Það snjóaði ósköpin öll á vagninn, ég var pínulítið stressuð um að daman væri ekki nógu vel klædd og uppskar háðsglott frá manninum í staðinn.
Líkast til lenda öll ,,fyrstubörn" í því að vera hálfdrepin úr hita í vagnferðum sínum.
Þetta var í annað sinn sem við fórum út öll þrjú saman í göngutúr. Gönguferðirnar taka lífið úr samhengi, mér finnst undarlegt að ganga úti með vagn og í honum er dóttir mín.
Mun raunverulegra að vera heima að knúsast, þá kemur þetta allt heim og saman. Við erum nefnilega búin að vera þrjú þar í rúmar tvær vikur og það er langur og góður tími - stuttur í sögulegu samhengi- en heillangur og yndislegur fyrir okkur.
Hægt er að eyða heillöngum tíma í að skoða hverja einustu línu á líkama hennar og alltaf sést nýr svipur í andlitinu. Leiðist ekki að dást að gripnum. Matartíminn hefur breyst heilmikið og það er ævintýri að fara í sturtu. Stundum gerist ég svo villt að ég loka hurðinni á eftir mér. Háskalíf. Háskalíf.
Svo er fólk svo huggulegt að kíkja við og dást að henni með okkur - það fer ekkert illa með egóið að láta aðra dást að nýja gripnum.
Við unum okkur vel í MT52, sæl með nýjan fjölskyldumeðlim og sátt með lífið í dag.
<< Home