föstudagur, apríl 13, 2007

Allt er einhvern tíma fyrst

Mætti í skólann í morgun, svo sem ekkert fréttnæmt við mætinguna sem slíka.

Þegar ég mætti var mér tilkynnt að mér hafði verið dömpað. Ekki bara mér einni heldur bekknum í heild sinni.

Ástæðan er víst sú að ég bað kennarann minn um að vera með fjölbreyttari kennslustundir. Allt í góðu, fannst þetta heldur einsleitt.

Skildi ekki alveg og þótti ekki mikið um uns ég áttaði mig á því að þetta er í fyrsta sinn sem kennari hefur dömpað mér. Og þið verðið að fyrirgefa, að ástæðulausu.

Flestar umvandanir hef ég fyllilega átt skilið, með undantekningum þó.

Ekki svo að skilja að ég sé stolt af þessari hlið skólaferils míns en ég hef verið rekin oftar úr skólan en ég kæri mig um að muna, þessi leiði ávani byrjaði snemma og hætti seint.
Mér hefur verið bent á að hætta í skóla, ég beðin um að mæta ekki tímabundið, ég hef fengið leyfi og sjálf hef ég tekið ákvörðun um að mæta ekki í lengri eða skemmri tíma og hætt án nokkurrar hvatningar. Ég hef beðið um að vera færð um bekk og sagt mig úr áföngum.

Það er óra langt síðan

Mér hefur aldrei verið dömpað fyrr en nú og þá lendi ég í hópdömpi.

Fyrir nokkrum árum ákvað ég að hætta þessu skólarugli mínu og tók mig á í skóla, mætti reglulega, brosti af og til í tímum og sat þar flestum stundum vakandi. Ég eyddi þremur árum í að læra að vera eins og meistarar mínir sælla daga. Síðan þá hefur skólaganga mín blómstrað og gengið áfallalítið fyrir sig.

En svo á þrítugsaldri, fyrir litlar sem engar sakir, er mér sparkað.
Ég er látin skipta um bekk og bekkjarfélagar mínir hljóta sömu örlög.

Dömpað... sparkað... sagt upp... dömpað.

Veit ekki hvernig ég á að bregðast við.
Á ég að gráta yfir þessu, verandi á þrítugsaldri og enn í ,,sama" farinu?
eða
ætti ég kannski að gleðjast yfir því að hafa enn ,,tötsið"? Meir að segja svo að ég þarf lítið til saka að vinna.

Kannski kominn tími til að mæta í ermalausum bol, sýna húðflúrin, draga fram vinnufatajakkann og hermannaskóna, klína þykkri rönd í kringum augun og setja hárið í andlitið og sjá hvað gerist

Ég fæ í það minnsta ekki mikið fleiri tækifæri

verst að hermannaskórnir fóru í ruslið og vinnufatajakkinn passaði fyrir nokkrum kílóum síðan...

augnmálningin breytir heldur ekki þeirri staðreynd að mér var dömpað.