram að mala.

Lítil frænka fæddist í lok september, öllum til mikillar gleði og stóra stundin okkar nálgaðist óðfluga- héldum við. Í byrjun október voru enn allir spenntir og á hverjum degi voru vangaveltur um hvort Stormurinn kæmi þann daginn. Svo urðu þær pælingar langdregnar.
Svo fór húsfreyjan að halda að barnið ætlaði að koma á degi rússnesku byltingarinnar en hótað var að reka barnið út með góðu eða illu. Geðheilsan fauk út um gluggann og desperasiónið tók völdin.
Ekki hinkraði Stormurinn eftir byltingunni en kom í heiminn 13. október. Sá dagur var byltingin okkar því margt- ef ekki allt- er breytt.
Stormurinn fékk fljótlega nafnið Hrefna og kúrði með foreldrunum heima og gestirnir streymdu til að dásama barnið. Það fer vel með hjarta foreldranna þegar barn er lofað. Kettirnir vanræktir og fúlir.

Kötturinn stendur á músamottunni og malar. Hann leggur annað eyrað lítillega aftur og horfir letilega á mig. Hann langar að hoppa upp í vagninn en líkast til nennir hann því ekki. Kötturinn lygnir aftur augunum.

Barnið braggaðist vel og í nóvember var haldin nafnaveisla því til heiðurs.
Hún heitir Eldey Hrefna í höfuðið á ömmunum Hafdísi og Önnu. Margir mættu og heiðruðu barnið og foreldrana.
Kettirnir eru að sögn enn nokkuð vanræktir, þeir hafa af og til komið að tómri matarskál og þeim er ekki klappað heilu kvöldin lengur en fá þó mat og stöku klapp.

Kötturinn fer.

Pabbinn fór svo aftur í barneignarfrí í desember og saman höfum við haft það gott. Fórum í fyrsta sinn norður saman.
Daman brosir og hlær, heldur höfði, slær í dót og sperrir sig. Hún gerir allt sem börn á hennar aldri eiga að gera og foreldrarnir gera það sem foreldrar eiga að gera - dást að barninu og mæra það út í eitt.
Kettirnir eru sáttari en áður og búnir að fatta að biðja um athygli þegar stúlkubarnið sefur, dallarnir eru nú alltaf fullir og aftur byrjað að lauma fiski til þeirra.


Fyrstu jólin okkar saman voru haldin í MT52 með fullt af fólki. Gott fólk, góður matur, góðir pakkar og eldingar gera daginn ógleymanlegan.
Fyrsta jólaboðið var í Borgarnesi þar sem frænkurnar hittust í myndatöku.

Nú eru aðeins örfáir dagar eftir af árinu og fullt af ,,í fyrsta sinn" atburðum eftir.

Köttur kemur og ég segist ætla að baða hann, köttur yfirgefur svæðið.
Annar köttur mjálmar og stekkur upp á borð og treður rassinum í andlitið á mér og sest í fangið á mér. Malar.

Hvað skilur árið svo eftir sig?
Árið 2007 er ár andstæðna, sorgar og gleði, ferðalaga og heimasetu, frelsis og fangelsunar, fækkunar og fjölgunar, innhverfu og úthverfu, söknuðar og tilhlökkunar. Ár þess óvænta og ófyrirséða.

Árið 2007 er árið þar sem hlutirnir sjást í nýju ljósi, út frá öðru sjónarhorni í sama umhverfinu. Þar sem þakklæti, kærleikur og æðruleysi spila stórt hlutverk og sáttin býr í hjartanu. Árið sem minnir á að lífið er fyrst og fremst gott og skemmtilegt.

Gleðin og væmnin og bleiki liturinn.

2007 er ár MT52

Kæru lesendur ynjunnar

Gleðilegt og farsælt nýtt ár með þökk fyrir það gamla.
Megi nýja árið færa ykkur allt það sem þið óskið ykkur.

Í MT52 verður kaffi á könnunni út árið 2008

miðvikudagur, desember 19, 2007

Á einhver Fimbulfamb sem hann vill losna við?

Einhver - plíííís

Ég þrái að komast yfir Fimbulfamb!

sunnudagur, desember 16, 2007

Mig mun ekkert bresta

Þarna stóð hún í kuldanum, rauða síða hárið hennar fallegt sem og alltaf. Hún brosti feimnislega til mín, við vissum hvorugar hvernig við áttum að vera. Ég man bara að ég dáðist að þokka hennar. Fas hennar er svo ljúft og yfirnáttúrulegt og íslenskt og hefur aðeins aukist og eflst með árunum. Þrátt fyrir kuldann úti og kulið í hjarta mínu, hlýnuðu hjartaræturnar við að sjá hana.

Ég sagði að mér þætti gaman að sjá hana og skammaðist mín samstundis. Ég kann ekkert að vera viðeigandi á svo erfiðri stundu. Líkast til hefði ég átt að segja að það væri gott að sjá hana eða takk fyrir komuna. Ískalt frostið hefði líka boðið upp á þögn. En mér þótti hvort tveggja gott að sjá hana og gaman.

Hún rétti fram bók og sagði hana handa mér og bætti við feimnislega ,,þú verður að fara varlega í þessa".

Ég tók við bókinni og saman gengum við í átt að kirkjunni. Ég ætlaði að tala meira við hana en áður en ég vissi af var fleira fólk komið, fleiri faðmlög og stundin farin.

Seinna -las ég bókina hægt og örugglega af þeirri virðingu sem hún krafði mig og af nærgætninni sem ég hafði verið beðin fyrir.

Nú tæpu ári eftir að ég hitti rauðhærðu konuna við kirkjuna er ég enn að lesa bókina, les hana aftur og aftur, stundum alla í beit -stundum bara eina síðu í einu. Af og til hugsa ég bara um að opna hana og hugsa um það sem stendur í henni.

Þessi bók var ekki upphafið og bókin er ekki endirinn. Hún er fylgihlutur - vegvísir sem gott er að styðjast við á þessari göngu. Göngunni sem hófst fyrir ári -
þegar armarnir fóru úr fjórum í þrjá, þegar fyrsta og elsta tréð féll.

Göngu sem ég vissi ekki að ég myndi feta, göngu sem er hvorki stutt né löng, fyrirfram útséð eða afmörkuð. Göngu sem vonandi verður aldrei jafn sár og þegar upp í hana var lagt.

Nú er frost og veðrið stillt- rétt eins og þegar við hittumst, ég og konan með rauða hárið. Núna er ég inni í hlýjunni með hafið og fjöllin fyrir augum mínum.

Ég veit ekki hvenær það verður en næst þegar ég hitti hana ætla ég að segja takk
og reyna að segja henni af einlægni, klaufskt og vandræðalega, hve gott það er að eiga þessa bók. Og hitt sem er betra að eiga vin eins og hana sem í fjarlægðinni veit hve nytsamleg slík bók er.

Líklegast er þó að næst þegar ég hitti hana verði ég hrædd um að missa kúlið og spyrji í sífellu hvort hún sé ekki hress.

þriðjudagur, desember 11, 2007

Einhverra hluta vegna er konfektdósin svo til tóm. Trúlegasta skýringin er að nammigrís hafi numið mest af konfektinu á brott og skilið eftir botnfylli til að skilja húsfrúna eftir ráðþrota.

Svona til þess að eiga eitthvað handa gestum, hellti ég upp á kaffi og ákvað að gera jólasmákökur. Nammigrís leggst varla í kökurnar. Ég get ekki verið þekkt fyrir að eiga ekkert með kaffinu svona rétt fyrir jólin.

Sletti stífþeyttum eggjahvítunum á bökunarpappír og inn í ofn. Kíkti á Túttuna og drakk kaffi. Ilmurinn breiddist fljótt um allt hús.

Hugsaði hve gaman það væri að bera smákökurnar á borð og þiggja hrós fyrir myndarskap. Svona eins og í bíómyndunum í gamla daga. Við kerlurnar með rúllað hár...

Fékk mér smá smakk meðan þær voru enn heitar,
svo tvær með kaffinu
aðra til að vera viss um að þær væru góðar
þá nokkrar til að tryggja að önnur umferð væri jafn góð og sú fyrsta

Nú er skammarlega lítið til af gestasmákökum og ég grennist ekki í dag.

Uppskriftin tókst vel og kökurnar góðar eftir því

Hér eftir lofa ég að eiga kaffi - annað er slembilukka.

sunnudagur, desember 09, 2007

Við sátum nokkur og gerðum konfekt um helgina.
Mér fannst konfektgerðin heppnast vel og félagsskapurinn góður. Svo ekki sé minnst á hve ljúffengt góðgætið var.

Jólatónlistin skapaði góða stemningu ,,gef ég henni ef ég nenni" jafnast á við þjóðsönginn á góðum degi.

Þegar gestirnir fóru horfði ég á magnið og hugsaði með mér að þetta myndi aldrei klárast fyrir jól.
Í dag horfi ég ofan í hálftóman dallinn og velti því fyrir mér hvað hafi orðið af því.

Skömm að segja frá því að góðgætinu hefur ekki verið deilt með gestum, mannsefnið hefur heldur ekki snert á molunum.

Fyrir þá sem eru fljótir þá verður konfekt með kaffinu í MT52 - meðan byrgðir endast þori ekki að lofa meiru.

miðvikudagur, desember 05, 2007

Mér finnst snjallt að menntamálaráðherra sjái tengsl milli lengdar kennaranáms og útkomu í Pisakönnun. Tvær flugur í einu höggi.
Ástæða þess að íslensk börn koma ekki betur út í Pisa er kennurum að kenna eða lengd náms þeirra. Svo er menntakerfið líka dýrt og það er kennurum að kenna líka.
Nú er lag að lengja námið og andæfa hugsanlegum launahækkunum kennara- þeir eiga hana ekki skilið. Best væri að fólk fengist til að vera fimm ár í skóla fyrir sömu laun og það hafði áður.

Íslensk börn eru líka of feit og til að taka á þeim vanda þarf átak í skólum landsins, kennararnir þurfa að taka sig á. Ekki að ástæða sé til að fría kennara ábyrgð, þeir bera þá ábyrgð að fræða nemendur sína um holla lífshætti og auðvitað eiga skólarnir að bjóða upp á hollan og staðgóðan mat.

En það hefur minnst með skólann að gera að íslensk börn eru of feit, svona eins og það hefur lítið með vinnustaði að gera að starfsmenn eru of feitir.

Eigi kennarar að bera fulla ábyrgð á öllu sem snertir líf barna er rétt að senda barnabæturnar og meðlagið í skólann.