fimmtudagur, september 20, 2007

Þrátt fyrir litla leikni í kringum tölvur pantaði kerla sér bækur á netinu fyrir stuttu.

Nokkrum dögum síðar bað tollurinn um leyfi til að opna pakkann og skoða innihaldið, það var lítið mál.
Í umslaginu góða voru tvær bækur, keyptar á 200 krónur og ég hélt kannski að einhver tollarinn vildi rita hjá sér nöfnin á bókunum sér til fróðleiks.

Seinna kom tilkynning um að ég mætti sækja bækurnar góðu, gegn hóflegu verði. 577 krónur.

Bækurnar fróðlegu nú búnar að margfalda virði sitt. Ég stóðst ekki mátið og hringdi til að spyrja fyrir hvað væri verið að rukka. Jú ekki stóð á svörum, 577 krónur kostar að gera skýrslu um að innihaldið sé einskis virði og ekki gjaldskylt.

Var ekkert betra að gera þennan dag? Hvað með að sleppa því að gera skýrsluna?

Fór upp á pósthús, heldur örg, örg út í eitthvað kerfi sem ég kem aldrei til með að sigra og sótti pakkann.

Hugguleg afgreiðslukonan rétti mér umslagið og sagði að þetta yrðu 577 krónur.
Ég tók upp plastpokann, fullan af klinki og skellti á borðið og sagði gjörðu svo vel.
Undrunarsvipurinn leyndi sér ekki og afgreiðsludaman hváði, hvað þetta væri.
Ég endurtók 577 krónur og náði ekki að halda aftur af glottinu.

Hún tók pokann en taldi ekki krónurnar, rétti mér kvittun og þakkaði fyrir og ég kvaddi með virktum og örlitlu glotti.

Vonaði heitt og innilega að ekki sé klink vél á staðnum og hún sitji og telji krónurnar.

Ekki það þroskaðasta sem ég hef tekið mér fyrir hendur en mér leiddist ekki.

Molar eru líka brauð