þriðjudagur, desember 11, 2007

Einhverra hluta vegna er konfektdósin svo til tóm. Trúlegasta skýringin er að nammigrís hafi numið mest af konfektinu á brott og skilið eftir botnfylli til að skilja húsfrúna eftir ráðþrota.

Svona til þess að eiga eitthvað handa gestum, hellti ég upp á kaffi og ákvað að gera jólasmákökur. Nammigrís leggst varla í kökurnar. Ég get ekki verið þekkt fyrir að eiga ekkert með kaffinu svona rétt fyrir jólin.

Sletti stífþeyttum eggjahvítunum á bökunarpappír og inn í ofn. Kíkti á Túttuna og drakk kaffi. Ilmurinn breiddist fljótt um allt hús.

Hugsaði hve gaman það væri að bera smákökurnar á borð og þiggja hrós fyrir myndarskap. Svona eins og í bíómyndunum í gamla daga. Við kerlurnar með rúllað hár...

Fékk mér smá smakk meðan þær voru enn heitar,
svo tvær með kaffinu
aðra til að vera viss um að þær væru góðar
þá nokkrar til að tryggja að önnur umferð væri jafn góð og sú fyrsta

Nú er skammarlega lítið til af gestasmákökum og ég grennist ekki í dag.

Uppskriftin tókst vel og kökurnar góðar eftir því

Hér eftir lofa ég að eiga kaffi - annað er slembilukka.