þriðjudagur, mars 30, 2004

Fyrir nokkrum árum horfði ynjan lítið á sjónvarp, ekki meðvituð ákvörðun þannig. Þar fann hún ekki þá afþreyingu sem hún sóttist eftir.
Sú var tíðin að ynjan fékk ekki eitt einasta dagblað á heimilið. Grét ekki hátt, horfði helst á fréttir og sat stöku sinnum á kafiihúsum bæjarins og las blöðin. Ekki má gleyma sælunni við að fá sendan póst frá Hagkaup eða Elko. Þetta voru hér í gamladaga prýðispóstar. Ynjan man heldur ekki eftir því að hafa hlotið varanlegan skaða af, nema kannski ekki alveg verið inn í umræðunni en af sinni alkunnu snilld, laug hún sig út úr dægurmálaumræðunni, skáldaði í eyðurnar og einstaka sinnum þagði hún af fávisku, en laug þó heldur.

Svo kom Fréttablaðið, stopult, en vissulega var notalegt að sitja í eldhúsinu að morgni til og drekka í sig fróðleik um samfélagið og líðandi stund. Ilmurinn dásamlegur og meira kaffi drukkið en ella áður en lagt var af stað. Þegar lítið var um fréttir gat maður prófarkarlesið fyrir blaðið, merkt inn í með rauðum penna og jafnvel skrópað í einum tíma eða svo. Í þá tíð grét maður úr hlátri yfir innsláttarvillum og öðrum villum að nóttu til (eða fyrir 8 á morgnanna). Jú fréttablaðinu var tekið fagnandi þegar það kom.
Svo stappaði blaðburðarstúlkan (pólitísk ákvörðun) í sig stálinu og byrjaði að bera út á hverjum degi. Nú var það komið inn í rútínuna að lesa blaðið og hálf manneskja var ynjan ekki ólesin. Því miður fer villunum fækkandi.

Morgunblaðið komst á snoðir um að fúllyndustu ljón jarðar (El ynjos) voru nokkuð jákvæð fyrir hádegi með Fréttablaðið og ákvað að sjá hvort ekki væri hægt að hagga næðistund þess. Innrás morgunblaðsins var hafin. Ágætt alveg. Tvö prýðisgóð blöð snemma morguns og enn meiri ástæða til að skrópa í tímum hins lærða manns. Ynjan las blöðin dálkanna á milli og heyrði nú lygi hennar sögunni til.

Og þá kom DV í hatrammri baráttu um anda ynjunnar í póstkassann. Aðstæðurnar voru nokkuð óþægilegar, lestur blaðanna tók orðið óralangann tíma en blessunarlega sat ynjan kaffimett í eldhúsinu og skólaheimsóknir heyrðu sögunni til.
Ynjan stoppaði ekki lengi í paradís, hún sá fram á að komast ekki í skólann nokkurn tímann aftur, kaffið var búið og ljósaperan sprungin. Að auki er DV sorp sem hún vill ekki láta bendla sig við.
Hvað er þá til ráða?
Jú réttilega alveg það sama og ynjan hugsaði. Skítt með kaffið, niður með blöðin og lengi lifi nætursvefninn.... Það skaðar ekki að ljúga í dægurmálaumræðunni til að halda haus.