laugardagur, janúar 31, 2004

Laugardagur til lukku.

Ég finn að eitthvað stórskemmtilegt er í uppsiglingu. Ég bara veit það.

Svona til að hafa kreditlistan á hreinu þá fá Gunnþór og Marta ómælt hrós svona í upphafi dags.


Svo er hin eina sanna múttermasta byrjuð að blogga. Þetta hefur farið nokkuð hægt af stað en ég hef fulla trú á frúnni. Hver veit nema að göslmaster fari að blogga og þá er síðasta virkið fallið...

föstudagur, janúar 30, 2004

Já þetta er með lengri afmælum sem ég hef farið í. og betri. að öðrum ólöstuðum.

Við Kormákur þeystum þetta í 20 vindstigum? seinnipartinn og þar sem hann hefur ekki séð sért fært að útvega útvarp sungum við lalala alla leiðina í Bongóið. Þar biðu konunglegar móttökur, skrafl og almennar þrætur sem alltaf skapa stemmningu. Þau eru ósköp yndæl hjónakornin atarna. Ferðinni átti að ljúka í gærkveldi og svo í morgun og svo um hádegi og í eftirmiðdaginn var mér ýtt út. Mútterinn léði mér ferðageislaspilara svo við Kormákur sungum hástöfum með Stevie wonder á suðurleiðinn og maður er ekki frá því að Konni hafi brunað þetta á 90 mest alla leiðina. Söngur er nærandi fyrir menn og bíla. Ég mæli með því að fara í svona afmælis.

Heima var sjúklingurinn, aðframkominn og veikur. Við glöddust bæði.

Orð dagsins er jibbjibb-jibbojibb sem er ,,gælunafn" fyrir sauðfé (kall). Hefur einhver heyrt þetta áður?
Ég er í fýlu út í Mörð Árna fyrir að láta þetta í bókina góðu. Hann hefur greinilega ekki verið nálægt minni sveit!


Lifið heil og góða helgi

fimmtudagur, janúar 29, 2004

Mútterinn á afmæli í dag. Til hamingju. Í tilefni afmælisins ætla ég að þeysa á kormáki í bongóið. Helginn er löglega afsakaður í bili en lofar að mæta næst.

Níu klukkustundabið á lansanum er nokkuð óspennandi. Bið eftir þessu og hinu og svo er maður ósjálfrátt farinn að bíða þó maður eigi ekkert að bíða. Það var fátt að tala um þarna í lokin og ég held að við höfum lesið allt það sorp sem gefið er út...fyrir hádegi.
Hjúkkan var ekki mjög sátt, kannski þreytt, en elsku elsku sjúkraliðinn var bara svo mikið æði, hún hefði líka mátt vera hjúkka. Miðað við biðina í dag, þá veit ég ekki alveg hvernig fara á að þegar niðurskurðurinn er á hápunkti. Pant ekki veikjast þá.
Eftir nokkra stund var ég komin með samúðarverki og ýmis sjúkdómseinkenni sem eru alvarleg. Nú er Helgi svo hress að hann er eins og nýsleginn túskildingur og manni líður eins og í tilhugalífinu hann er svo ferskur!

Orð dagsins er afmæli og ykkar að fletta því upp hvað það er.

alltaf gaman í afmælum
Sjúka Soffía kveður

mánudagur, janúar 26, 2004

Góðan dag góðan dag

ummæli dagsins ,,ég hef reyndar miklar áhyggjur af Soffíu systir en fyrir þá sem ekki vita er hún mikill anti-sportisti en hún er að láta sjá sig á hverjum leiknum á fætur öðrum, og það sem meira er ég held hún hafi nú bara lúmskt gaman að þessu..." já já jafnvel svartsýnustu menn hafa trú á því að hin lata ljónynja öðlist einn daginn uppreisn æru sem íþróttamanneskja. En hún tekur þetta til sín, réttir vel úr bakinu og nefið upp. Hver veit nema að hún splæsi í sundbol og svitabandi á næstunni. í lok árs verður hún jafnvel búin að læra helstu leikreglur í hópíþróttum og farin að hætta sér á hlaupabrettið. Jafnvel hafa það í gangi. Hver veit.
Að sjálfsögðu tapaði ég mér á þessum b-vítans leik í gær.... eða skapaði í það minnsta stemmningu. Um leið og Snæfellsliðið sá hver var mættur til að hvetja, hættu þeir að hlusta á þruglið í þjálfaranum, hysjuðu upp um sig brækurnar og unnu þennan leik. Nokkuð gaman að standa og ópa spennulosandi fagnaðar óp! Ég er því þakklát að svo virðist sem að áhorfendur fái ekki á sig villur :(

Annars var sunnudagurinn dásamlegur. Steig loks upp úr rekkju minni, eftir tvísýnan leik við dauðann, og skellti mér á Akranes. Þar hitti ég undurfríðar stúlkur sem skipa afskaplega stóran sess í hjarta mínu. Við erum allar á kafi í samfélagsklósettinu og lofum signt og æ bót og betrum í samvistum. Ég legg mitt af mörkum í umræðuna, lofa lofa lofa. Taka á þessu stelpur, við hittumst oftar á þessu ári en því síðasta! Trú flytur fjöll.

Ég er komin með nokkuð góða leiðindasíu. Mætti í skólan í morgun og hlustaði af athygli fyrstu 15 mínúturnar, þá fór leiðindasían í gang. Leiðindasían er þannig að maður heyrir bara skemmtileg orð fyrirlesara. Eitt og eitt orð á stangli sem ekki er í samhengi sem vel má flissa af. Lágt þó. Sé lesturinn í lengra lagi má grípa í gamla dagdrauma sem ekki hefur verið sinnt sem skildi.
Ég vona af öllu hjarta að ég verði betri kennari en ég er nemandi.
........takk fyrir að lesa.

sunnudagur, janúar 25, 2004

Sælt veri fólkið

Flensan bankaði uppá ekki alls fyrir laungu og hefur haft það náðugt. Svona fyrir utan flensuna á það sama við um mig.

Afrekin hafa verið fá og lítil undanfarna daga. Helgin tekin með trompi, maður byltir sér og snýr, horfir á endursýningar skammlaust

fimmtudagur, janúar 22, 2004

Blóðskuld er dauðasök.

Lifið heil

þriðjudagur, janúar 20, 2004

Sæl veriði
Það hefur gengið á með kvefi og nefrennsli undanfarna daga. Stíflan verið það slæm að lystin á kaffi og sígó hefur dvínað. Ekki það að maður láti það eftir sér að líta út fyrir að vera kveif og gefa eftir. Sterkara kaffi segi ég er allra meina bót.

Andlegt plan mitt er komið á hnuhh stigið. Við hjónaleysin fórum í púl og inn gengu óharðnaðir unglingar, málaðir meira en Harpa Sjöfn gæti státað af, með sígarettuna í munnvikinu, g- strenginn upp að hnakka og ég hnuhhhaði bara. ,,Ekki var ég nú svona á þeirra aldri" (fyrir þá sem þykjast ætla að hanka mig þá minni ég á sjöáraregluna og g- strengur var ekki til í mínu ungdæmi).

Ég stóð og dáðist að öðrum líkamsræktarfrömuðum í dag,fyrir aðeins 900 þúsund kr. klukkustundin, drakk vatn og brosti. Ég fann það í hjarta mér að ég hefði allt eins geta svitnað jafnmikið og gæjinn við hliðiná en ...... hreinlega sá ekki tilganginn! Þó hef ég hannað stíft prógram til að fylgja eftir, aðallega til að geta lesið það og breytt því. Markmið dagsins var að mæta og brosa. Bros teygir aldeilis á vöðvunum og næst ætla ég að hlægja örlítið, hver veit nema að í lok tímabilsins að ég taki í höndina á einhverjum jakanum.

Ótála er hiklaust
Hafið það gott.

mánudagur, janúar 19, 2004

Minn tími mun koma

föstudagur, janúar 16, 2004

Jæja góðan daginn

Það kom að því að heimurinn færi til fjandans
Það er kalt uti, byrjað er að rétta yfir Mikjáli Jakason, Clinton er í skyndibitastraffi og skrattinn hitti ömmu sína í fyrsta sinn í nærri 1500 ár. Ja hérna hér.

skirja mun vera skerála, óstillt ær eða kvíga, getur verið bryðja og kvenskass. Það að vera skirjulegur er að vera stór og klunnalegur! Haha, alltaf gaman að fræðast.

Ég komst að því í dag að Kiljan væri leiðinlegur, Davíð Stefánsson lygalaupur og Tómas Guðmundsson náttúrulaus perri......nú er allt breytt.

Guffa gæs, nauðlenti hérna fyrir utan sem og oft áður. Sagðist svöng og óhress með að vera ekki í félagsskap hinna sem lágu niðrá tjörn og heimtuðu brauð. Guffu þótti alveg sjálfsagt að húsmóðirin í L4 tæki við af ofdúðuðum ómálga börnum. Fyrsti bitinn var vart fallinn á freðna jörðina þegar að 50 aðrar gæsir (sem ekki verða nafngreindar hér) lentu á brautum eitt og tvö og heimtuðu sömu þjónustu.
Það rann upp fyrir mér að ég hafði heyrt þetta nafn áður Guffa gæs var í raun Guffa Glæpagæs og margþekkt fyrir að sitja fyrir saklausum námsmönnum og sníkja mat með vini sína í felum. Mig rak í rogastans og kom ekki upp orði. Úti stóðu þær og görguðu, ég inni tárfellandi yfir svikunum
Góða helgi


fimmtudagur, janúar 15, 2004

Ég reyni að vera jákvæð, brosandi, halda maganum inni og vera hress. Ég reyni að líta léttvægt á eigin mistök og hrakningar. Ég taldi mig nú nokkuð heppna svona almennt, en þá byrjaði ég að blogga og gat skrifað niður atburði dagsins og seinna rifjað upp allt það sem heilinn var annars búinn að strika út.
Tökum daginn í dag, ég mætti stundvíslega í bekkjartíma. Settist niður og byrjaði að hlusta af athygli. Mér þótti gruggugt hve fáir sem ég þekkti voru mættir en hugsaði með mér að allt væri það pakk og letin að gera út af við það. Legg við hlustir og efnið bara nokkuð athyglisvert. Þegar ég fæ mætingarlistann í hendurnar var mér ekki boðið. Einelti í skólastofunni líðst fram eftir öllum aldri og af kennurum! fojjjjj. Ég sem umhyggjusöm vinkona ákvað að senda tossunum sms þess efnis að ég hefði í það minnsta meikað það í tíma og vildi af einskærri ástúð athuga hvort ekki væri allt í lagi. En þá fékk ég þau tíðindi að tíminn okkar byrjaði ekki fyrr en eftir hádegi. Hvað gerir maður þegar það rennur upp fyrir manni að maður er í tíma með fólki sem maður á ekki að vera í tíma með? Að sjálfsögðu vill maður ekki uppljóstra eigin mistök. Enn síður vill maður ekki sitja tíma að ástæðulausu og jafnvel læra eitthvað að óþörfu, nei takk. Svo til að vekja ekki á mér óþarfa athygli, feikaði ég hringingu frá landspítalanum og sagðist hafa fengið fréttir af eigin dauðsfalli og gekk út. Flestir þögðu og gerðu sér grein fyrir mikilvægi brottfarar minnar.

En ég man eftir því að dagurinn í dag er besti dagur ævi minnar

miðvikudagur, janúar 14, 2004

Algi mun vera þörungur. Hressandi upplýsingar.

Fyrsti dagur skóla. Mætti hálf níu nokkuð brött. Ég var ekki jafn hress um hádegi þegar ég hafði setið í loftlausum fyrirlestra sal, nær dauða en lífi. Spennandi vikur framundan í lærdómi og öðrum þrældómi.

Það virðist vera sama hve mikið ég reyni að fá fólk til að vorkenna mér og aumkuna sig yfir mig. Ekkert gengur. ÉG styn, kveinka mér, leggst jafnvel í gólfið og græt yfir eigin eymd. Alltaf sama svarið ,,það er ekkert að þér stelpa- stattu upp"

Ég fékk sms í dag þar sem viðkomandi óskaði mér 1000x til hamingju með árangurinn og velgengnina og var að velta því fyrir sér hvort það væri einhver sér staður þar sem stuðningsmenn mínir ætluðu að hittast. Verð nú að viðurkenna að þetta gladdi mitt auma hjarta eitt augnablik og fór að velta upp afrekum mínum. Í huganum var ég byrjuð að skrifa ræðu um hverjum ég ætti að þakka þessa velgengni og hvar ég ætti að gráta af gleði....þá rann upp fyrir mér að þetta sms var ætlað Kalla í Ædol en ekki mér
....síðan hef ég grátið og snökkt...
.... gott að fólk vilji fagna Kalla ekki mér....
sem og fyr fæ ég enga vorkunn :s

Hafið það gott heilbrigða fólk

þriðjudagur, janúar 13, 2004


ÉG var búin að blogga fullt með miklum lýsingum, set á ,,birta" og þá hverfur allt. Ekki minn dagur svo ég stikkla á stóru

Finn dagur í áheyrn
gott að hanga á kaffihúsi
lendi í árekstri
bílinn krojnk
löggan kemur
mér illt í bakinu
fer á slysó
yfirheyrsla
læknanemi
ennþá læknanemi
vildi ekki fara úr að ofan
læknanemi ítir þar sem mér er illt
lélegt læknismat
gerði betur sjálf - er í það minnsta dauðvona
er enn illt
held áfram að vorkenna mér
vorkenni mér meira

þið megið líka vorkenna mér.
enn ein sagan í ævisöguna

mánudagur, janúar 12, 2004

Góðan daginn!
Mánudagurinn hefur lítið boðið upp á mæðu en ég treysti á kvöldið.

Kannski hún síla (Shelagh) komi bráðum heim. Hún fór sérstaklega til S- Afríku og ég verð að segja að hún hefur bara verið nógu lengi þarna í burtu. Ég hlakka til að heyra frá henni.

Ég þurfti að skjótast niður í kjallara nú rétt í þessu sem á að vera EKKERT mál. Tíu tröppur eða svo. tólf skref og ferðinni lokið. Hamingjan hún ég legg af stað í rólegheitum, byrja á fyrstu tröppunni og þeirri annari og allt gengur vel. Þriðja reynist andsetin, ég fipast, sé líf mitt renna hjá og er tilbúin að væla undan bakverkjum út árið. Næ að fálma höndunum í átt að handriðinu, gríp með vinstri í rimlana og BÚMM. Ég lenti ekki harkalega á bakinu en fékk í staðin fría ferð niður þær tröppur sem eftir voru. Fyrstu viðbrögð voru að athuga hvort einhver hefði verið vitni en ég slapp. Hvað kennir þessi saga okkur? Konur hafa ekkert niður í kjallara að gera, hvorki nú né seinna.

Það að krómsa mun vera að krunka.
Farið vel með ykkur

sunnudagur, janúar 11, 2004

Jæja
Helgin á enda og myrkrafötin komin inn í skáp. Nú setur maður hárið í hnút, fer í drakt og heldur áfram eðlilegu lífi.
Helgin var svona dæmalaust skemmtileg, tók landsbyggðarúnt og skellti í mig r*****ni eins og sönnum skörungi sæmir. Fræddist vel um keisaramörgæsir og er það vel. Þó sannaðist enn sem fyrr að þeim dugir ekki dagur sem drekka fram á nótt.

Ég er byrjuð á ævisögu minni, ekki seinna vænna og stefni ég að því að gefa hana út fyrir jól. Titillinn verður eitthvað á þá leið; Freyja, fann friðinn eftir frostið. - Soffía; myrkraverk og mannúð. - Ég í sannleika sagt eða afhverju eru allir alltaf svona vondir við fórnarlambið mig! Endilega látið mig vita hvaða titill ykkur þykir bestur eða komið með hugmyndir, það á enn eftir að prenta forsíðuna. Í þessari bók verður talað um í fyrri kafla afrek mín í samfélaginu, þegar ég útskrifaðist úr grunnskóla, vann í fiski, neitaði bónorði og fleira. Seinni kaflinn verður aðallega um hve mikið fórnarlamb ég er og hvað ég hef átt bágt þarna á botninum, en ég jafna mig að sjálfsögðu, fer í líkamsrækt og lifi hamingusöm það sem eftir lifir bókar.

Vorið er að koma, full ástæða til að gleðjast.
p.s. engin ábyrgð er tekin á textanum. Skoðanir sem hér birtast endurspegla ekki skoðanir stöðvarinnar!

föstudagur, janúar 09, 2004

Jæja lömbin góð.

Upp er runnin föstudagur, nokkuð skýr og fagur. Sem og flestir er ég hægt og rólega að komast upp á lagið með að vakna fyrir átta að morgni.

Áheyrnin er hafin og hef ég gaman af. Fjörugir og skemmtilegir krakkar en helst til smáir. Ég bý yfir þeirri ógæfu að slaga hátt í tvo metra og vera ekki með augu undir hökunni og er því nokkuð skelkuð yfir tilhugsuninni að hreinlega stíga á þetta smáfólk. Fyrir vikið eru hreyfingar mínar hægar og þokkafullar þó ég segi sjálf frá.

Þrátt fyrir skammdegi og yfirlýsingar um framkvæmd myrkraverka finn ég að vorið nálgast. Þetta veit ég því draumar mínir sem almennt blunda veikir yfir vetrartímann eru vaknaðir. Nú er kominn tími til að drífa sig til útlanda og vera lengi, drífa sig í að kaupa íbúð, skipta um ham og ímynd, kaupa bíl og blablabla. Ég veit að einn daginn verð ég kennari og launin vonandi mannsæmandi og þá get ég gert allt sem hugurinn girnist. Takk fyrir að rífa mig niður á jörðina, öllu er tileinkuð stund.

örvani mun vera hrumur maður.
Hafið það gott og góða helgi

fimmtudagur, janúar 08, 2004

Dagurinn í dag er besti dagur ævi þinnar. Notaðu hann rétt.

þriðjudagur, janúar 06, 2004

Sæl að nýju

Við hjónaleysin lentum í ófærð á leiðinni heim nú í kvöld og um tíma stefndi í óefni. Í slíkum heljaraðstæðum á fólk það til að stynja út úr sér orðum, jafnvel ljótum í hitaleiksins....við erum orðin gömul...og siðsöm. Í verstu hremmingunu sagði Helgi,, ja hérna" og ég honum til stuðnings svaraði með,,ja hérna hér".

Mest allt jólaskraut er komið ofaní kassa nú tekur við dimmur tími...sem er ágætt ég get þá framið öll mín myrkaverk í skjóli nætur og þunglyndis.

Samviskubitið rak mig í ræktina í dag og ég eignaðist vin. Þar stóð ég í búningsklefanum, nokkuð fáklædd og virðuleg kona skrækti uppyfir sig af mikilli undrum ,,þú ert í sitthvorum sokknum!" Ég sá að þarna var vel gefin og skemmtileg kona á ferð og sá mitt óvænna og stundi lágt ,,er það" Þernan hlýtur að hafa verið drukkin þegar hún klæddi mig í morgun!" Og nú á ég nýjan vin. (arg hvað ég er fyndin..t.a. þessi saga er að hluta til byggð á sönnum atriðum, nöfnum persónna hefur verið breytt, allur réttur áskilinn.)

Málsháttur dagsins er hroki vex þá hækkar í pyngju og á við þegar menn(flottræflar) hreykja sér í krafti peninga.
:)

mánudagur, janúar 05, 2004

Jæja þá fer þessu jólafríi að ljúka. Ljómandi frí. Hitti mikið af fólki sem mér þykir vænt um, borðaði góðan mat, spilaði og las mér til ánægju og yndisauka. Ekki má gleyma sjónvarpsglápinu góða.
Ég er orðin svo þjálfaður sjónvarpssjúklingur að endursýningar í þriðja sinn fara ekkert fyrir brjóstið á mér lengur. Er það ekki bara kostur að geta talað með heilalausum sjónvarpsþáttum og hlegið með..aftur og aftur. Ég held það.

Eins og þorri íslendinga skellti ég mér í ræktina í dag svona rétt til að hlaupa burtu móralinn og það var svona líka stór hressandi.

laugardagur, janúar 03, 2004

AAAAAAARGG!
Það er laugardagsmorgun og samkvæmt öllu ætti ég að vera sofandi, já sofandi. Sofandi af því að ég á það skilið, sofandi því fegurðin vex, sofandi því það er afþreying, sofandi því ég er að fara á næturvakt, sofandi í ljósi þess að allt hitt heilbrigða fólkið er líka sofandi. En ég er vakandi, get ekki fyrir mitt litla líf sofnað aftur og reyni að rökstyðja það fyrir sjálfri mér að þetta sé ekkert slæmt. En það er það. OJBARA VAKANDI. Það er laugardagsmorgun. Ég ætla ekki einu sinni að þykjast vera hress.....ojbara vakandi.

Spilaði trivial endalausa í gær, eftir að sigurinn var ljós ákváðum við tvær að klára leikinn, stutt væri eftir. En okkur var ekki viðbjargandi. Við gátum ekki hitt á kökureitinn þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að plata tenginginn. Í þau skipti sem, við fyrir mistök, lentum á köfureit var spurningin að sjálfsögðu í anda lífs utan súrefnis og aftur hófst teningakastið. Gáfuleysi okkar varð til þess að við fórum í gegnum allar spurningarnar og getum aldrei aftur spilað Trivial þannig að sanngjarnt sé. Afhverju lendir allt óréttlæti heimsins á henni mér? Skil þetta ekki.
Orð dagsins er aurgoði sem er lubbi, óþokki.

Ég fékk ekki fálkaorðuna fyrir framlag mitt til íslenskrar tungu því er ég í brjáluð hvaða orðu ætti ég að gera tilkall til næst?


fimmtudagur, janúar 01, 2004

Gleðilegt ár!

Það er ósköp notalegt að fagna nýju ári liggjandi í sófanum á náttbuxunum með kók fyrir framan sig. Nokkuð reglulega veltir maður sér yfir á hina hliðina, vil ekki legusár. Gærkvöldið var yndislegt eins og við mátti búast, stórgóður matur ala mamma. Sem og svo mörg önnur ár missti ég af skaupinu því ég var að keyra á milli staða. Ljós í myrkrinu að ég er nú nokkuð skemmtileg og því leiddist mér ekki meðan skaupið var.
Líklegt má telja að andvirði flugelda gærdagsins hafi slagað vel yfir hallarekstur landspítalans. Enga að síður stórskemmtilegt að horfa á og upplifa. Er ekki frá því að meira hafi verið sprengt í ár en í fyrra. Nema að minnið svíki mig. Ég lagði mitt af mörkum. Við mættum vösk og keyptum tvær tertur og svo stjörnuljós fyrir afganginn eða um 2000 krónur.´Þegar litið er til þess að sem sjódýr gæti maður þurft á þjónustu landsbjargar að halda styrktum við hjálparsveit skáta SÓLHEIMUM. Man þetta næst.

Alltof fjáðir nágrannar mínir virðast lifa í þeirri blekkingu að maður hafi gaman af því að heyra sprengingar án afláts á fjórða dag. Ég vil ekki vera vanþakklát en svona sprengingar fara ekkert vel með þynnkuna.

Orð dagsins er dúsía sem er aukaborgun / uppbót. Ef einhver telur sig hafa fengið of mikið af dúsíu er tekið á móti frjálsum framlögum.