föstudagur, desember 31, 2004

Allt sem ég ætlaði að gera í ár.....bíður betri tíma.


Gleðilegt árið og takk fyrir það gamla

þriðjudagur, desember 21, 2004

Jólageðveikin í hámarki. Hámarki! Það tók ynjuna góðu 25 mínútur að koma sér úr kringlunni heim sem á venjulegum degi tekur fimm mínútur. Allir á bíl, allir að flýta sér, allir að troðast.
Flestir útúrstressaðir að reyna að gera allt klárt á síðustu stundu og eyða um efni fram, láta skapið hlaupa með sig í troðningum og svo framvegis. Því er ynjan enn á ný til í að miðla hugmynd til að komast hjá þessu þjóðarmorði.
Hætta að hafa jólin fyrir alla á sama tíma, en allir fá samt jól. Þannig gætu bankastarfsmenn riðið á vaðið og haldið sín jól í september, opinberir starfsmenn í október, sjómenn í nóvember og svo framvegis. Þá er bara ákveðinn hópur að versla og missa sig meðan hinir bíða rólegir, ekki nándar nærri mikið stress.
Ókosturinn við þessa útfærslu er hvernær? Það má leysa með því að hafa jól alltaf síðustu vikuna í mánuðinum og viðkomandi hópur fær frí þá viku. Gott væri að láta öryrkja byrja hátíðina og þá sem minna mega sín, því þá er enginn búinn að eyða aleigunni í eigin neyslu og gæti létt undir með öðrum. Þannig má líka tryggja að allir haldi gleðileg jól. Verslunin er jöfn og þétt, hvíldartími verslunnarmanna í lagi og umferðin passleg.

Í dag er síðasta nótt ársins, fljótlega fer að birta aftur og tilefni til að fagna því. Strax á hinn verður minna dimmt en það er í dag. Svo kemur janúar og febrúar og í mars getur maður brosað. MMMM bjart. Fátt yndislegra en að hafa bjart lengi lengi lengi.

Jólagjafirnar að mestu frá, tvær og hálf eftir, stefnan er tekin að því að klára innkaupin á morgun. Hef gætt þess vendilega að allar þær gjafir sem ég hef keypt séu mér að skapi. Þannig að ef einhver er ósáttur má sá og hinn sami skila gjöfinni og ég verð alsæl í það minnsta. En það má ekki hugsa svona og hvað þá skrifa.
Laavaga

gleðileg jól

miðvikudagur, desember 15, 2004

Tærnar á mér gera mér lífið leitt þessa stundina. Þeim er kalt, sem þýðir að mér sé líka kalt. Það er nokkuð óþægilegt að hafa líkamsstarfsemina undir meðalhita, maður verður eitthvað svo seinn og sljór.
Kannski sést hve lengi ég er að slá inn stafina og loksins gerir maður eitthvað fyrir þá sem eru seinir að lesa.

æj nei þar drap heilinn á sér endanlega í dag.


mánudagur, desember 13, 2004

Það vissu það kannski allir aðrir en ég að þessi dagur myndi renna upp. Nú sit ég í stofunni og verð að játa vanþekkingu mína. Prófin búin. Ég fagna þeim áfanga með þekktri ró, yfir sjónvarpinu blótandi skjá einum. Skil enn ekki afhverju afbragðsgóð stöð þurfti að myrða sjálfa sig fyrir milljónir og byrja að sína fótbolta. En fagnaðarerindið er prófalok.

Það var svona líka rétt í þessu sem ég varð andvíg jafnræði kynjanna og réttlátri skiptingu heimilisstarfa milli heimilismanna. Þessi umbylting varð einhvern tíma milli frétta og þvottavélarþeytingar á ullarteppinu. Kannski má viðhalda jafnræðinu með því að skikka fólk á heimilisnámskeið eða hreinlega í húsmæðraskólann. Muna að bæta húsmæðraskólanum á hollt fyrir allt ungt fólk að gera.

Heimilismenn - og jú kettir hafa það með eindæmum gott og dagna sem og aldrei fyrr. Vonar maður því það er nú hálfsorglegt að veslast upp svona rétt fyrir jólin.

Svona þegar á þá heiðnu hátíð ætlar ynjan að biðja þá sem höfðu í huga að senda henni jólakort að láta það ógert, og í staðinn láta andvirði jólakorts og frímerkis ef við á renna til hjálpræðishersins. Með þetta í huga ætlar ynjan ekki að senda jólakort sjálf.

Sé einhver svo hræðilega óhress með þetta fyrirkomulag að hann verði svefnvana getur sá og hinn sami slegið á þráðinn og jólapósti verður hugsanlega reddað. Þessu ákvæði fylgir einræða símalínu.

Hjálpræðisherinn hefur opið hús á aðfangadag (og yfir hátíðirnar) fyrir þá sem eiga ekki í önnur hús að vernda.

Svo maður vitni nú í stórmenni sögunnar ; þá er svo gott að vera góður.

hertogaynjan


þriðjudagur, desember 07, 2004

Ekki þennan æsing alltaf!

mánudagur, desember 06, 2004

Tossi
Ég held að ég hafi vakið athygli á þessu orði áður. Mér finnst eins og ég hafi lofað bót og betrun áður. Mér finnst eins og skipanir í embætti hafi verið kjánalegar áður. Ósköp finnst manni fátt merkilegt þessa dagana.
Eyðsla manna í verslanir kemur mér alltaf jafnmikið á óvart og einhver vildi halda því fram að neysla tvöfaldaðist að öllu leyti í desember meir að segja í gæludýrafóðri. Lauslega samantekið má áætla að meðalmaður eyði um 10. þúsund krónum í einnota jólaskraut og annan varning sem hann getur ekki verið án um jólin. 170 þúsund börn eru vannærð, fólk deyr enn úr malaríu, niðurgangi og kulda. 10. þúsund krónur geta gert kraftaverk á mörgum stöðum.
En mér er sama því serian er flott.

Kveikjum á kertum

laugardagur, desember 04, 2004

Alltaf er nóg annað að gera þegar maður skal læra undir próf. Sjálfsblekkingin í hámarki. Svo stutt eftir en einhvern veginn virðist þessi tími endalaust langt í burtu.
Vera jákvæður það skiptir máli. Gott að geta hrósað sjálfum sér fyrir að hafa lært jafnt og þétt yfir önnina og hafa nýtt kennaraverkfallið vel til þess að læra! *ænúleingdistáenninevið*

Æ mig auma

föstudagur, desember 03, 2004

Þarna liggur hann á gólfinu, lífvana, einn og yfirgefinn.
Dráparinn malandi út í horni að þvo sér, ánægður með verknaðinn.
sorg í loftinu.

Á grimmd heimsins sér engin takmörk kallar hún og fleygir sér í gólfið
,,Vettlingurinn minn!" er hrópað af tilfinningu ,,Af hverju drápu þeir vettlinginn minn".

Hún tekur saman tæjurnar af silkivettlingum með gullþráðunum og neitar að klappa þeim.

Dráparinn og félagi kippa sér lítið upp við fárið, kúra sig í teppið, sofa og mala.