mánudagur, febrúar 27, 2006

Xiao Jie

Hún læðist yfirleitt inn í kennslustofuna, og reynir að fá sæti við hliðina á ynjunni. Takist það skimar hún yfir bækur ynju, flettir í gegnum heimavinnuna hennar og segir ,mjög gott". Brosir svo eins og sólin hafi verið sett í andlitið á henni, bendir á sína bók og segir ,ekki gott'. Brosið lýsir enn upp kennslustofuna.

Svo er ynjan á leiðinni á kaffihús í dag, inn á skólalóðinni, til móts við tungumálaskipti-vin sinn. Veðrið er gott- ynjan eitthvað að slóra. Ynjan heyrir einhvern kalla Íshjarta og fer að velta því fyrir sér hvort einhver annar í skólanum heiti sama nafni og hvort tónarnir séu rangir og merkingin önnur. Það hvarlar ekki að ynjunni að líta við.

Stuttu seinna er hún komin, móð og brosandi, með skólabókina í fanginu og gengur með ynjunni. ,Íshjarta' segir hún lágt ,homework- ég skil ekki'.

Með bendingum, kínverskum og enskum orðum ákveða þær að fara saman og kíkja yfir heimavinnuna.

, Ekki allir- ég skil ekki´ segir hún.

Ynjan teiknar mynd af fjórum körlum og krossar yfir einn ,ekki allir´. Teiknar aðra mynd, þrjár konur-krossar yfir eina ,ekki allir´. Enn ein mynd er teiknuð, fjórir menn, hringur settur um þá ,allir´.
Hún brosir og byrjar heimavinnuna, saman lesa þær yfir verkefnið og hún leysir það, að virðist áreynslulaust.

Svo lokar hún bókinni og segir , ég´ og setur hendurnar upp eins og hún keyri.
,Nú já´heyrist frá ynjunni ,áttu bíl?´
,Nei... ég keyra´.

,Já þannig´segir ynjan og reynir að fá botn í málið. Hún hristir bara höfuðið og lætur sem hún keyri. Segir svo ,fara´og ,takk´. Stendur upp og spyr hvort við sjáumst ekki á morgun í skólanum.

,Neineineinei, kennarinn sagði að það væri ekki tími á morgun´ segir ynjan og reynir að útskýra það samtímis með höndunum. Aftur reynir ynjan að útskýra með orðum og látbragði, gengur ekki.

,Ég skil ekki´.

Já hmmm, best að teikna upp vikuna, gera hring um mánudag...í dag.... tími. Hún kinkar kolli ,ég skil´.
Hringur teiknaður um þriðjudag ,á morgun.... ekki tími´. Ynjan krossar yfir þriðjudag. Ynjan er orðin stressuð og teiknar annan hring um þriðjudag ,á morgun - þú sofa´, ynjan setur hendurnar undir kinn og þykist hrjóta.

Hún hlær... ,á morgun ekki koma´. Ynjan samþykkir það. Svo hermir hún eftir ynjunni að leika sofa og segir ,ég ekki- á morgun þú sofa´. Þær brosa. Ynjan gerir hring um miðvikudag ,skóli koma´. Andlitið ljómar ,bless´.

Þetta er Xiao Jie, hún er frá Taílandi, við erum vinkonur.
Einu sinni leið ynjunni eins og Xiao Jie, nema ynjan er svo heppin að kunna ensku.

Ynja hlakkar til að spjalla við Xiao Jie og vita um hvað þær eru að tala.