þriðjudagur, október 09, 2007

- Þú verður bara að fara í göngutúr
- Sterkt kaffi er lausnin
- Sterkur matur
- Rúnta um holótta vegi kemur öllu í gang
- kynlíf
- Koníak
- Hugleiðsla
- Rektu það út
- Nudd og nálastungur
- Stattu á haus, settu gulan klút upp í þig og drekktu mysu

Hef beðið af mér alla spádóma, fullt tungl og háflóð, nokkrar lægðir og storm. Ég hef kynnt mér og reynt öll brögðin í bókinni til þess að lokka barnið í heiminn og játa að ég rak barnið út fyrir nokkru og vitnaði í leigusamninginn. Ég hef reynt að eta þessar bækur og skrifa nýjar með tilliti til þess að Stormurinn komi í heiminn en ekkert gerist.
Ekkert, nema þolinmæðin þver, geðheilsan versnar og biðin lengist.

Auðvitað á maður að njóta þess að vera einn þessa örfáu daga sem eftir eru, málið er bara að ég hef haft það fullgott undanfarin 28 ár, hef undan engu að kvarta. Núna er ég til í að hætta að hafa það gott og fá barn í heiminn.
Svo æðruleysi verður ekki sett á ,,góðráðlistann".

Auðvitað er þetta lúxusvandamál sem ég glími við hérna. Ég er heima að bíða eftir barni. Í litla örugga landinu mínu, í risastóru íbúðinni með köttunum og barnadótinu.
Geri mér fulla grein fyrir því að óléttar konur í Darfúr eru líkast til ekkert að bíða eftir barni á þriðju viku, drekkandi kaffi um allan bæ. Held að spennustigið hjá óléttum konum í Írak komi heldur hvergi nærri afslöppunarblóðþrýstingnum mínum. Dreg í efa að óléttar konur í afskekktum héruðum Tíbets fái full laun fyrir að vera heima og bíða eftir barni og í nokkra mánuði á eftir.

Lúxusvandamálið er algert, átta mig á því. En eins og snillingurinn benti á hér um árið þá eru börnin í Afríku ekkert saddari hvort sem ég klára fiskinn eða ekki.