mánudagur, febrúar 28, 2005

Ynjan veit að það er ljótt að hreykja sér en hún á það til að missa faguryrði útúr sér um eigið ágæti.

Ynjan veit vel að þetta vefrit er víðlesið og þykir hið merkilegasta. Fjölsótt er jafnan orð sem hafa má um þessa síðu. Ynjan veit fyrir víst að síða þessi er lesin í að minnsta tveimur heimsálfum og hikar ekki við að fullyrða að gluggað sé í þeirri þriðju. Fólk hefur haft á orði um að blogg þetta sé virðulegt og frambærilegt á allan máta.

Ynjan hefur litla hugmynd um hverjir lesa þetta blogg í raun og veru ef undanskildar eru hetjurnar sem skilja eftir nótu eða skilaboð þegar við á eftir rit hennar. Af einskærri forvitni setti ynjan spaka upp gestabók sem ekki nokkur maður virðist kunna á því ekki getur það verið skortur á lesendum. En gestabókin kom upp um vinsældir ynjunnar en hefur ekkert með háan siðgæðisstuðul hennar að segja. Því þegar ynjan kíkti í gestabók umrædda sá hún að ekki minni manneskja en Nancy Siple hafði rekist inn á síðuna, lesið og kvittað fyrir sig. Nancy þessi er viðloðinn bláa bransann og býður upp á ókeypis myndir fullar af fegurð og losta eins og hún ritaði sjálf.

Tja það er gott að vita að bloggið ynjunnar fer víða ;)

laugardagur, febrúar 26, 2005

Genatískt hef ég enga sérstaka þrá til þess að klæðast galakjólum, óháð genum hef ég enga þörf fyrir þessháttarkjóla. Almennt man ég ekki eftir þessari ekki löngun minni. En minni þörf hef ég fyrir það að ganga með uppstoppað gæludýr um hálsinn og enn síður hef ég löngun til að blanda saman kjól og gæludýri.
Ósmekklegt er orðið sem kom í hugann. Virkilega ósmekklegt. Stundum langar mig að vera svona ,,prosprayer" en ég hef ekki kjark í slíkar verslunarferðir. Svo held ég að markaðurinn sé heldur lítill hérna. Verði þessi löngun óbærileg æfi ég mig í kolaportinu.

Æfingin skapar meistarann!

Einn daginn verð ég ekki huglaus hæna! Einn daginn verð ég ekki huglaus, einn daginn verð ég ekki huglaus.

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Jæja gott fólk

Loksins er ynjan aftur tæknivædd. Húrra húrra húrra. Þetta yndislega net!
Tengingin er í fullu samræmi við svefnvenjur mínar og kannski verð ég að láta loka á netið hjá mér eftir viku þar sem ég er svefnþurfta algerlega.

Æj játenging við umheiminn, hnéhh

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

jamm. Febrúar er alveg að verða búinn, allt stefnir í að kortaklippir láti mig vera þetta árið. Stundum líður mér eins og febrúar hafi verið settur fram aðeins fyrir kreditkortafyrirtækin.

Ég held að stuttur en annars glæsilegur sundferill minn sé að enda. Það þýðir ekkert að hreyfa sig og eiga svo að vera ógeðslega hress þegar maður uppsker fátt annað en verki í vöðvum og þreytu.

Stundum horfi ég á kettina mína og óska þess að ég væri þeir. Ég held að það væri gaman að sofa 16 klukkustundir á dag, eta harðfisk og fá klapp yfir sjónvarpinu og klór á bakvið eyrun. Einu óvinsældirnar sem maður nær í er ef maður veiðir fugl eða skítur í rúm og ég get vel hugsað mér að sleppa hvoru tveggja. Helsti ókosturinn væri ef til vill þessi árans þurrmatur sem á að vera svo góður og hollur. En öllu má venjast.

Hvað eru mörg b í keflavík?

föstudagur, febrúar 18, 2005

Kæra Siv

Þannig er með ynjuna að hún þekkir nokkuð til alkóhólisma og óhóflegrar áfengisdrykkju og kynni hennar af þeim görótta drykk oft ekki góður. Svo hefur verið að áfengið hefur valdið henni hugarangri, angist og áralöngum kvíða. Ynjan er ekki sú eina sem hefur nokkuð bitur kynni af áfengi.

Ynjan hefur setið á kaffihúsi eða veitingastað og drukkið óhóflega og orðið sjálfum sér og öðrum til skammar. Hún er ekki sú eina í þeim hópi.
Gott ef ynjan veit ekki til þess að fólk hafi verið á kaffihúsum og sest undir stýri, keyrt og skaðað sjálfan sig og aðra.

Ynjan hefur horft upp á drukkið fólk áreita annað fólk og jafnvel starfsfólk þannig að það valdi vanlíðan og jafnvel skaða. Hún veit jafnvel af tilfellum þar sem að fólk hefur setið næturlangt á ölstofum, gengið þaðan út og gengið alvarlega í skrokk á öðru fólki þannig að fórnarlambið hefur ekki boðið þess bætur. Sumir hafa látist af sárum sínum. ´

Ynjan veit af fólki sem með óhóflegri drykkju hefur valdið sjálfum sér óbætanlegum skaða og látið lífið rakið beint/óbeint til áfengis.
Ynjan hefur heyrt af konum sem drekka meðan þær ganga með barn þannig að barnið fæðist með sérstakt heilkenni kallað alcoholsyndrom.
Hér er rekin meðferðarstöð fyrir áfengissjúklinga sem sífellt þarf meiri pening sem ekki er til.


Kæra Siv í ljósi umhyggju þinnar fyrir fólki og í ljósi þess að þú treystir ekki fólki til að bera ábyrgð á gjörðum sínum ætla ég að fara þess á leit við þig að þú bannir áfengi á veitinga og skemmtistöðum, opinberum vettvangi og í fjölmennum veislum. Gott væri ef bannað væri að hafa áfengi þar sem 18 ára og yngri eru innan kílómeters fjarlægð. Þannig er hægt að koma í veg fyrir mikinn skaða, veitingafólk verður ekki fyrir áreiti, börn kvíða ekki drykkju foreldra sinna. Ölvunarakstur ætti að vera úr sögunni. Hefðbundinn bömmer frá, framhjáhald mun líkast til minnka, einhverjar nauðganir eru úr sögunni, ákveðið ofbeldi fer, skorpulifur minnkar sem og aðrir heilsukvillar. Tala nú ekki um útgjöldin sem sparast hjá ríkissjóði við að bjóða eingöngu upp á kaffi og djús í helstu veislum. Hægt væri að leggja niður SÁÁ.

Það sér það hver maður hve miklar umbætur þetta hefur í för með sér. Hér þarf að hugsa fyrir almenning því hann veit ekki af skaðanum og gerir ekkert í þessu.
Siv hugsaðu nú fyrir landið og leggðu fram frumvarp um að banna áfengi á skemmtistöðum og veitingahúsum. Þá verður heimurinn mikið betri.

Virðingarfyllst
Vínynjan

...eða hefur verið reynt að banna áfengi og lét fólkið ekki segjast?

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Æj já....

Það er útséð með að tossahættinum verður ekki útrýmt í þessu námi þrátt fyrir væntingar um annað.
Ynjan á sér væntingar enga að síður og treystir því að einn daginn verði hún valin í sunddeild öldunga og rústi gamalmennunum þar. En fyrst þarf hún bara að byrja að æfa sund. Því skellti hún sér í sund og fleytti sér nokkrar ferðir. Ekki skyldi daman í því af hverju hún var svona móð eftir örfáar ferðir og nokkur hundruð metra. Þetta hafði verið annað í gamla daga.
Því fór hún daginn eftir og sama sagan hún var ekki búin með neinar þúsundir í sundi þegar hún einfaldlega var þreytt. Eitthvað þurfti að ræða sundið og lélega frammistöðu þegar í ljós kom að ynjan hafði í huga sér verið að synda 25 mtr laug en var í raun í 50 ;)
Jarm mér líður ekkert eins og sauði ef einhvern grunar annað.

skriðynjan

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Þetta átti einhvern veginn að vera svo ósköp venjulegur dagur. Ég sé ekki fyrir endan á honum en venjulegur er ekki orðið sem kemur fyrst í hugann. Ekki það að dagurinn hafi verið yfir sig afbrýðilegur, langt því frá.

Kaflinn fyrir hádegi kemur seinna, nánari lýsingar á honum má svo líklega finna annarsstaðar á alnetinu.

Ég settist niður með bróður mínum elsta og sötraði kaffi sem í síðasta sinn, ósköp venjulegt. Þá var um klst eftir til að drepa áður en farið var í selið. Ég brunaði því í dýrabúð og keypti magn af hágæðakattarmat. Þá flaug mér í hug að kattholt gæti verið góður staður til að kíkja á.

Þar bíður mín pínulítil átta ára gömul læða sem þráir að eignast heimili, hjá mér/okkur hjónunum/hinum kisunum.

,,Þú verður bara að ráða þessu" hálf hvæsti maðurinn þegar ég sagði honum frá afþreyingu minni. Málið var að mestu útrætt þá. Bíðum og sjáum til.

Misjöfn eru morgunverkin!

mánudagur, febrúar 07, 2005

Kattaróbermið hið unga stökk inn með brosviprur, fleygði barnavettlingum í fangið á ynjunni. Malaði hátt og vildi ynjuna hreykja sér. Hvernig getur maður skilað vettlingum yfir til nágranns undir þeim formerkjum að kötturinn hafi stolið þeim?

Skólinn byrjaður aftur með tilheyrandi loforðum sem verða líkast til svikin.

Það er ljúft að vera kominn heim í mt52 þó heimilisdýrið sé þjófótt. Gott að liggja undir teppi og hía á vonda veðrið.

föstudagur, febrúar 04, 2005

Þráhyggja ynjunnar er utanferðir. Nú hefur hún verið föst á klakanum í nokkur ár. Þau fyrstu var hún sátt, hafði litla þrá til að fara lengra en upp í mosó. Þráhyggjan ágerist og versnar með degi hverjum.

Því er stefnan tekin á Thailand og í framhaldinu Ástralíu til að sefa þráhyggjuna. Planið er að fara eftir ár og örstutt í að miðarnir verði pantaðir.

Miðarnir verða pantaðir þegar ynjan á fyrir staðfestingargjaldinu. Því þurfa aðdáendur ekkert að missa sig, þeir verða ekki pantaðir í febrúar.

mmm strendur...hiti...köfun...mmmm gaman

Draumynjan mikla frá Kasmír