mánudagur, ágúst 01, 2005

Göngutúrinn

Þegar ég var yngri og bjó í litlu sjávarplássi, gekk lífið út á fiskinn. Í þorpinu voru starfræktar nokkrar fiskvinnslur og ég vann nokkur sumur í einni þeirra.
Í frystihúsinu var mikið af fólki og mikið af sérstökum karakterum. Einn þeirra var Gísli kallaður göngutúr. Ég minnist þess ekki að hafa talað oft við hann en man eftir honum í bakgrunninum, reykjandi vindil á leiðinni í göngutúr eftir vinnu. Frystihúsin eru flest farin á hausinn en göngutúrinn er enn í bænum.
Gísli hefur að mér vitandi alltaf búið einn en á að sögn tvö uppkomin börn sem ég hef aldrei séð. Árin liðu og ekki minnist ég þess að hafa hugsað mikið til Gísla, gerði ráð fyrir að hjá honum sem og öðrum gengi lífið sinn vanagang.
Eitthvað hefur lífið ákveðið að svíkja Gísla, hann er ekki alveg heill heilsu þrátt fyrir mikla jákvæðni. Hann er hættur að vinna, fluttur á elliheimilið á staðnum. Hann nýr þumlunum stanslaust og andlitið kippist til og mest áberandi er þegar hann hreyfir munninn á sér, þá eru viprur um munnvikið og hann á erfitt með að halda munninum lokuðum. Sökum veikinda hans er hann farinn að fá rauða skelli í andlitið.

Lífsgleðin er enn til staðar þótt minnið sé að fara. Hann elskar að dansa, ganga og hitta túrista. Þessa líffyllingu sína nær hann að uppfylla þegar skemmtiferðaskipin koma í bæinn, hann man ekki hvað starfskonan heitir á elliheimilinu en hann man upp á hár hvenær skipin eru væntanleg að landi.
Gísli fer eins og klukka niður að höfn og bíður ferðalanganna. Um leið og þeir stíga á land heilsar hann þeim á engilsaxnesku og tekur sporið, stundum reynir hann að fá einhvern til að dansa við sig en oftast sveiflast hann til einn. Að launum þiggur hann handaband og litla kveðju.
Nú bíður Gísli í ofvæni eftir því að presturinn komi úr sumarfríi, hann þráir ekkert heitar en að fá að gerast sendiboði kirkjunnar, helst í tengslum við skemmtiferðaskipin. Það er ábyrgðarstarf að opna kirkjuna.
Gísli er yfirleitt einn á göngu en staldrar hjá þeim sem við hann vilja tala, segir þeim frá börnum sínum, skemmtiferðaskipunum, mannráninu, kirkjunni og öðru sem hann hefur unun af. Stundum stoppar hann hjá þeim sem helst vilja gleyma tilvist hans.
Fæstir í bæjarfélaginu vilja af honum vita, helst ekki að hann komi að skipunum, enn síður að hann dansi hvað þá að hann láti yfir höfuð sjá sig á skemmtunum. Ítrekað hefur verið reynt að meina honum að taka þátt í komu túristanna, en Gísli veit að hann getur dansað og veit að koma skipanna gefur lífi hans tilgang.
Gísli hefur engan svikið og engan leikið illa, hann þráir að dansa og hitta fólk.
Gísli er örugglega ekkert ólíkur mér fyrir utan minnið.
Ég er þó oftast velkomin þar sem ég er. Reykvíkingum er alveg sama hvar ég dansa.
Sem betur fer á göngutúrinn sér málsvara í bænum en þeir vinna því miður ekki á elliheimilinu, þar segir hann að sér sé smalað sem sauðfé væri.

tökum sporið