fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Ynjan var á leiðinni heim eftir langan dag í skólanum. Leiðin heim er ekkert sérstaklega stutt en aksturinn er ánægjulegur svona almennt.

Svo er hún stopp að bíða eftir grænu ljósi eins og hitt fólkið á vespunum og fólkið í bílnunum. Grænt ljós og kerla heyrir DÚNK.

Ekkert sérstaklega brugðið lítur hún við og sér mann liggja í götunni og bíl fara lötur hægt eftir löppinni á manninum og hann öskrar.
Ynjan var heldur gáttuð og brást hetjulega við, hún starði bara! Jú núna var henni brugðið einhverra hluta vegna hugsaði hún ekki um annað en að maðurinn væri í gráum buxum! Já þegar einhver þarf á aðstoð að halda er gott að leggja á minnið hvernig buxum viðkomandi er í.

Svo var bílinn stopp og hjakkaði aðeins á lærinu á manninum, þangað til Ynjan rankaði aðeins við sér og lagðist á flautuna og gaf fólkinu merki um að bakka, en fólkið í bílnum horfði flóttalega í kringum sig og hafði ekki hugmynd um hvað var í gangi og af hverju bíllinn rann ekki ljúft að stað.

Loks tók einhver við sér og hoppaði af vespunni sinni og hljóp að bílnum. Maðurinn undir bílnum var líka farinn að berja í húddið á bílnum.

Ökumaðurinn steig út skelfingulostinn að sjá og stumraði yfir manninum sem hafði lent undir bílnum og gaurnum sem hafði vit á því að stökkva til og aðstoða greyið manninn. Buxurnar hans voru enn gráar þegar Ynjan rankaði endanlega við sér og keyrði í burtu, vitandi að maðurinn væri í góðum höndum.

Gráar buxur!