föstudagur, apríl 30, 2004

ALGJÖR HETJA

Hetja er skemmilegt orð, samansett af mörgum merkilegum stöfum og samkvæmt heilagri orðabók er merking þess kappi, hraustmenni, afreksmaður. Þjóðhetja er einhver sem hefur unnið afrek fyrir ættland sitt. Hetjukvæði eru til að mynda kvæði eftir mikla kappa.

Gunnar er nú meiri hetjan! Sjá má á þessari setningu að talað er um karlmann sem er hetja og það merkir að hann sé mikill kappi. Glöggir lesendur hafa séð að hetja er kvenkynsorð þó það merki kappi og Gunnar sé slíkur.
Eitthvað virðist það fara fyrir brjóstið á fólki að þetta merka orð sé kvenkyns, þó það ætti ekki að valda skaða. Jafngilt er ef Harpa er nú meiri hetjan! Það ætti jafnvel að hljóma betur þar sem talað er um konu sem er hetja (kvkorð).
Hetja á því jafnt að eiga við konur og karla sem unnið hafa til afreka og jafnvel dýr ef út í það er farið (Keikó var hetja á sínum tíma).
Þó orðið sé í kvenkyni hafa margir brugðið á það ráð að tala um Gunnar annarsvegar sem hetju og svo Hörpu hinsvegar sem kvenhetju!!!! Hvað er það eiginlega? Orðið er kvenkyns, vísar í afrek (þó lýsingin sé að mestu í kk) óháð kyni en samt er sett kven fyrir framan? Hvað veldur því? Getur verið að konur í gegnum aldirnar hafi hreinlega ekki unnið til afreka fyrr en á tímum kvennahreyfingarinnar og að íslensk kvennanöfn séu svo óræð að betra sé að setja kven fyrir framan? Getur verið að kvenhetja sé eitthvað meiri og betri hetja en hetjan sjálf hann Gunnar? Má vera að kvenhetjur séu málaðar í afrekum sínum á bikini? Eða með sítt undir höndunum og yfirvaraskegg og því betra að slá varnagla?

Einmitt
Hetjan