miðvikudagur, júlí 04, 2007

Þrátt fyrir loforð um bót og betrun er ég enn sami ökuníðingurinn og áður. Því þó viljinn búi í hjarta mér jafnast ekkert á við að þeysa mýrarnar á ólöglegum hraða- þó alltaf löglegri með árunum.

Keyrði löturhægt yfir Kolgrafarfjarðarbrúna, fylgdi þar eftir önd með unga sína. Æðarönd með unga sína á röltinu yfir brúna endilanga er ávísun á morð. Sá fyrir mér heila fjölskyldu þurrkast út sökum níðingsháttar sveitamannanna. Sá ekki stætt á öðru en að fylgja þeim og neyddi ófáa bílana til að stoppa og víkja fyrir ráðvilltri fjölskyldunni. Svo kom flutningabíll sem beið með mér en eitthvað hefur kollan kunnað illa við félagsskap okkar bílanna. Því áður en ég vissi af hafði hún fleygt sér fram af brúnni og ungarnir létu sig vaða á eftir henni.

Nú sit ég í sólinni með í maganum yfir hvort ég hafi hrakið heila fjölskyldu úr Kolgrafarfirðinum í dauðann. Neytt dýrin til að stytta sér aldur af umhyggjunni einni saman.

Komist upp um athæfið dreg ég flutningabílstjórann með mér í svaðið.