þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Langi pistillinn um fyrsta daginn

Fyrsti dagurinn í skólanum að baki. Ynjan fetaði skólalóðina eins og smákrakki brosandi út að eyrum, enda er ekki hægt annað en að vera glaður í sólskini og hita í febrúar.

Hún er með nýjan kennara sem heitir Lan laoshi, sem þýðir blái kennarinn, sem er soldið fyndið því ynjan hefur bara séð hana klædda í bleikt og múnderingin er yfirleitt slík að maður kallar hana næstum ósjálfrátt barbie.

Svo er Fang laoshi, sem er kennari torg, hana hafði hún í fyrra líka, en er jafnvel að spá í að sjá hvort hún geti ekki skipt um tíma og verið hjá einhverjum öðrum. Fang er nefnilega meira hrifin af því að tala ensku og þess utan skilur ynjan hvorki kínverskuna hennar né enskuna svo.... Ingunn skilur hvað við er átt.

Ynjan er í bekk með bandaríkjamanni sem hefur verið hér í tæp tvö ár og svo taílenskri stelpu sem er fersk beint af bátnum, hún talar litla ensku, en það hjálpar henni að hún er sæt og dugleg í bendingum svo strax eftir tvær kennslustundir stefnir allt í að við verðum góðar vinkonur.

Í seinni tímanum er svo japönsk stelpa með okkur. Ynjan veit að það er ljótt að blóta fólki en japanar eru bara allt of duglegir. Hún byrjaði daginn á því að stinga upp á því að við myndum byrja um miðja bók og læra fyrripartinn bara heima. Ynjan hóstaði og sagði fyrir hönd taílendingsins, sem er í sömu sporum og ynjan var fyrir áramót, að það væri ekki sanngjarnt! Ynjan hafði engar áhyggjur af sér .....

Ynjan hitti skiptimiðann sinn í gær líka, miklir fagnaðarfundir, við ætlum að halda áfram skiptiprógrammi okkar. Svo ætlar kerla að reyna að finna fleiri í tungumálaskiptiprógrammið sitt.

Þetta er orðið langt blogg en ekki er allt komið enn. Þetta með happið og hendina. Fólkið sem ætlaði að leigja með kerlu hætti við svo ynjan er ekki enn komin með húsnæði. Því fer betur að hún fær að gista hjá félögum sínum, en gistinæturnar eru brátt á enda. Í dag fer hún að skoða íbúð sem er alveg í miðri littlu evrópu, íbúðin hljómar vel en er soldið dýr, svo ynjan ákvað að ef hún væri geggjuð myndi hún skella sér á hana.
Helsti gallinn sem hún sér við þennan íverustað, svona fyrirfram, er að þar býr líka hundur sem heitir Juju og það bara getur ekki boðað gott. Svo fyrir hönd íslenska kattarstofnsins er hún ekkert að missa sig en sjáum hvað setur.

....vonandi er ykkur ekki illt í augunum af þessari langloku....