fimmtudagur, mars 29, 2007

Lúðinn

Skilst að vefritlur séu góður vettvangur fyrir játningar. Kannski ekki sniðugt að játa á sig morð en allt minna en það er hreinsandi fyrir sálina.
Í ljósi þess hve maður leggur mikið upp úr því að sálin skíni hrein og björt er rétt að játa

Ég er lúði

Engin ástæða til að púa þó einhver hafi verið búinn að átta sig á því. Gerði þessa merkilegu uppgvötun sjálf á dögunum, það skiptir máli.

Eins og þegar ég fann upp hjólið hér um árið. Geri mér fulla grein fyrir því að það hafði verið gert áður. Ég hafði bara aldrei fundið upp hjólið.

En að lúðanum.

Í tösku á Íslandi eru tvær malt og tvær appelsín og þær eru á leiðinni til Taívan fljótlega.
Ég er í Taívan og ég á þessa drykki og undanfarna daga er ég búin að láta mig dreyma um hvernig drykkirnir, þó ekki göróttir, renni ljúflega niður kverkar mínar.

Veit hvernig ég ætla að segja ahhhh! á eftir. Er vopnbúin svona til öryggis ef einhver annar ætlar að smakka.

Það er ekki töff að fá sent öl og gos að heiman. Kúltúveraða fallega fólkið sem er á kafi í nýrri og framandi menningunni fær ekki sent Malt yfir heiminn þveran.

Reyndar er súkkulaði og Ópal með en það er ætlað bekkjarfélugunum. Þær eru alltaf að töfra fram te eða undramat svo ég verð að geta boðið upp á eitthvað. Stefni að því að láta þær fá harðfiskinn líka, en lofa engu.

Ekki mjög töff heldur að fá þurrkaðan fisk sem maður borðar lítið af. En þetta er fyrir gestina.

Er enn að velta því fyrir mér hvort ég eigi ekki örugglega að geyma lakkrísinn fyrir mig. Get skrifað langan pistil, uppspunninn frá rótum, um viðbrögð vina og félaga við því að eta lakkrís, hef séð það áður svo það ætti ekki að vera erfitt. Sitja svo útþanin með prumpuna ein og glotta út að eyrum því lakkrísinn var alltaf minn.

Nei þetta gerist ekki mikið verra. Nema kannski fyrir endurupplifunina af því að vera í sveit. Á sætar minningar frá því í sveitinni að hafa fengið pakka einmitt með Malti, súkkulaði og lakkrís innanborðs. Gott ef það fylgdi ekki bréf með en hver man það almennilega. Pakkinn var stór og kvöldin á eftir unaðsleg.

Nú þegar búið er að játa durgs og heimóttarhátt er óþarfi að fara í felur með það að ekki er allt upp talið.

KuBB er líka á leiðinni.

Já finn líka lúðalykt ennþá

Vonandi að hún verði ekki stoppuð í tollinum, sælgætið hirt og KuBBinu hent... þá er heimsóknin til einskis og tilhlökkunin að mestu fyrir bí.

Að mestu

Kveikjum á kertum