sunnudagur, maí 30, 2004

,,Evelyn, loving you kept me alive!"
Svona getur ástin verið heit og innileg, ég heiti ekki Evelyn, árinn, og er heldur ekki persóna í heimsklassahollíwúddbíomynd, en samt ég er alveg vilholl dramatík!

Elskulegi báturinn minn er kominn í lag, þetta dásemdarfley. Sigli, sigli, sigli. Yndislegi bátur, ó fagra fley. Það er eins gott að rakka*_*_Ö= bili ekki meira í sumar... en siglingar framundan og er það vel.

Orðlaus...upplifði orðleysi í morgun í eitt af fáum skiptum í lífinu, holl æfing það er ekki það og jafnvel betra að þegja en að segja eitthvað ógáfulegt.
En oft er þetta ógáfulega svo skemmtilegt og fyndið. En það á kannski ekki alveg við núna.

Vast er haf eða sjór.

Leyfum kertunum að loga

Sjóarinn síkáti!

föstudagur, maí 28, 2004

Já góðan dag

Í þessu dásamlega veðri rölti ynjan letilega upp laugarveginn og kíkti í búðir. Hún datt inn í búð eina þar sem afgreiðslustúlkurnar voru blómlegar og sælar. Reyndar voru allar afgreiðslustúlkurnar með mikið svart skegg. Tvær með svart yfirvara skegg og ein með kleinuhring. Ynjan snéri sér að frú kleinuhringjagerviskeggi og spyrst fyrir um vöru eina. Grafalvarleg svarar kleinuhringjagerviskeggjaafgreiðsludaman að bragði. ,,Nú já - einmitt" segir Ynjan ,,Svo skaltu snyrta aðeins hægramegin" brosti og vatt sér út í sólina aftur.

Leifum kertunum að loga

miðvikudagur, maí 26, 2004

Eitt góðverk á dag kemur skapinu í lag.

Ynjan þeysti með manni sínum tilvonandi um götur Reykjavíkur í sólinni. Á gatnamótum einum er eldri maður stopp á beygjuljósi, bílinn bilaður og umferðin ógnarmikil. Sem og sönn hetja stekkur ynjan út úr bílnum og byrjar að hjálpa til við að ýta bílnum úr alfaraleið. Hún var ekki viss um að sá gamli myndi hafa það en hann var seigur. Ungur maður á skokkinu batt twistpokann sinn við ljósastaur og hjálpaði til. Þrjú saman að bisa bílnum í stæði, ég og sá gamli við framdyrnar, unglambið ýtir að aftan. Í miðjum átökunum síga buxur ynjunnar niður, óþægilega nálægt hné.
Nú er ynjan miður sín og vonar að sá hjálpsami hafi verið sjónskertur, jafnvel blindur, nú eða hreinlega minnislaus. Annars ætlar ynjan ekki að hjálpa samborgurum sínum meir.

Leifum kertunum að loga

mánudagur, maí 24, 2004

Stundum skyggir á sólina.
Þögn.
Kveikjum á kertum.
Sól á mánudegi og fasteignablaðið komið!!!!

Verður ekki betra.

þriðjudagur, maí 18, 2004

,,Ég tala nú alltaf minna með árunum" sagði móðir mín þreytt eftir tíu stunda heimsókn mína.
Þetta á alls ekki við um mig, ég mætti snemma og malaði og malaði og talaði og talaði, þótti það gott. Móðirmyndin vill meina að eyrun á henni lafi eftir vitjun mína en það er lýgi, hún er glöð í eyrunum, enda heppin að eiga gott eintak af barni sem nennir enn að tala við hana.
Ynjan er sem sagt í sveitinni, sofnaði við fuglagarg og söng.
Sól, sól,sól.

fimmtudagur, maí 13, 2004

Ynjan vill ólm komast yfir umsóknir fyrir sundlaugaverði, hún er þess fullviss að hluti af hæfniskilyrðum sundvarða sé óþolinmæði gagnvart börnum, munnsöfnuður beitt að börnum og önnur ónot. Ynjan man eftir þeim tímum þegar hún var skömmuð duglega í sundklefum landsins sem barn og nú 20 árum seinna endurtekur sagan sig. Heyrt í lauginni ,,stelpur þeigiði nú!" ,,Drattist nú úr sturtu" ,,Djöfulsins læti eru þetta, drífið ykkur" ,,Þvoið ykkur betur!!". Ætli sundlaugarverðir óttist að á íslandi gæti komið upp kynslóð sem ekki hefur fengið það óþvegið hjá þeim og hún verði óalandi og óferjandi. Setja í minnisbókina; athuga hæfniskröfur sundlaugarvarða.

Annars fátt að segja veiddi fisk og lenti í sjávarháska, hver nennir að segja frá því?

Hafið það gott, krúslurnar, sólin skín!
Sjávarfreyjan

miðvikudagur, maí 12, 2004

Jájájájájájájá

Sumarfríið má koma, sólin líka. Prófin eru búin...í bili.

Orlofið komið

Er ekki veröldin dásamleg!

mánudagur, maí 10, 2004

Ég hafði í huga mér skrifað heillangt blogg um lystisemdir helgarinnar, en nei það er ekki hægt þar sem nokkur orð vantar og ekki vil ég vera óviðeigandi. Nú þarf ég ykkar ráð;
Hvað kallar maður foreldra ástmannsins? Ekki erum við gift svo tengdaforeldrar eru úr myndinni þó allir myndu skilja um hverja verið er að tala, hægt er að nefna nöfn þeirra og segja þau foreldra kærastans en þá er maður komin með margraorðasetningutilaðlýsaeinföldumtengslum.
Það vantar nefnilega fullt af orðum yfir íslenskar fjöldskyldur, t.d vantar orð yfir bróður systur minnar sem er ekkert skyldur mér, afhverju er ekki til eitthvað gott orð yfir það?
Nú svo giftist móðir manns aftur og hvað kallar maður þá foreldra núverandi eiginmanns móður sinnar? Hvað kallar maður foreldra hans þegar þau skilja aftur?
Nóg um það.

Ég ákvað í dag að drattast til að kaupa mér líftryggingu, þar sem ég er sannanlega dauðvona, ég finn krabbameinið dreifa úr sér, eyðnina ná yfirtökum og þarmaflækjuna ágerast. En ég er ósköp vön því berjast hetjulega við svona alvarlega sjúkdóma, hitt er verra að ég er dofin í hægri tánni, annan daginn í röð og ég veit að þessir sjúkdómar ásamt öðrum undirsjúkdómum hafa lagst á eitt til að koma mér fyrir kattarnef. Þetta er grafalvarlegt mál og þeir sem eru sérfræðingar í tám og dofnum hægri tám gefi sig fram og ég tek gildum rökum fyrir bráðauppskurði. Hver veit nema að svæfingagæjinn sleppi lifandi frá deyfingunni þar sem ég sé hve alvarlegt málið er?

Ég keypti mér þó miða á Susana Baca sem eru í lok mai, mikið hlakka ég til.


Mig langar að biðja alla um að kveikja kerti í minningu Ásdísar.

fimmtudagur, maí 06, 2004

Verð bara að benda á fórnarlömb fjölmiðlafrumvarpsins hér
Það verður nú að segjast eins og er að þó akr- sé stofn orðsins akur vegna u hljóðbreytinga frá fornöld, þá telja flestir þessar upplýsingar með öllu óþarfar. Líkast til ekki eitt af þessum atriðum sem maður þarf að kunna í óbyggðum. Önnur óþarfa vitneskja í óbyggðum er að bikar beygist ekki eins og humar, í þágufalli eintölu er bikari en humri. En sem betur er ynjan örugg í borg óttans og uppfull af nauðsynlegum upplýsingum um íslenskt mál. Hún ætlar ekki að leiða hugann mikið meira að orðhlutafræði fyrr en í haust.

Snæringur er frost með hríðarhraglanda, svona eins og í snæringsfjúk! (Snjókoma í hörðu frosti). Ekki það ég vilji vera með leiðindi en er hart frost ekki soldið spes. Nú er úti mjúkt frost en í gær var það hart.

Ætli maður sé ekki kominn langleiðina með að lesa yfir sig, nú þegar ég hef áttað mig á því að ég sé í bráðri hættu, legg ég allar bækur til hliðar, drekk eðalkaffi og horfi ekki einu sinni í átt að bókastaflanum.

Sælir eru ólæsir

þriðjudagur, maí 04, 2004

Ár skal rísa
Sá er á yrkjendur fá
og ganga síns verka á vit.
Margt um dvelur
þann er um morgin sefur
hálfur er auður und hvötum.
(Hávamál)


Prófin eru ekki byrjuð en eru þó að verða búin....so close yet so far.