mánudagur, mars 28, 2005

Þá er hátíðarofátið frá og við tekur hversdagslegt ofát aftur. Það er gott að umbuna verslanir reglulega á frídögum og blóta svo í hljóði yfir blankheitunum.

Ynjan hefur lengi talið sig ofurmenni sem getur tuskað hvað kött sem er. Því dreif ynjan sig upp á eyju í Breiðafirði og ætlaði aldeilis að láta sig húrra fram af eins og súpermanni sæmir. Skrítið með súpermann við Þormóðssker, fæturnir gáfu sig hreinlega og neituðu að ferja hetjuna niður. Það var ekki fyrr en löngu seinna eða um það leiti sem hún sá fram á að vera skilin eftir að hún lét sig falla niður. Af tvennu illu þá var verra að skríða aftur niður. Þennan hetjuatburð taldi ynjan gleymdan og innan trúnaðarvébanda kafaranna. Ónei, víst eru til myndavélar sem geta tekið video! Svo þegar líða fór á kvöldið var það helsta skemmtan heimamanna og annarra að horfa á yngismeynna garga eins og stunginn grís í fríu falli. Aftur og aftur og aftur og aftur. Einhvern veginn finnst henni eins og enginn hafi skemmt sér við að horfa á þetta eða var ynjan bara súr?

miðvikudagur, mars 23, 2005

Alltaf hress

Það virðist vera mikilvægast í geiminum að vera alltaf hress og engu skiptir hvað liggur þar að baki. Ynjan bregst ekki aðdáendum sínum með það hún er gasalega hress og uppveðruð af því að vera í stuði.

mánudagur, mars 21, 2005

Niður með frjálsar útvarpsstöðvar

Það getur verið yndælt að liggja í ljósberaholu, vopnaður fartölvu og skólabókum. Rómantíkin svífur yfir vötnum, lyktin er einstök og loks tími til að hlusta á rás tvö. Útvarpið var safngripur, sett út í glugga, dustað af því og leitað að rás tvö. Allt kom fyir ekki, eina sem ynjan fann var bylgjan á laugardagskvöldi með danspartý.
Minn rass, ef þetta er danspartý bylgjunnar þá vil ég láta leggja niður frjálsar útvarpsstöðvar.

Og það núna

miðvikudagur, mars 16, 2005

Ynglingar

ég hélt að það væri ekkert mál að umgangst unglinga í hópum og var ein af fáum sem ekki hafði trú á vænlegum heilaskaða af samvistum við þá. En nú er allt breytt. Ég nálgaðist þessi unglingsgrey í c.a. tvo tíma í gær og reyndi eftir bestu getu að missa það ekki á þau. Ekki það að þau voru að gera eitthvað af sér heldur mösuðu þau og töluðu og misstu út úr sér óheppileg orð,nenntu ekki gátu ekki og vitnuðu að lokum í barnasáttmála sameinuðu þjóðanna um réttindi sín.
En öll voru þau að gera sitt besta sitt allra besta. Margir höfðu undirbúið sig það var augljóst en sumir höfðu lagt meiri áherslu á samvinnuna og samræmt vinnubrögð.
Í fyrstu áttaði ynjan sig engan veginn á því afhverju unglingar tveir þurftu að hafa svona mikið augnsamband og furðaði sig á því hve opin samkynhneigð væri í grunnskólum, svo mikil að ekki var hægt að geyma ástaraugngoturnar í einu skitnu prófi. Svo þegar þær fóru að lyfta upp hendi og gefa písmerki og annað morsmerki áttaði ynjan sig á að líkast til voru þær ekki að skipuleggja stefnumót um kvöldið. Hvað átti til bragðs að taka?
Ynjan settist milli ynglinganna sem þá aðeins einbeyttu sér að verkefninu en voru ekkert of veðraðar af nærveru hennar og gáfu aftur leynimerki.
Ynjan er orðin það gömul að hún nennir ekki að gera veður útaf einhverri samstöðu.
Þær stöllur átta sig þó fljótlega á því að þær voru með sitthvort prófið og samstaðan því til einskis.

mánudagur, mars 14, 2005

Þegar til lengri tíma er litið er lítill tími ekki neitt en þegar maður horfir til skemmri tíma getur biðin verið allt að því óendanleg. Óendanleg bið er óbærileg og þegar biðin er orðin óbærileg er sem hún sé óendanleg. Ekki það að biðin sé óþægileg heldur helst til lengi að líða. Maður segist ætla að doka en hinkrar og svo er maður farinn að bíða og þá er maður kominn í hring. Slappaðu af því þegar til lengri tíma er litið er þetta rétt handan við hornið. Handan við hornið er nokkuð teygjanlegt þar sem handan við hornið fer allt eftir því hvar maður býr og hvaða horn er verið að tala um. Er verið að tala um hornið á húsinu, götunni eða bænum eða bara eitthvað allt annað horn sem allt eins gæti verið á Huppu gömlu og ekki veit maður í hvaða sveit hún er núna. Búi maður í hringlóttu húsi er ekki lifandi leið að fara handan hornsins og því er gengið í hringi.

Í hringi.

fimmtudagur, mars 10, 2005

Í mörg ár hefur ynjan beðið eftir því að sjá Boga Ágústsson fréttastjóra birtast á skjánum og segja ,,kæru landsmenn það er ekkert í fréttum í kvöld.Þá er það ekki fleira að sinni" og útsendingu frétta lokið.
Ynjan hefur hugsað þetta af og til þegar henni þykir fréttafluttningurinn skrípalegur, innantómur og þegar suð myndast við fréttir. Aldrei hefur þetta gerst. Ynjan varð því agndofa í morgun þegar hún þeysti um götur Reykjavíkurborgar og morgunfréttir á rás 2 áttu að byrja. Reyndar var það ekki Bogi Ágústson heldur annar karlmaður tilkynnti að ekki yrði fréttatími vegna fundarsetu fréttamanna. Loksins kom að því, loksins. Kannski maður láti taka kvöldfréttirnar upp í þeirri von að þær verði ekki. Glöggir menn sjá þó að frestun frétta var ekki vegna fréttaleysis því heldur biðin áfram.

Biðin endalausa

miðvikudagur, mars 09, 2005

Nú hefur maður lagt selshaminn á hilluna og líkast til gengst selurinn við mannhami sínum aftur. Gallinn við mannshugann er biðin sem á köflum verður óbærileg. Biðin stendur í tuttugu og tvo daga. Nú mega vættirnir vera að hugsa til mín.

Dvölin í ljósberaholunni gengur ágætlega en þegar maður er svartálfur inn við beinið er fátt betra en að gefa skít í ljósið, drekka kaffi og bóhemast.

mánudagur, mars 07, 2005

Ég ætla að koma mér fyrir ofan í ljósberaholunni minni og skrifa lokaverkefni. Ef allir halda heilsu hjálpar ljósberinn mér vonandi.
Ég held líka að ljósberinn minn sé latur og því hafi verkefni gengið eftir því. Annars kann ég ágætlega við ljósberann minn en hann þvælist svosem ekkert fyrir mér. Einhverjir hafa nú reynt að halda því fram að hann sé ekki til og fyrir hans hönd vitna ég í Mikka ref og kjaftæðið.

laugardagur, mars 05, 2005

Ráðgátan verður víst ekki leyst í dag

miðvikudagur, mars 02, 2005

Ynjan vaknaði í gærmorgun og sá ljósið. Einhver gæti hugsað með sér að nú séu ynjan og kristur bestu félagar en ekki er það svo gott. Ljósið skein skært inn um svefnherbergisgluggann og vakti ynjuna. Það hefur aldrei verið góðs viti en þessi stund var eitthvað ólík öðrum svo leið og beið og ynjan var viss um að nú myndi rata á vit hennar lottóvinningur eða önnur nauðsyn í nútímasamfélagi. En ekkert gerðist. Ynjan var orðin nokkuð fúl svona um kvöldmat og úm miðnætti hafði ekkert marktækt gerst.
Svo komst hæstiréttur í Ríkjum banda að það væri ólöglegt skv. stjórnarskrá að taka fólk af lífi undir 18 ára. Kannski ekki það sem ynjan átti von á en gleðilegt. Það er ekki langt síðan ríki bandanna komst að því að líkast til þjónaði það litlum tilgangi að taka af lífi þroskahefta og hver veit nema að einhvern daginn afnemi þeir dauðarefsingar með öllu. Það gæti þá ekki farið svo að þar á bæ væri uppgvötun um að stríð væru ekki lengur í tísku. Hver veit hvað gerist næst.
Ynjan bíður í það minnsta eftir næsta sólargeisla að morgni til og í stað þess að fitla við egóið ætlar hún að horfa á tíu fréttir.