laugardagur, apríl 23, 2005

900 kílómetrum seinna

labbar maður í vinnuna.

sunnudagur, apríl 17, 2005

Sögnin að éta

Það stefnir allt í að lokaritgerðin klárist og ég haldi lífi. Ég hef efast um það í nokkurn tíma, en ég hef trú á því að þetta takist. Skólinn er óþægilega nálægt því að vera búinn sem þýðir að ég verði að fara að vinna og vera fullorðin. Ég hafði heldur enga trú á því að það myndi nokkurn tímann gerast. En á móti kemur þá hafði ég ekki nokkra trú á því að Bobby Fisher kæmi aftur til landsins svo 2005 er líkast til árið sem maður verður að éta eitthvað mikið ofan í sig. Vonandi eru allir búnir að gleyma því þegar ég sagði að kennarar væru fylgismenn djöfulsins og að í þeirri stétt myndi ég aldrei starfa. Enn og aftur ét ég. Ég hef enn fulla trú á því að kárahnjúkar fari í rassgat og að þessi framkvæmd verði aldrei að veruleika, kannski verð ég að éta það ofaní mig líka. Þar er hinsvegar enn von.
Mig minnir að einhvern tímann hafi ég misst það út úr mér að ég ætlaði aldrei aftur út á land. Best að éta það ofaní sig núna og snögglega. Brátt verður farin svaðilför ársins á Tálknafjörð og ef allir halda heilsu ætlum við hjúin þangað næsta vetur. Það er líka svolítið síðan að ég þurfti að éta eigin yfirlýsingar um körfubolta aftur ofaní mig. Ég ætlaði líka til Afríku í boði ÞSSÍ en ....

Nú er ég södd

laugardagur, apríl 16, 2005

Einhvern daginn

ætla ég að standa fyrir utan brodvei og grenja af því ég hef aldrei tekið þátt í fegurðarsamkeppni.
Þegar lögreglan ber mig í burtu ætla ég að brosa í gegnum tárin.

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Ég kann ekki að kveða

en ef svo væri myndi hér vera níðvísa aldarinnar um önnur ómenni sögunnar. Ekki það að ynjan sé fúl heldur er hún hundsvekkt. Svekkelsi hennar er það mikið að augnamiðis penninn hennar hjá fréttablaðinu startaði ekki brosviprunum.
....aðrir hæfir umsækjendur?! Og, ynjan var bara miklu hæfari en þeir. Ynjan er alltaf að reyna að gera öðrum til hæfis og hvað!

Ekkert
en það er annað og betra í boðinu og ynjan hress

mánudagur, apríl 11, 2005

Ritstíflan

hefur hrjáð mig allt of lengi.
Það virðist vera alveg sama hvað ég horfi lengi á þetta lyklaborð, orðin koma ekki. Þetta hrjáir mig líka þegar ég horfi á lokaritgerðina mína.
Enn þann dag í dag hefur mér ekki orðið orðavant ,,á vettvangi".
Líkast til er gott að síminn minn sé einlínumarkaður núna.

Atvinnumálin eru öll að skýrast og spennandi tímar fram undan.

Annars eru allir í MT52 sáttir og glaðir, mettir og malandi.
Lynja

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Að senda einhvern út í dauðann

...er líkast til synd sem ég tileinka mér seint. Af gáleysi, sendi ég fuglinn sem ófétið kom með heim í dag út í náttúruna en fattaði ekki að hann var illa fiðraður eftir átökin og alkul úti.

Síðan þá hefi ég reynt að vera kát en lítið gengið. Með hnút í maganum og slæma samvisku. Maður hefði náttlega átt að ferja hann á fuglahótel svo hann gæti nú safnað fjöðrum í góðum hita.

Þess utan er ynjan farin að kíkja upp út úr ljósberaholunni sinni en þarf samt að dvelja þar nokkru lengur.

Hún er þolinmóðari en viljalaus hundur og bíður og bíður og bíður. Kannski að 12. apríl leysi biðina af hendi með vonbrigðum,
Nú eða sælu

Ætla að prófa að veðja á hamingjuna til tilbreytingar til að sjá hvort hún verði ekki hissa og snúist mér í vil.

föstudagur, apríl 01, 2005

Föstudagur til frægðar

..eða var það til frama eða frádráttar? Blessunarlega held ég að frægðin banki ekki upp á í dag, skilst að hún hafi villst einhversstaðar í 101 og sitji þar á bar nokkuð áttavillt.

Föstudagar eiga að vera góðir dagar, þar sem afkastagetan er í hámarki, getan er til staðar en afköstin eru eitthvað minni.

Fyrsti apríl í dag, ég byrjaði daginn á því að mæta klukkustund of snemma í vinnuna sem er ágætisbyrjun á degi fyrir flesta aðra en mig. Ég er enn að spá hvort maður eigi að láta hafa sig upp í smára að horfa á Bobby í tilefni dagsins! Mér finnst að fólk hefði átt að fjölmenna til að undirstrika þá afstöðu að fiskamálið sé lítið annað en snemmkomið og langt aprílgabb.

Ég ætla að reyna að vera góð við fólk í dag, ekki gabba það enda virðist tískan ganga út á það að útrýma prökkurum

Góða helgi