föstudagur, desember 12, 2008

Glitnir vinur minn sendi mér jólaóróa. Mikið var það nú fallegt. Ég hefði svo sem alveg treyst mér í að gefa andvirði óróans til þeirra sem töpuðu lífeyrinum sínum. Telji einhver sig geta selt óróann fyrir einhverja dollara má hinn sami gefa sig fram. Hann er falur gegn framvísun pósts frá lífeyrissjóðunum.
Annars geymi ég óróann til minningar um að bankinn er hættur að vera vinur minn.

Við fengum líka dagatal frá gamla vini okkar Glitni. Þar segir ,,við erum stolt af framlagi okkar til málefna sem efla samfélagið". Mikið er gott að Glitnir er stoltur af sjálfum sér því ég er ekki viss um að aðrir séu það. Meðan Glitnir eflir samfélagið þarf ég ekki að hafa áhyggjur. Ég á óróa.

Við fórum á Tapas-barinn í kvöld. Góður félagsskapur, góður matur og gott kvöld í alla staði. Lea litla hafði engan áhuga á því að sitja til borðs með okkur. Togaði okkur að útidyrahurðinni, inn í sal og hló og skríkti svona þegar hún náði að toga einhvern með sér.

Fyrir nokkrum árum sat ég á Tapasbarnum með Trallalinski og fleirum góðum, borðaði góðan mat, drakk bjór og hann sagði sögur og við hlógum. Gaman að hlæja eins og skáldavinur segir svo oft.

Þá var gaman, nú er gaman. Bara ekki eins gaman. Öðruvísi gaman.