föstudagur, maí 19, 2006

Eilítið gaman að því að í síðustu færslu standi ,, í færslunni hér að ofan". Glöggir lesendur hafa væntanlega gert sér grein fyrir því að þar átti að standa ,, neðan". Ynjan lætur þetta standa svona fyrir gamanið. Gott að vita til þess að fólk sé almennt umburðarlynt gagnvart svona staðhæfingarvillum.

Ynjan fékk eitthvað í augað í gær og sveið ósköp mikið. Til þess að reyna að laga hið hvimleiða kreisti hún aftur augun. Svo fór hún að velta því fyrir sér hvort rafmagnið væri farið. Ekkert gáfnaljós kannski. Ynjan vonar bara að Ronja fái ekki heimþrá við að lesa þetta vilji fara aftur inn í skóg að spjalla við rassálfana (? voru það annars ekki þeir). Fer alveg að koma tími á Ronju Ræningjadóttur-stund, verst að ynjan vinnur ekki lengur á sambýli.

Ynjan hefur áður sagt frá því að í Taívan er árið 95 núna. Alþýðuveldið Kína var stofnað 1911 og því var byrjað upp á nýtt, Kína sjálft það er Fólks lýðveldið Kína notar 2006.

Í Japan er víst árið 17, sem ynjunni þykir undarlegt, því hún þekkir fólk frá Japan yfir tvítugu, en þá (ef ég hef skilið bekkjarsystur mína rétt- og ég er alls ekki viss!) tók við nýtt konungsveldi.

Taílendingar eiga samt vinninginn og skáka alla sem ynjan veit um og þar er árið 2529 hvorki meira né minna. Bekkjarsystir mín vildi lítið tjá sig um af hverju árið 2529 væri nú í Taílandi en hún kom því vel til skila að á næsta ári verður 2530 og það er nú gott að vita.

Ynjan fór í próf í dag og það gekk svo sem allt í lagi, kannski betur en hún átti von á (ekki ynjunni að kenna þetta var bara svo erfitt próf :)). Kennarinn minn býr yfir þessum dásamlega hæfileika að skella á okkur prófi án fyrirvara eða mesta lagi með dagsfyrirvara. Aldrei slíku vant lét hún vita í gær af prófinu. Ynjan gerði sér grein fyrir því að það yrði erfitt að undirbúa sig vel fyrir þetta próf og því bauð hún kennaranum sínum samstundis fé til þess að tryggja árangur á prófinu. Það hefði hún aldrei átt að gera. Fyrst afþakkaði kennarinn boð mitt sem var út af fyrir sig nógu slæmt. Svo tók hún sig til og nýtti frímínúturnar í að útskýra það fyrir ynjunni að í eina tíð hafi það ekki verið óalgengt að kennarar hafi þegið mútur þ.e. þegið ,,umslag" og tryggt námsárangur nemenda á pappír. Svo hafi þetta lagst af og flestir hafi núna ímugust á þeim sem hugsa um að ..borga sig út úr vandanum".

Ekki var það betra í næsta tíma þar sem ynjan náði að mismæla sig nokkuð oft, kannski of oft og t.d. hélt hún því fram að hún hefði nýlega barið kennarann sinn! Ansans, tónn til eða frá.

Kæru lesendur, það eru þó nokkrar flettingar á þessari síðu og ég veit um einhverja en marga ekki eruð þið ekki til í að skrá nafn ykkar annað hvort í kommentakerfið eða gestabókina? Bara svona fyrir mig, ég er ekkert viðkvæm fyrir dulnefnum svo lengi sem ég fatta hver þau eru.
Ynjunni skilst að þetta sé algengt umkvörtunarefni og ynjan er bara ekki sérstakari en svo.
Takk