laugardagur, desember 29, 2007

langi pistillinn

Aðeins örfáir dagar eftir af 2007.

Finnst núna þegar ég sit fyrir framan tölvuna, með kattarrass í andlitinu, eins og árið 2007 hafi verið eftirminnilegt ár. Eftirminnilegra en hin? Kannski- ég er bara svo fljót að gleyma, svo hafi ég fullyrt eitthvað um viðburðarríkt ár áður, hefst samanburður eða ég ber fyrir mig minnisleysi.

Kötturinn neitar að fara og er nú kominn hálfur í fangið á mér og hálfur á tölvuna, það er erfitt að vélrita svona en ég minnist nú orða vélritunarkennarans fyrir tíu árum um að fingrasetning sé mikilvægt hjálpartæki í lífinu.

Árið 2007 byrjaði ég í Póllandi, örfáir flugeldar sprengdir og ég tárfelldi.
Ég var stödd í Biaistok- í góðu yfirlæti án þess að vera í skemmtiferð. Nokkrum dögum seinna kom ég heim, með elsta bróður mínum og fylgdi honum svo til grafar 8. janúar.
Janúar minnti á að dauði og líf fylgjast að því ljóst var að von var á barni.

Kötturinn kemur sér betur fyrir á lyklaborðinu og malar sem aldrei fyr.

Með Storm innanborðs flaug ég til Taívan í síðasta sinn - í bili, hélt þar áfram kínverskunáminu, rúntaði um á vespunni og skoðaði landið betur með Villu - sem kíkti til Taívan í vetrarfríinu sínu. Ferðin á tesafnið var eftirminnileg og dásamlegt að fá far án þess að húkka á austurströndinni. Villa neitaði fegursta karlmanni sem ég hef séð um koss og syrgir enn (þetta með kosssorgina er óstaðfest ályktun)

Maðurinn treysti heimkomu mína með því að sækja mig til London, þar vorum við í góðu yfirlæti í nokkra daga. Eftir heimkomuna fann ég að óléttar konur eru ekkert eftirsóttustu starfskraftar í heimi.

Réði mig í vinnu í versluninni Grund- sem nú er Sögumiðstöð. Lóðsaði útlendinga um Snæfellsnes og laug Íslendinga fulla um ágæti eigins lands og útgerðarsögu. Þar myndaðist fyrsta sería ,,Undir fjallinu" með mig og vini mína í aðalhlutverki.

Kötturinn kominn með nóg af pikki og stekkur í burtu. Kattarmatur heyrist etinn.

Sagan gerist að miklu leiti á hóteli og í Sögumiðstöðinni. Þáttaröðin er þroskasaga- allt verður svo fallegt og gáfulegt. Aðalpersónan fær sálarfrið og NOMP og MIMP og Little Britain gera dagana ógleymanlega.
Ég kynnti KuBB til sögunnar og bjargaði þar með Grundfirðingum frá almennum sumarleiðindum.
Við hjónaleysin rúntuðum í kringum Snæfellsnesið- myndfestum rollur og kríur. Veðrið er betra í minningunni.

Kötturinn stendur nú við útidyrahurðina og krefst þess að vera hleypt út, niðurstaðan er að hann var aðeins í veðurathugun og nei- það viðrar ekki vel til útivistar.

September fór í að þrífa MT52, skyndilega voru sýklar allsstaðar. Maðurinn í MT52 kunni ekki að meta nýja þrifæðið og skildi ekki af hverju ekki var hægt að fara að sofa fyrr en búið væri að ryksuga og skúra og af hverju það var mikilvægt að setja sótthreinsandi efni í hvert horn og skipta um á rúminu annan hvern dag. Húsfrúin í MT52 var orðin heldur sver, fúl og beið spennt eftir barni með tusku í hendi.

ött4r5nn ste5g á 3y23ab6rð5ð 6g -v´5 er erf5tt að ha3da áfra0 0eð b36ggf+rs34na, Hann treð4r tr´5n5n4 á sér ´5 and35t5ð á 0ér 6g 0a3ar, he50tar 23a//, Sest sv6 t53 h35ðar 6g 0a3ar -ar se0 a3dre5 fyr, h6n40 er 0e5nað4r aðgang4r að 3y23ab6rð5n4
Jess, náði að laga lyklaborðið og kötturinn leggst á músina og heldur áfram að mala.

Lítil frænka fæddist í lok september, öllum til mikillar gleði og stóra stundin okkar nálgaðist óðfluga- héldum við. Í byrjun október voru enn allir spenntir og á hverjum degi voru vangaveltur um hvort Stormurinn kæmi þann daginn. Svo urðu þær pælingar langdregnar.
Svo fór húsfreyjan að halda að barnið ætlaði að koma á degi rússnesku byltingarinnar en hótað var að reka barnið út með góðu eða illu. Geðheilsan fauk út um gluggann og desperasiónið tók völdin.
Ekki hinkraði Stormurinn eftir byltingunni en kom í heiminn 13. október. Sá dagur var byltingin okkar því margt- ef ekki allt- er breytt.
Stormurinn fékk fljótlega nafnið Hrefna og kúrði með foreldrunum heima og gestirnir streymdu til að dásama barnið. Það fer vel með hjarta foreldranna þegar barn er lofað. Kettirnir vanræktir og fúlir.

Kötturinn stendur á músamottunni og malar. Hann leggur annað eyrað lítillega aftur og horfir letilega á mig. Hann langar að hoppa upp í vagninn en líkast til nennir hann því ekki. Kötturinn lygnir aftur augunum.

Barnið braggaðist vel og í nóvember var haldin nafnaveisla því til heiðurs.
Hún heitir Eldey Hrefna í höfuðið á ömmunum Hafdísi og Önnu. Margir mættu og heiðruðu barnið og foreldrana.
Kettirnir eru að sögn enn nokkuð vanræktir, þeir hafa af og til komið að tómri matarskál og þeim er ekki klappað heilu kvöldin lengur en fá þó mat og stöku klapp.

Kötturinn fer.

Pabbinn fór svo aftur í barneignarfrí í desember og saman höfum við haft það gott. Fórum í fyrsta sinn norður saman.
Daman brosir og hlær, heldur höfði, slær í dót og sperrir sig. Hún gerir allt sem börn á hennar aldri eiga að gera og foreldrarnir gera það sem foreldrar eiga að gera - dást að barninu og mæra það út í eitt.
Kettirnir eru sáttari en áður og búnir að fatta að biðja um athygli þegar stúlkubarnið sefur, dallarnir eru nú alltaf fullir og aftur byrjað að lauma fiski til þeirra.


Fyrstu jólin okkar saman voru haldin í MT52 með fullt af fólki. Gott fólk, góður matur, góðir pakkar og eldingar gera daginn ógleymanlegan.
Fyrsta jólaboðið var í Borgarnesi þar sem frænkurnar hittust í myndatöku.

Nú eru aðeins örfáir dagar eftir af árinu og fullt af ,,í fyrsta sinn" atburðum eftir.

Köttur kemur og ég segist ætla að baða hann, köttur yfirgefur svæðið.
Annar köttur mjálmar og stekkur upp á borð og treður rassinum í andlitið á mér og sest í fangið á mér. Malar.

Hvað skilur árið svo eftir sig?
Árið 2007 er ár andstæðna, sorgar og gleði, ferðalaga og heimasetu, frelsis og fangelsunar, fækkunar og fjölgunar, innhverfu og úthverfu, söknuðar og tilhlökkunar. Ár þess óvænta og ófyrirséða.

Árið 2007 er árið þar sem hlutirnir sjást í nýju ljósi, út frá öðru sjónarhorni í sama umhverfinu. Þar sem þakklæti, kærleikur og æðruleysi spila stórt hlutverk og sáttin býr í hjartanu. Árið sem minnir á að lífið er fyrst og fremst gott og skemmtilegt.

Gleðin og væmnin og bleiki liturinn.

2007 er ár MT52

Kæru lesendur ynjunnar

Gleðilegt og farsælt nýtt ár með þökk fyrir það gamla.
Megi nýja árið færa ykkur allt það sem þið óskið ykkur.

Í MT52 verður kaffi á könnunni út árið 2008