fimmtudagur, mars 29, 2007

Lúðinn

Skilst að vefritlur séu góður vettvangur fyrir játningar. Kannski ekki sniðugt að játa á sig morð en allt minna en það er hreinsandi fyrir sálina.
Í ljósi þess hve maður leggur mikið upp úr því að sálin skíni hrein og björt er rétt að játa

Ég er lúði

Engin ástæða til að púa þó einhver hafi verið búinn að átta sig á því. Gerði þessa merkilegu uppgvötun sjálf á dögunum, það skiptir máli.

Eins og þegar ég fann upp hjólið hér um árið. Geri mér fulla grein fyrir því að það hafði verið gert áður. Ég hafði bara aldrei fundið upp hjólið.

En að lúðanum.

Í tösku á Íslandi eru tvær malt og tvær appelsín og þær eru á leiðinni til Taívan fljótlega.
Ég er í Taívan og ég á þessa drykki og undanfarna daga er ég búin að láta mig dreyma um hvernig drykkirnir, þó ekki göróttir, renni ljúflega niður kverkar mínar.

Veit hvernig ég ætla að segja ahhhh! á eftir. Er vopnbúin svona til öryggis ef einhver annar ætlar að smakka.

Það er ekki töff að fá sent öl og gos að heiman. Kúltúveraða fallega fólkið sem er á kafi í nýrri og framandi menningunni fær ekki sent Malt yfir heiminn þveran.

Reyndar er súkkulaði og Ópal með en það er ætlað bekkjarfélugunum. Þær eru alltaf að töfra fram te eða undramat svo ég verð að geta boðið upp á eitthvað. Stefni að því að láta þær fá harðfiskinn líka, en lofa engu.

Ekki mjög töff heldur að fá þurrkaðan fisk sem maður borðar lítið af. En þetta er fyrir gestina.

Er enn að velta því fyrir mér hvort ég eigi ekki örugglega að geyma lakkrísinn fyrir mig. Get skrifað langan pistil, uppspunninn frá rótum, um viðbrögð vina og félaga við því að eta lakkrís, hef séð það áður svo það ætti ekki að vera erfitt. Sitja svo útþanin með prumpuna ein og glotta út að eyrum því lakkrísinn var alltaf minn.

Nei þetta gerist ekki mikið verra. Nema kannski fyrir endurupplifunina af því að vera í sveit. Á sætar minningar frá því í sveitinni að hafa fengið pakka einmitt með Malti, súkkulaði og lakkrís innanborðs. Gott ef það fylgdi ekki bréf með en hver man það almennilega. Pakkinn var stór og kvöldin á eftir unaðsleg.

Nú þegar búið er að játa durgs og heimóttarhátt er óþarfi að fara í felur með það að ekki er allt upp talið.

KuBB er líka á leiðinni.

Já finn líka lúðalykt ennþá

Vonandi að hún verði ekki stoppuð í tollinum, sælgætið hirt og KuBBinu hent... þá er heimsóknin til einskis og tilhlökkunin að mestu fyrir bí.

Að mestu

Kveikjum á kertum

þriðjudagur, mars 27, 2007

Hér væri gott að hafa langa og skemmtilega bloggfærslu um innihaldsríkt líf Ynjunnar. Frækna sigra og aðra landvinninga. Sögur af svaðilförum og háskaleik.

Því miður verður dyggum aðdáendum ekki að ósk sinni í þetta sinn. Það hefur gerst áður.

Líf Ynjunnar er tilbreytingalítið og fábreytilegt, sökum rigninga og prófa.

Byrjar aftur á laugardaginn 31.mars

Já mér, mig og ég hlakka(r) svo til

Malt og Appelsín hmmmm

sunnudagur, mars 25, 2007

Nöfn eru mikilvæg.
Í Taívan sem og annarsstaðar í heiminum leggja foreldrar sig fram við að finna nafn á afkvæmið sem það getur svo borið nokkuð skammlaust það sem eftir er ævinnar.

Þegar Taívanar velja nöfn á börnin sín fara þeir oftast eftir því hvernig nafnið tónar saman, svo er horft eftir merkingu nafnsins og svo hvort það beri gæfu.

Það er mjög algengt að leitað sé ráða talnaspekinga, nafnasérfræðinga og andans manna við val á nafni. Eftir miklar spekuleringar fæst niðurstaða. Eitthvað ákveðið nafn kemur til að veita viðkomandi barni byr undir báða vængi.

Stundum segja andans mennirnir eftir á að nafnið sé ekki nógu gott, þetta eða hitt á eftir að gerast því nafnið er ekki rétt. Til að koma í veg fyrir stórslys, skiptir fólk einfaldlega um nafn og nær þannig að fela sig fyrir ógæfunni. Heppilegt.

Í Taívan er líka lögð mikil áhersla á enskukunnáttu. Allir sem vettlingi geta valdið senda börn sín í enskutíma og leggja hart að þeim.

Einhverra hluta vegna heldur fólk ekki nafninu sínu þegar það er í enskutímum eða að tala við útlendinga.
Þessi ráðhögun gæti verið til einföldunar og þæginda.... hvað sem því svo veldur.

Til dæmis heitir ein vinkona mín Chen(eftirnafn) Rei Shen en kynnir sig sem Susie Chen. Önnur heitir Mei Yu og gengur undir nafninu Tina, svona mætti endalaust telja.. líklegast er Jackie Chan þekktastur í þessu samhengi en á móti kemur að hann er frægur og ekki óalgengt að hollívúddstjörnurnar breyti nafni sínu í markaðssetningarhugleiðingum.

Sama hvað manni finnst um þessa tvínefningu þá verður að segjast að nafn hvers og eins er mjög mikilvægt af hvaða uppruna það er.

Þetta getur klikkað, sama hver ástæðan er. Stundum eru kennarar hugmyndasnauðir, vita ekki betur þegar kemur að nöfnum, stundum velja foreldrar nöfnin og einnig nemendurnir.

Hér eru ,,ensk" nöfn nokkurra valinkunna einstaklinga sem ég hef rekist á í Taívan. Flestir eru ennþá í grunnskóla en einhverjir á svipuðum aldri og Ynjan fagra....


Dragon

Hammer

Flower

Kiwi

Mermaid

Hamburger

Nemo

Beautiful

Butterfly

Snoopy

Nike

Five

þriðjudagur, mars 20, 2007

Fiskiflugur senda sveitastúlkuna í heimahagann.

Jinmen lyktaði hvorki eins og fiskur eða slor.
Hressandi norðangarinn minnti á að stutt er í heimsókn vinkonunnar.

Eyjan Jinmen liggur suðaustan við Kína, hjá Fujin-héraði en tilheyrir Taívan. Eyjan var undir herlögum fram til 1996 og ferðir til og frá eyjunni bannaðar nema þær væru í nafni hersins. Einn fjórði hluti eyjunnar er nú þjóðgarður.

Við vorum rétt lentar þegar heimamaður benti okkur á að eyjan geymdi marga drauga. Við yrðum að vera tillitsamar í allri umgengni. Bardagar milli Taívan og Kína áttu sér stað á eyjunni, margir féllu í valinn.

Eyjan ber þess merki að vera herstöð. Varað er við jarðsprengjum víða og fólki bent á að fara ekki í könnunarleiðangra. Flestir akrar með stöngum með þremur göddum upp úr til að koma í veg fyrir að fallhlífastökkvarar geti lent. Meirihluti strandlengjunnar ekki aðgengilegur almenningi. Varnargirðingar um allt.

Manngerð göng eru sögð liggja um alla eyjuna. Fæst eru opin almenningi en nokkur þó.
Gengum í gegnum 140 metra löng göng sem voru þröng og köld. Náðum að flytja okkur tvær götur frá.

Frá Ma Shan stöðinni er hægt að horfa yfir til Kína. Þegar við horfðum yfir til Kína í agnarsmáu skýlinu kom hópur af hermönnum í skoðunarferð. Þeir voru allir einkennisklæddir en yfirbragð þeirra bar með sér að þeir voru á frívakt. Flissuðu, fífluðust og hlógu.
Einn tók af skarið og spurði hvort hann mætti taka mynd af okkur. Lítið mál gegn því að fá að gera slíkt hið sama.

Þeir gegna herþjónustu á litlu Jinmen, eyju rétt við Jinmen. Þar hafast þeir við í göngum. Flestir höfðu lokið hálfu ári í herþjónustu og áttu annað eins eftir.
Átján ára strákur, smávaxinn og samanrekinn, skóf ekkert utan af því. Hann viðurkenndi að hafa grátið fyrir framan hershöfðingjana sem ákvörðuðu hvar hann átti að þjóna. Margir kinnkuðu kolli eins og þeir hefðu verið í sömu sporum. Hann játaði líka að hafa átt erfitt með að halda aftur af tárunum þegar hann steig fyrst á eyjuna.

Komum við hjá Meistara Wú.

Í seinni heimstyrjöldinni var skortur af ýmsu tagi en stálskorturinn var sárastur. Meistari Wú fór að safna sprengikúlum sem flestum hafði verið skotið af Bandaríkjamönnum. Úr sprengikúluafgöngunum bjó hann til hnífa.

Árið 1958 sendu Kínverjar kveðju sína með fallbyssuskotum og fleiri sprengjum sem skildi eftir mikinn fjölda af sprengjubrotum sem nýta mátti í hnífagerðina.
Enginn stálskortur á Jinmen eftir það en á svipuðum tíma var Kína í sárri nauð.
Enn í dag eru hnífarnir handgerðir, ekki lengur af Meistara Wú heldur afkomendum hans. Hnífarnir njóta mikilla vinsælda víða.

Hnífagerðarmaðurinn, sem töfraði fram kjötöxi á örstuttum tíma fyrir okkur, glotti þegar við spurðum hvort enn væri nóg um birgðir ,,jú enn um sinn, magnið var svo mikið að við þurfum ekki að örvænta á næstunni".

Gerði dauðaleit að otri. Otrarnir á Jinmen eru í útrýmingarhættu. Mér stóð á sama, ég hafði trú á því einn myndi sýna á sér smettið. Leitaði og leitaði, beið og beið, brosti og engdist um af tilhlökkun.
Ekki nokkur maður sá sér fært að benda mér á að otrar hafa sig að mestu í frammi á nóttunni.
Ég sá mikið af fuglum meðan ég beið.

Hafi ég uppgvötað nýja fuglategund fær hún heitið beðiðeftirotri-fugl. Það gleymist ekki svo glöggt

fimmtudagur, mars 15, 2007

Eitthvað minna um að vera hér. Skólinn að ganga frá mér lifandi.

Elska þetta mottó... ef það er engin pressa læriru þá?

Flippi ég yfir um kem ég örugglega til með að skrifa kínverska karaktera í tíma og ótíma upp um alla veggi.

Fór með félaga mínum í gær að kaupa hund, hann var búinn að spá lengi í að kaupa sér hund og ákvað svo að láta verða að því. Hundurinn fannst og allir sáttir og glaðir.

Svo hringdi félaginn i panikkasti og vildi hvolpinn út. Gat ekki axlað þessa ábyrgð. Hvolpurinn vældi og skeit eins og honum sýndist.

Líkast til fer hvolpurinn í dýrabúðina aftur í dag.

Tvö próf í dag, eitt á morgun

Próf á dag kemur skapinu í lag

sunnudagur, mars 11, 2007

Alveg kominn tími á að líta upp úr bókunum.

Til þess að geta látið hinn heilaga lærdóm frá sér verður maður að hafa afsökun.
Hún stökk upp á vespuna sína og áður en hún vissi af stóð hún fyrir utan hárgreiðslustofu.

Þori ekki inn.

Af hverju er allt erfitt í fyrsta sinn eftir að hann fór? Hún skildi svo sem að það væri erfitt að hitta fólk í fyrsta sinn en að það sé erfitt að fara í klippingu í fyrsta sinn er óþarfi.

Því spígsporaði hún aðeins fyrir utan og minnti sjálfan sig á kærleikann og hvað hún væri mikil forréttindamanneskja.

Klipparinn brosti út að eyrum og sagði allt of langt síðan hún hefði komið í stólinn til sín og innti hana svo eftir því hvernig klippingu hún vildi.

Vopnuð japönsku tískublaði benti hún á mynd af hugglegri stúlku en klipparinn hristi höfuðið. ,,Þessi klipping kemur ekki til með að fara þér vel" sagði hún og hló.

Nú já ekki það? Hún var hálfkomin ofan í blaðið þegar hún benti klipparanum á aðra mynd og enn hristi klipparinn höfuðið og hló.

Jæja já, vilt þú þá ekki bara velja fyrir mig klippingu sagði hún með þjósti og hálffleygði frá sér blaðinu.

Tekin á orðinu og áður en hún vissi af var verið að nudda á henni höfuðleðrið.

,,Þú ert með undur fagra eyrnasnepla" sagði klipparinn lágt og brosti.

Hún opnaði annað augað og gretti sig ,, já svona sem þú getur flogið á" sagði hún og ætlaði ósjálfrátt að grípa fyrir melónurnar sem flestum eru huldar.

,,neinei alveg satt. Þú átt eftir að verða rík. Þú ert eins og búdda um eyrun"

Búdda, hún og búdda.

Svo sat hún skjálfandi af ótta og horfði á klipparann toga í hárið á sér og dásama hve þunnt og mjúkt það væri. ,,Eins og á barni".

Án nokkurrar viðvörunar rak hún skærin í mitt faxið á henni og án þess að geta nokkuð að gert var hárið farið á innan við fimmtán mínútum.

já já þetta er svosem ágætt.

Svo hófst klipparinn handa við að blása og krulla og blása og snúa, væntanlega allt eftir kúnstarinnar reglum.

Hún borgaði 450 krónur fyrir þjónustuna.

Það borga ekki allir 450 krónur fyrir að líta út eins og rolla um hárið. Rolla á vondum degi.

Forréttindi og ekkert annað.

föstudagur, mars 09, 2007

Hvað gerir þú við peningana og tímann sem frúin í Hamborg gaf þér?

Einn daginn dey ég. Ég er svo gott með það á hreinu að ég lifi ekki að eilífu. Áður en sá tími kemur langar(ætla) mig að gera undra margt. Geri mér grein fyrir því að það er heimtufrekja þar sem ég hef enga tryggingu fyrir því að minn dagur sé ekki á morgun.

Ég geri mér líka grein fyrir því að nú þegar hef ég gert meira en meirihluti heimsbyggðarinnar. Bara það að ég hafi átt þess kost í morgun að velja mér morgunmat eru forréttindi.

Langar samt. Því kemur hér mjög stuttur listi yfir það sem ég ,,þarf" að gera áður en ég dey eða bara í nánustu framtíð, það virkar alveg líka.

- ferðast um gjörvalla Afríku, byrja í Marokkó og enda í Suður- Afríku.
- rúnta um Tíbet, Mongólíu og Kína. Stoppa í Kirkistan, Úzbekistan og hinum langtíburt-istan-löndunum.
- skrabbla við Gösla og saka hann um svindl.
- fara til Grænlands og Grímseyjar
- læra kínversku almennilega
- lesa Laxness-safnið
- sofa í tjaldi án þess að verða kalt
- búa í útlöndum
- læra dúlluna
- vera í góðri vinnu
- klappa Ljónunum þremur
- hjóla
- opna og reka eigin skóla
- borða hrígrjónagraut og fá slátur með
- kafa í rauða hafinu
- búa í MT

Þetta var bara brot af því besta en vissulega er listinn miklu miklu miklu lengri og breytist mjög reglulega. Mér finnst hann passlega raunhæfur, held samt að erfiðast verði að uppfylla tjalddrauminn...

þriðjudagur, mars 06, 2007

Í fréttum er þetta helst

- ég er á lífi
- það er kalt og rigning
- fjórir dagar í skólanum búnir
- eitt próf búið
- annað á morgun
- það þriðja á föstudaginn
- ég fór í langan göngutúr
- ég móðgaði kennarann minn
- fékk einn japana í fangið og annan frá Okinawa
- mér er kalt á tánum
- Jinmen eftir tvær vikur
- Eggjakaka í morgunmat
- vespan gengur enn
- það þarf að sparka ,,bláa fákinn" í gang
- 2/28 er merkilegur dagur
- Lampahátíðin er líka merkileg
- 24 dagar í Villuna

Fleira er ekki í þættinum í bili
verið þið sæl