þriðjudagur, maí 31, 2005

sól sól skín á mig

nú sem og aðra daga. Lífið er svo ljúft að nú legg ég mig fram um að fá veðurvélina hennar Gríshildar til að virka, hún verður þá helst að starfa á veturnar, allt í vinnslu.

Ég hef formlega gefið atvinnuleit mína upp á bátinn. Hver nennir að vinna þegar hann getur látið sólina skína á sig á vinnutíma? Svari hver fyrir sig.

mánudagur, maí 23, 2005

Sól og sumar

mann langar að ganga um tún og engi en verður að skella sér í sund. Þá er líklegast best eftir það að klæða sig upp og svipast eftir vinnu.
Ef einhver veit af vinnu þar sem laun eru svimandi há, endilega látið mig vita. Svo er stuttur vinnutími og engin helgarvinna skilyrði, hádegishléið verður að vera langt og maður verður að geta tekið gott sumarfrí. Þá er nauðsynlegt að vinnutíminn sé sveigjanlegur og lítil áhersla lögð á mætingu, stundvísi, áreiðanleika.

Síminn er 555-5555

föstudagur, maí 20, 2005

Ég er víst einskis virði

og nokkuð fúl yfir því.

miðvikudagur, maí 18, 2005

Ekki í boðinu

Gaurinn á efri hæðinni bankaði uppá hjá mér í dag og spurði hvort það væri ekki í lagi að hann tæki vatnið af í 5 mínútur. Þar sem ég þykist þekkja iðnaðarmenn lagði ég við uppgefin tíma 55 mínútur og taldi mig geta lifað þetta af.
Svo leið og beið og ekkert stóðst, ég hef sjaldan þurft eins mikið að pissa, tannbursta mig, setja í vél, vaska upp, hella upp á könnuna og akkurat þegar ekkert var vatnið.
Nú þegar vatnið er komið má þetta allt bíða

sunnudagur, maí 15, 2005

Berrössuð á tánum

í sólinni á Akureyri. Ég veit svosum ekkert um hvernig veðrið er úti, ég hef ekki hætt mér nema út á stétt. Vil ekki taka áhættuna á að fá súrefnissjokk.

Við lentum í töfum á leiðinni, alvarlegt bílslys í Hörgárdal. Lögreglumaður kom og veitti umferðinni um gamlan slóða. Hann stóð þarna og útskýrði fyrir fólki hjáleiðina. Hann stóð þarna rjóður og rauðeygður, þreyttur og dapur, álútur og miður sín. Ynjan ætlaði að skutla sér í fangið á honum svona til að vera hughreystandi, trúlega þurfti hann á því að halda. Mannsefnið kom í veg fyrir það með þeim orðum að líkast til færi manngreyið að gráta eftir erfiðan dag.

Það er alltaf erfitt að fara svona að heiman, kettirnir einir og hugsanlegt að þeir verði afvegaleiddir. Undarleg tilfinning að langa að hringja til að athuga hvort þeir dafni ekki ágætlega án okkar. Ég ætla ekki að láta það eftir mér að hringja, ég veit þeir eru í góðum höndum.

Ég sá mér fært að rífa mig yfir því að akureyringar töluðu um malpoka sem í mínum huga er bara pokapoki og tvítekning í sama orðinu, en fussum svei þá er malpoki annað orð yfir mal eða poka. stundum er lífið gert óþarflega flókið.

Malpokaynjan

miðvikudagur, maí 11, 2005

Ljósberaholunni skellt í lás

Blóðið hafði lekið úr ynjunni dagana áður. En nú var komið að því. Hún steig þokkafullt fram úr og tók sig til.
Fínustu sokkabuxurnar, pilsið góða og undurfagur bolur. Nokkuð sumarlegt. Farðinn var vandlega settur á andlitið, ríflega í tilefni dagsins.
Hún tók disklinginn sinn og skeiðaði af stað í næstu prentsmiðju. Ungur drengur skildi lítið afhverju brosið náði hringinn þegar hann var beðinn um að prenta. Kerla tifaði fram og til baka, sveif eins og fluga meðan á biðinni stóð.
Skrefin inn í skólann voru þokkafull, létt. Undir höndum hafði hún ritgerðir tvær, innbundnar samkvæmt öllum stöðlun. Afgreiðsludaman tók við verkunum, rétti ynjunni pappíra til undirskriftar og brosið breikkaði ef það var hægt.
Hún leit í kringum sig, horfði á starfsfólkið sem aldrei hafði verið svo fagurt sem og nú. Nokkuð fögur orð látin falla og daman flaug út.
Hún hafði ekki séð þennan dag áður, hann var einstakur og ákveðið að fá sér kaffi í tilefni tímamótanna. Deginum eitt í að þiggja hamingjuóskir og veita, ræða um sömu tilfinninguna aftur og aftur. Veðrið var gott, en íslenskt, einstaka él til að undirstrika hve sérstakur hann væri.

Sem og góðum hátíðum sæmir var haldið upp á daginn með móðurmyndinni á veitingastað, mikið hlegið og brosað, kaffi innbyrgt sem og í síðasta sinn.
Haldið heim aftur höfuðið lagt á koddann eftir góðan og fagran dag.
Lokaritgerðin frá, þriggja ára nám að baki og stutt í útskrift, hver hefði trúað því að sá dagur kæmi?
Ef einhver var ynjan ljúfa ekki í þeim hópi.

En tilfinningin er góð, skrambi smellin.

mánudagur, maí 02, 2005