mánudagur, apríl 30, 2007

Kannski rétt að koma með einn laufléttan að austan.
Ekki víst að slík tækifæri gefist mikið oftar.

Kvaddi ástkæra bekkjarfélaga og kennara ekki fyrir löngu. Þeir mættu í Yukata í tilefni dagsins, fallegri blómarósir sjást varla. Saman drukkum við kaffi og ræddum kosti og galla þess að þær kæmu í heimsókn til mín frekar en ég til þeirra.

Flest komið ofan í kassa og leiðin liggur á pósthúsið. Núna er ég ekkert stressuð yfir því, gleymi því seint þegar ég fór fyrst ein á pósthús hér í Taívan. Mikið vatn runnið til sjávar síðan þá.

Helgin var yndisleg, brunaði um á vespunni í leit að minjagripum og náði ótrúlegustu samningum sögunnar í prútti. Held að flest allt sé komið en ætla að fara eina ferð í dag, svona til að vera viss.

Veðrið hefur verið yndislegt og helgin notuð í að liggja í almenningsgarði og spila Kubb. Félagarnir mættu til að spila, svona fyrir mig, því tækifærin verða ekki mikið fleiri. Sem betur fer hvarf skelfingar svipurinn fljótlega og gleðin skein af mönnum. Kubb er sannarlega gleðigjafi.

Fólk horfði skelfingu lostið á okkur. Verð að venjast því aftur fljótlega að bráðum þyki ég ekkert merkileg í góðra vinahópi. Líkast til á maður eftir að sakna þess að glápt sé á mann.

Ruslabíllinn vakti mig í morgun, hann kemur ekki til með að gera það mikið oftar. Hlakka til að sjá hvernig ruslaþjónustan er í Cambridge.

Svo í rétt svona í restina langar mig að óska prestum og dyggum stuðningsmönnum þjóðkirkjunnar til hamingju með að trúa því einlægt að til sé annars flokks fólk og vilja viðhalda þeim reglum og vitna í úrelt trúarrit sér til stuðnings. Held að guði sjálfum sé alveg sama. Á ekki von á því að hann eyði mikið af tíma sínum í kirkju, enda nóg um að vera annarsstaðar.
Eins og snillingurinn benti á hér um árið þá eiga samkynhneigðir að hafa rétt á því að vera jafn vansælir og aðrir.
Ætti ég hatt tæki ég hann niður fyrir þá sem svo dyggilega trúa guði að þeir vilja alla jafna. Það þarft kjark til að mæta öllum jöfnum. Hitt er auðvelt.
Þá er hjónabandið ekki heilagra en svo að Michael Jackson gifti sig í tvígang.

Já það verður gott að koma heim.