laugardagur, desember 31, 2005

Aðdáendur

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.

Megi nýja árið mæta okkur með enn fleiri ævintýrum og enn meiri gleði.

Sjáumst hress á nýju ári

Nynjan

föstudagur, desember 23, 2005

Er enn að velta því fyrir sér hvaða dagur sé í dag og hvað klukkan er. Ljóni þylur upp staðreyndirnar eftir pöntun, ´Lynja það er enn 23. desember og hún er að ganga níu´.Svona verður þetta í dag en vonandi ekki lengur. Það reynir á þollund Ljóna en til þess að vega upp á móti endalausum vangaveltum um tíma hefur Ynjan verið komin á fætur um og fyrir sjö síðan hún kom heim, sem er í fyrsta sinn í sögu sameiginlegs lífs L og Y að ynjan sé morgunhress og hvað þá hressari en Ljónið sjálft.

Enn óraunverulegri er jólahátíðin sem ætlar að fljúga í fangið á frúnni svona þegar hún á síst von á því. Það kemur líkast til ekki heldur að sök, þar sem hlutverk kerlu er að mæta í LH4 rétt áður en steikin er klár í sínu fínasta pússi, hún ætti að ráða við það.

Ekki eru jól án skötu og skutust hjónakornaleysin við í skötuveislu þar sem flúran skellti í sig tindabykkju sem aldrei fyr af mikilli áfergju, jólin hafa verið skráð og skjalfest með ýldu. Það er gott að vera á Fróni.

Ynjan er lítið fyrir að skrifa jólakort og í ár hefur flugþreytan bara verið of mikil til stórafreka því misnotar hún þennan miðil:Elsku elsku yndislegu þið!Gleðileg Jól Farsælt komandi ár og takk fyrir það góða og gamla.Megi næsta ár mæta okkur með fleiri gleðistundum og meira kaffiJólaynjan

miðvikudagur, desember 21, 2005

Ísland býður enn upp á kulda og myrkur og skammtímaminni kjósenda.

Það er gott að koma heim og sjá að lífið heldur áfram, illa samt án manns. Ég er víst komin á þann aldur að vinir manns eru hættir að stækka og gerist það kommentar maður helst ekki á það. Ég er víst líka komin á þann aldur að maður er mikið í því að dást að því hvað börn vina og fjölskyldumeðlima hafa stækkað. Ég er líka komin á þann aldur að mér finnst það töff og get bara endalaust tekið þátt í þeirri umræðu. Aldrinum um að kenna eða ekki er gott að vera í kuldanum- svona í bili.

Best í heimi á eftir malti er að rúnta um og heimsækja fjölskyldu og vini. Maður er enn að koma sér niður listann. Dásamlegt að minna sig á það að vinir manns séu ekki bara msn-spjall.

Það besta við að vera kominn heim er að maður er undanskilin öllu jólastússi.... flugþreytan, nei veistu ég bara treysti mér ekki í ´etta.

sunnudagur, desember 18, 2005

Þrátt fyrir að hafa notað allan minn sjarma í að sannfæra Ingunni um að láta sem ég hefði týnst, lét hún ekki segjast.
Sagði að sér hefði hún lofað að fljúga ekki heim aftur ein og með henni færi ég með góðu eða illu.

Því situr kerla á flugvellinum í Taivan, búin að koma farangrinum frá sér og bíður eftir fluginu heim. Hún á eftir að bíða í Hong Kong og svo bíða aðeins lengur í London en ekki hugsað sér að bíða í Keflavík.

Kerla er með kredit kortið á lofti eins og sannur Íslendingur á flugvöllum, maður gerir sjaldan svona góð kaup! Því er hún kappklædd svona til þess að forðast yfirvigt, Ingunn hefur hlegið að þessu bragði hennar, en við vitum báðar að hún hlær ekki í London þegar hún þarf henda tösku eða tveimur eða gefa hvítuna úr auganu á sér fyrir yfirvigtinni.

Við Ingunn vorum að hugsa dvöl okkar í Taivan áðan og vorum sammála um að minningarnar væru margar og góðar en sjaldnast gáfulegar.

Umfram allt skemmtilegar eru þær

föstudagur, desember 16, 2005

Sorrý

ynjan er hætt við að koma heim..... kemur heim þegar hún er altalandi á kínversku

nokkur ár í það....

fimmtudagur, desember 15, 2005

Ynjan stóð við matarstandinn fyrir neðan íbúðina hennar og pantaði steikt hrísgrjón með grænmeti. Afgreiðslukonan brosti og tók til við að framreiða matinn. Hún er í rósóttri skyrtu, bláum buxum, með stóra bláa skítuga svuntu og skærbleikum stígvélum. Hárið hrafnsvart, hún er með spöng og hárið tekið aftur í tagl.

Ósköp einfaldur standur á gangstéttinni og inn af lítið svæði til að sitja. Standurinn er með rennandi vatni og gaseldavél. Hráefnin í lítlum kæli sem eru öllum sýnileg. Einfalt og gott, þó heilbrigðiseftirlitið væri eflaust ekki mjög hrifið af staðnum.

Ynjan stóð og horfði á konuna elda og velti því fyrir sér af hverju hún væri að panta sér steikt hrísgrjón, einfalda olíumáltíð með litlu næringargildi. Meira en mánuður síðan að ynjan fékk nóg af þessum disk en reglulega stendur hún við standinn, brosir til konunnar og pantar grjón með grænmeti.

Svo byrjaði afgreiðslukonan að spjalla á fullu, hvernig hefuru það, er ekki kalt, það er mikið að gera hjá mér, ætlaru upp að borða þetta, hvar er vinkona þín. Vangaveltur sem svarað var með brosi eða bendingum. Stuttar setningar sem afgreiðsludaman endurtók og leiðrétti með brosi.

'Þú vilt ekki poka er það?' segir hún og brosir sínu breiðasta, stórar skakkar tennurnar sjást vel. Þær eru orðnar brúnar einhverra hluta vegna.

'Eg þarf ekki poka, er að fara upp' segir ynjan og bendir

'gott- sjáumst' og smitandi hlátur berst um meðan hún byrjar að gera næstu máltíð klára.

'bless- Þakka þér' ynjan gengur í burtu, eitt bros og leitar að ruslatunnu til að henda grjónunum.

Það er bara eitthvað svo notalegt að standa með fólki sem spjallar við mann um lífið og tilveruna og ætlast ekki til þess að fá svör eða skilning, það er gott að fá bros framan í sig sem segir 'hæ ég þekki þig'.

Þess vegna pantar ynjan hrísgrjón í standinum fyrir neðan húsið þrátt fyrir að borða þau ekki.

þriðjudagur, desember 13, 2005

Ísbirnirnir í Grundarfirði

... verða alltaf stærri og hættulegri eftir því sem maður hefur verið lengur í burtu. Ostrurnar dafna vel og oftar ber afrek Íslendinga á góma.
Það er ekki það ynjan telur sig hafa staðið sig með prýði í landkynningunni, jafnvel svo vel að hún getur vel hugsað sér að senda herra forseta Íslands aftur sendiherrabréf eins og hérna þegar þær vinkonurnar skipuðu sig sendiherra Íslands í Suður Ameriku og létu forsetann reglulega vita af starfi sínu.

Eftir því sem maður verður eldri segir maður oftar satt... eða reynir oftar að halda sig við staðreyndir þegar kemur að þessum klaka. En ísbirnir eru sætir og maður á ekki að láta góða sögu gjalda sannleikans.

Því var eilítill bömmer í gær að hlusta á astralann í gær velta sér upp úr helvítinu í atlantshafinu og heyra spurningar sem voru ekki frumlegri en....
.... geymiði gosið úti?
.... Kanntu að troða marvaða?
.... notiðið bobsled til þess að komast í vinnuna?

Kannski verður maður bara kröfuharðari, ef fólk ætlar að vera fyndið þá þarf það að leggja sig aðeins fram!

föstudagur, desember 09, 2005

Það eru komnar nokkrar myndir hér

Ég skorast ekki undan....

Settu nafnið þitt í kommentakerfið og...
1. Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig.
2. Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig.
3. Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig.
4. Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér.
5. Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig á.
6. Ég spyr þig að einhverju sem ég hef velt lengi fyrir mér um þig.
7. Ef þú lest þetta verðuru að setja þetta á bloggið þitt!

Þessir bloggleikir eru að slá í gegn...

fimmtudagur, desember 08, 2005

Betel nut

Einu sinni hélt ynjan að Betel nut væri Beatle nut, en svo er víst ekki.

Maður sér fólk víða í Taívan tyggja Betel nut, aðallega karlmenn, kannski eingöngu. Verkamenn og vörubílstjórar eru algengasta sjónin en af og til hefur ynjan séð jakkafatagaur með tugguna.

Betel nut er ávöxturinn af Areca catechu pálma tré, og ég held að hann sé óþroskaður þegar hann er notaður. Hneturnar eru um 2 cm og yfirleitt skornar eins og pylsubrauð, þar á milli er sett lime og svo vafið með laufinu af Betel pálmatrénu, sem gefur hnetunni nafnið betel nut. Þær inni halda virka efnið arecoline sem ég kann ekki frekari deili á. Ýmsar útgáfur eru til af Betel nut.

Áhrifin af Betel nut víst ekki ósvipuð áhrifum frá kaffi eða nikótíns, sem sagt aðeins örvandi, betel nut a líka að milda sársauka og örva blóðrásarkerfið. Sem sagt allra meina bót. Tuggan er ávanabindandi.

Þegar betel nut er tuggið kemur mikill safi frá hnetunni sem er hárauður og fólk er hrækjandi um allt. Það er ekki ætlast til þess að maður kyngi. Í hvert sinn sem maður stoppar á ljósum sér maður blettina á götunum, flestir gamlir því það skolast ekki í burtu í næstu rigningu. Ekki er óalgengt að þeir sem eru með tugguna séu eldrauðir í kringum munninn og ekki of auðvelt að þrífa safann af sér.

Nokkrar borgir í Asíu hafa bannað Betel nut, vegna sóðaskapsins en ekki í Taivan. Vinsældir tuggunnar hafa víst sjaldan verið meiri. Slagorð á við "Quit betel nut chewing, you know you're right!" er viðbrögð heilbrigðisyfirvalda til þess að reyna að draga úr neyslunni, sér í lagi þar sem ungir drengir eru stækkandi neysluhópur.

Eitt sérstakt við Betel nut-neysluna hér er að yfirleitt eru svokallaðar betel nut-stelpur að selja hnetuna. Þær eru inn í litlum söluskála, ungar og fallegar og léttklæddar, því lengra sem maður fer inn í úthverfin því efnisminni verða fötin.

Ynjan missti víst af hátindi Betel nut-stelpnanna sem var fyrir nokkrum árum þegar þær voru jafnvel naktar, en eins og svo margt annað skemmtilegt, er það nú bannað. Enga síður eru fötin ástundum bara til málamynda.

Það þarf líklega ekki að segja að fæstir foreldrar vita af háskólamenntuðu stúlkunum sínum í þessum kössum.

Ynjunni fannst Betel nut bara prump!

þriðjudagur, desember 06, 2005

12 dagar

úff það eru bara tólf dagar eftir í Taivan! 12 dagar

Ynjan getur viðurkennt það að hún er farin að hugsa heim, mmm það verður ljúft að koma heim, það er lika svo kalt hérna núna að maður getur ekki annað en hugsað heim.
Samt finnst ynjunni eins og hún hafi komið hingað í gær eða svona næstum því. Reglulega er hún samt minnt á að svo er ekki.
Nuna getur hún pantað kaffi vandræðalaust, það er liklega helsta merkið um að hún hafi verið hér í þó nokkurn tíma. Svo heilsar veitingahúsaeigandinn fyrir neðan íbúðina henni með virtum. Kennarinn hennar skilur af og til hvað hún segir og hún á vespu og ratar um borgina.

12 dagar eftir og tólf vikur að baki, vá hvað tíminn flýgur!

laugardagur, desember 03, 2005

Hóst hóst

... ha ég - ég er eiginlega veik, ég held ég verði bara heima í kvöld,
nú já maður getur náttúrulega alltaf kíkt í mat... svona stutt, allir þurfa jú að borða.

Það næsta sem maður veit er að maður situr á ala bar, tyggjandi beatle nut með félögunum og hrákadallurinn látinn ganga manna á milli.
hóst hóst, ég hef nú aldrei verið í samkvæmi þar sem stór hráka er heiðursmerki hóst hóst.
Munnurinn rauður og allir við borðið eins og trúðar.

Taivönsk þungarokkshljómsveit tekur þekkt lög með Aerosmith og söngvarinn síðhærði spilar á luftgítar, lýðurinn tryllist! Svo spila þeir angurvært taivanskt þungarokk.

Sumar hugmyndir eru einfaldlega betri en aðrar, næst fer maður á ktv!! og þá verður rokkað án beatle nut!

fimmtudagur, desember 01, 2005

Ynjan sat fyrir framan 7/11 á bekk í gærkvöldi.

Kvöldið var fallegt, veðrið milt og ynjan á leiðinni á kaffihús. Ósköp saklaus sat hún á bekknum og góndi út í buskann.

Það var dauðadrukkinn Taívani fyrir utan 7/11 líka, ynjan telur það víst að hann hafi ekki verið á leiðinni á kaffihús.
Hún sér hann nálgast og er eitthvað að velta því fyrir sér af hverju menn gefa lífið upp á bátinn og enda á götunni sem rónar þegar hún sér að hann stendur fyrir framan hana. Hvorugt segir orð.

Það næsta sem að kerla veit er að sá gamli beygir niður og setur stút á munninn og gerir sig líklegan til þess að kyssa ynjuna.

Þrátt fyrir nær þriggja mánaða dvöl í Taivan færði hún sig frá, var ekki alveg í stuði fyrir kelerí fyrir utan 7/11.

Ynjan stökk á fætur nokkuð hissa og gekk í burtu og byrjaði svo að flissa.

Kannski hefur manngreyið gefið upp lífið því hann var með svo óstöðvandi sjálfsálit að það kom honum í vandræði, hver veit.