miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Nafnaveislan fór vel fram, daman kát og virtist ánægð með nafnið sitt - og gestina.
Það er erfitt að velja nafn á barn, ákvörðun sem fylgir annarri manneskju líklega lífið út. Vel þarf að vanda til verka. Því fylltist maður valkvíða stuttu áður en endanleg ákvörðun var tekin, maður vill vel hvort sem það er í nafnavali eða öðrum þáttum sem tengjast umönnun barns.

Vont að skýra nafnið fyrir vinum í út-löndum. Fire Island Minky whale eða Fire Island Female Raven hljómar ekki eins vel upp á ensku og það gerir á íslensku. Við gleymdum alveg hvað við erum ,,international" og áhugavert fólk þegar barnið var nefnt. Munum það betur næst.

Nýjasta uppgvötunin á heimilinu er hnúinn, hún veit að það er hægt að troða honum upp í sig og snúa á alla kanta. Hún er líka að fatta að eyrun á henni eru föst - hún tosar í þau af mikilli áfergju. Í fyrstu hélt maður að hún væri að fá eyrnabólgu, ég minnist þess ekki að hafa tosað í eyrun á mér því ég vil vissa mig um að þau séu þar enn.

Auðvitað brosir hún og hlær til okkar, fallegasta brosið sem við höfum séð. Hún brosir oft eitthvað út í loftið - brosir til ljóssins, sjónvarpsins eða jafnvel sófans. Hún þarf ekki nokkra ástæðu til þess að brosa... það eru mörg ár síðan ég brosti að óþörfu.

Við erum saman að læra stöllurnar, hún að uppgvöta hlutina í fyrsta sinn - ég að endurupplifa þá.