miðvikudagur, apríl 18, 2007

Farartækin í Taívan eru yndisleg. Get ekki hætt að lofa dásemdir þess að þeytast um á vespu.

Bílarnir hérna eru svo sem eins og aðrir bílar, en oft nýjar og áður óþekktar tegundir eða skemmtilegir litir eða Hello Kitty-bílar.

Ruslabílarnir eru yndi. Svona þegar maður er orðinn ónæmur fyrir ,,söng" þeirra. Á hverjum morgni rúnta þeir um og spila ,,ruslalagið". Ekki fyrir svo löngu var það ,,fur elisa" en núna er það ,,ruslalagið" sökum tónlistarvankunnáttu.

Svo spilar endurvinnslubílinn annað lag.
Svolítið gott kerfi. Alltaf þegar maður heyrir lagið hleypur maður út á götu og hendir ruslinu í bílinn og fer inn aftur. Ekkert vesen, ekkert rugl.

Auglýsingabílarnir eru öllu verri. Yfirleitt pínulitlir bláir pallbílar - eiginlega bara svona sýnishorn. Þeir keyra um löturhægt og svo eru auglýsingar /áróður öskraðar af segulbandi út í alheiminn.
Frekar þreytandi. Stundum eru auglýst föt, stundum matur, ósjaldan eru frambjóðendur sem sjá fyrir ónæðinu og þar fram eftir götunum.

Í dag gekk þetta skrefinu lengra. Lítill blár auglýsingabíll fór löturhægt eftir götunni, ökumaðurinn eflaust úr sveit og lætin slík úr kallkerfinu að ekki var hægt að hunsa.

Var litið upp og sá þar risastóran sjónvarpskjá með myndum af fatnaði og textinn í stóru letri. Keyrði næstum aftan á bílinn.

Ekki einn skjár, nei þrír voru þeir. Einn að aftan og svo til hliðanna.

Er þetta ekki einum of langt gengið hjá sjónvarpskynslóðinni?
Að horfa á auglýsingar á leiðinni heim á vespunni sinni?

Eða er ég bara gamaldags? (þrái svo sem ekki athugasemdir við þessa spurningu)