mánudagur, júlí 23, 2007

Sólin tók á móti mér þegar ég vaknaði í morgun, var að spá í að ganga í vinnuna- er svona þrjár mínútur að því en ákvað að keyra. Forréttindi að eiga bíl og því um að gera að nota hann.

Búin að sitja á besta stað í bænum núna, með vini mínum göngutúrnum, í viku eða svo og senda ferðamenn ýmist út eða suður og horfa á eftir bæjarbúum. Svolítið eins og að vera í fuglaskoðun.

Mætti í vinnuna um daginn og þá var dauður fugl á planinu. Undarlegt, dauður fugl og köttur í einu og sömu vikunni. Ekki kötturinn minn þó. Mínir kettir hafa það gott - held ég.

Fer í frí annað kvöld. þá verður gott að hlusta á bílana.

fimmtudagur, júlí 12, 2007

Undir fjallinu

héti sjónvarpsþátturinn sem ég lifi í.

Bráðskemmtilegur og smellinn þáttur sem mætti sýna vikulega, jafnvel daglega.

Aðalstaðsetningar í þáttunum eru sögumiðstöðin, hótelið, blokkin, Hellnafell og svo af og til garðurinn hjá Isu. Upphafsatriðið er þegar ég geng í vinnuna á morgnanna.

Aðalpersónurnar eru nokkrar kerlur, ég- Sí- Fí- Isa og Jó. Aukahlutverk eru í höndum göngutúrsins, nafna hans, Lein og samstarfsfélagans og svo eru nokkrir sem fara með hlutverk comic relief.

Þátturinn er sem sagt um nokkrar kerlingar- allar utanbæjar- sem búa í bæ vestur á landi undir fjalli sem er margrómað fyrir fegurð sína. Daglegt líf kvinnanna er lyginni líkast.

Stundum þarf ég að minna mig á að það sem ég segi er alvöru og ekki hægt að taka aftur og það er ljótt að líta á kærkomnar heimsóknir vinkvennanna sem fjórða atriði í þætti dagsins.

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Fátt er betra en íslenskt sumar

miðvikudagur, júlí 04, 2007

Þrátt fyrir loforð um bót og betrun er ég enn sami ökuníðingurinn og áður. Því þó viljinn búi í hjarta mér jafnast ekkert á við að þeysa mýrarnar á ólöglegum hraða- þó alltaf löglegri með árunum.

Keyrði löturhægt yfir Kolgrafarfjarðarbrúna, fylgdi þar eftir önd með unga sína. Æðarönd með unga sína á röltinu yfir brúna endilanga er ávísun á morð. Sá fyrir mér heila fjölskyldu þurrkast út sökum níðingsháttar sveitamannanna. Sá ekki stætt á öðru en að fylgja þeim og neyddi ófáa bílana til að stoppa og víkja fyrir ráðvilltri fjölskyldunni. Svo kom flutningabíll sem beið með mér en eitthvað hefur kollan kunnað illa við félagsskap okkar bílanna. Því áður en ég vissi af hafði hún fleygt sér fram af brúnni og ungarnir létu sig vaða á eftir henni.

Nú sit ég í sólinni með í maganum yfir hvort ég hafi hrakið heila fjölskyldu úr Kolgrafarfirðinum í dauðann. Neytt dýrin til að stytta sér aldur af umhyggjunni einni saman.

Komist upp um athæfið dreg ég flutningabílstjórann með mér í svaðið.